08.08.1913
Neðri deild: 29. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í C-deild Alþingistíðinda. (686)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Það er ekki ástæða til þess að fjölyrða um þetta mál; það hefir þegar verið rætt allítarlega. Eg vil að eins leyfa mér að benda á, að allar breyt. till. meiri hluta nefndarinnar á þgskj. 304 miða að því að veita Akureyrarkaupatað sama rétt í undirbúningnum undir samþyktina sem sýslunum. Þó þótti rétt að orða 2. gr. alveg upp af nýju, vegna þess að ella mundu orðabreytingarnar á henni hafa orðið svo miklar. Ennfremur hefir nefndin komið fram með viðaukatillögu á þgskj. 315 og er hún í samræmi við lög nr. 52, 20. Des. 1901 um ýmisleg atriði, sem snerta fiskiveiðar á opnum skipum. Hér er þó endurnýjunartíminn eða gildi samþyktarinnar sett 5 ár í stað 10 ára í greindum lögum. Ástæðan til þessarar viðaukatill. er sú, að í flestum tilfellum hefir það reynst afar erfitt að fá nægilega marga kjósendur á fund, þar sem átt hefir að nema úr gildi slíkar samþyktir, sem stafar af því, að áhuginn er venjulegast ekki almennur fyrir afnáminu eða ónýtingunni, og í þessu tilfelli verða það sennilega einstakir menn, en ekki almenningur, sem óska þess að samþykt verði feld úr gildi. Þetta ákvæði ætti því að draga úr mótstöðunni á móti frumvarpinu.

Að svo mæltu vona eg, að frumvarpið með þessum breytingum nái samþykki háttv. deildar og verði afgreitt til háttv. Ed.