07.07.1913
Neðri deild: 5. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (70)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Matthías Ólafsson:

Eg vildi að eins segja örfá orð, einungis til að lýsa óánægju minni yfir því, í hvaða átt umræðurnar hafa gengið í dag. Þær hafa að mestu snúist um annarleg efni og farið utan hjá aðalefninu.

Mönnum hefir komið saman um, að rétt væri að bæta kjör kennaranna, en samt hafa menn viljað bægja málinu frá nefnd. Það eina rétta sem komið hefir fram frá andstæðinganna hlið, er till. háttv. í. þm. S.-MÚl. (J. Ól.) um að setja málið í nefnd.

Eg þykist vera viss um, að það sé satt, að þegar fregnin um þetta frumv. barst út um land, þá hafi hún vakið mikla óánægju meðal almennings. En þess ber að gæta, að ekki var altjent sagt rétt frá, heldur var fregnin oft og tíðum blandin margvíslegum ýkjum og ósannindum. Og enginn hlutur slær viðkvæmara á strengi alþýðunnar, heldur en það, þegar talað er um að auka útgjöld landssjóðs. Það getur því verið góð kosningabeita að vera á móti slíkum frumvörpum, en sú hjálp dugar að eins í svip, en ekki til langframa.

Ef þingið kemst nú að þeirri niðurstöðu, að fella hækkun á launum kennara mentaskólans, þá væri rétta svarið Við því, að þeir segðu allir af sér og færu að stunda einhverja aðra atvinnu. Og hvernig værum við staddir þá? Væri þá ekki betra að hafa veitt þeim launaviðbótina?

Eg segi ekkert um, hvernig eg greiði atkv. um aðra liði þessa frumvarps, en eg mun hiklaust greiða atkv. með hækkun á launum kennaranna.

Eg álít, að kennarastétt landsins sé yfir höfuð frekar illa launuð.