11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í C-deild Alþingistíðinda. (720)

57. mál, girðingar

Þorleifur Jónsson:

Eg hefi beðið um orðið til þess að segja nokkur orð um breyt.till. á þgskj. 320. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir talað rækilega um málið og skal eg því vera stuttorður.

Háttv. framsögumaður (E. P.) hélt því fram, að ekki væri rétt að breyta ákvæðum vegalaganna eins og við förum fram á í breytingartillögu okkar, en þó skildist mér sem hann legði ekki mikið kapp á að spyrna móti breytingartillögu okkar. Eg sé það heldur ekki að það sé neitt hættulegt, þó að þetta ákvæði sé felt úr vegalögunum með þessu ákvæði í girðingalögunum, og því tel eg óþarft að fara að koma með frumv. til laga um breytingu á vegalögunum. Stjórnin og sýslunefndirnar munu oftast nær veita leyfi til að gera girðingar yfir veg með hliði á fyrir veginum, og hvers vegna á þá að vera að gera mönnum óhægra fyrir, með því að setja svona reglur. Mér finst það óþarfa kvöð, sem á almenning er lögð, að þurfa að sækja um leyfi til stjórnarráðs eða sýslunefnda um alls skapaða hluti, og þá einkanlega þegar menn segja að það sé hér um bil víst að leyfið verði gefi.

Mér er nú að vísu ekki kunnugt um, hvaða reglum stjórnarráðið hefir fylgt í þessu efni, en býst við að það muni sem oftast veita leyfi til að hafa grindur í hliðum, nema þá á fjölförnustu vegunum, svo sem vegunum, er liggja upp frá stærri kaupstöðum landsins, og ef að þetta er reglan, þá fellur alt í ljúfa löð; en með þessu er tekin af óþörf skriffinska, sem getur tafið framkvæmdir og er engum til þæginda.

Hinu býst eg síður við, að stjórnarráðið neiti í flestum tilfellum að hafa grindur í hliðum, því það væri líka mjög oft sama sem algert bann væri lagt við girðingum og mönnum þar með bannað að verja land sitt. En það ræki sig mjög hvað á annað, að löggjafarvaldið hvetur menn eða tælir til að leggja kapp á að friða land sitt með girðingum, með því að gefa ýmis fyrirheit í fjárlögum og girðingalögum, ásamt styrk frá Búnaðarfélagi Íslands, — ef þeim væri svo bannað að hafa grindur í hliðunum, því að lítið gagn er að girðingum, ef ekki má loka hliðum. Eg hugsa ekki að stjórnarvöldin vilji tæla menn þannig. Ef stjórnin ber Ferðamennina svo fyrir brjósti, að hún vill banna mönnum að hafa lokuð hlið á girðingum sínum, þá sýnist mér að landssjóður ætti að leggja girðingu með fram vegum.

Eg er ekkert hræddur um það, þótt þessi breytingartillaga okkar verði samþykt, að það verði mjög misbrúkað. Á mjög fjölförnum vegum myndu menn ekki gera tilraun til að girða yfir vegi með hliði fyrir, af því að menn sæu að þau hlið yrðu aldrei látin aftur. En á útkjálkum landsins og upp til sveita, þar sem ekki er mjög mikil umferð, þá er ferðamönnum engin vorkun að opna hliðin og láta þau aftur. Væri þar því óþarfi að leita til stjórnarinnar um leyfi til þess að mega hafa hlið og sama er að segja um það, ef leyfisins á að leita hjá sýslunefndinni, og væri þó skárra að þær einar hefðu þessar leyfisveitingar með höndum, ef menn vilja endilega að stjórnarvöld hafi eitthvað með þetta að gera.

Eg hefi heyrt, að í Rangárvallasýslu, þar sem er þó fjölfarinn þjóðvegur, að þar á vegum séu ekki allfá hlið, sem menn verði að tefja sig við að opna. Ef leyfi er veitt til þess þar, þá hugsa eg líka að óþarfi sé að banna þetta út um land, þar sem minni umferð er. En ef gengið er fram hjá ákvæðum vegalaganna og menn taka sér leyfið sjálfir óátalið, þá er óþarfi að láta þau standa. Vona eg því að háttv. deild taki þessum tillögum okkar vel.

Út af því, sem hv. þm. Dal. (B. J.) sagði

um breyt.till. á þgskj. 334 við 9. gr., vildi eg segja fáein orð. Háttv. þingmaðar vildi láta fella burtu síðari málsgrein 9. greinar. Við nánari umhugsun hefi eg komist að raun um, að ekkert er á móti því að breyt.till. nefndarinnar á þgskj. 334 við þessa grein verði samþykt. Það yrði oft ilt að skylda menn til þess að girða eftir öllum þeim smákrókum sem geta verið á landamerkjum. Girðingin yrði þá oft að mun lengri, og því kostnaðarsamari. Báðum hlutaðeigendum yrði það líka til hagræðis að girða beint og mundi þeim þá oftast nær koma saman um slíkar girðingar. Hér á landi er líka svo mikið landrými viða, að þó að löndin séu dálítið skert til þess að geta girt beint, þá getur það vel borgað sig, ef að það styttir girðinguna að mun. Er því rétt að stuðla að því að girðingar séu gerðar sem beinastar.