11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (728)

57. mál, girðingar

Bjarni Jónsson:

Gagnvart því sem inn nýi framsögum. meiri hluta landbúnaðarnefndarinnar (E. P.) sagði, að hér væri ekki ráðist á eignarréttinn, þar sem menn ættu að fá endurbót fyrir skaða sinn, verð eg að halda fast við fyrri skoðun mína á því efni. Það er áreiðanlega ekkert annað en að ráðast á eignarrétt manna, að ráðast á umráð þeirra yfir eignum sínum. Þegar tekið er eignarnám, er eign tekin af mönnum að nauðugu, jafnvel þó að gjald komi fyrir. Háttv. framsögum. (E. P.) misskilur þetta fullkomlega.

Það er margt fleira, sem hér getur komið til greina, þó að eg hirði ekki um að telja það alt upp. Eg er t. d. ekki viss um, að eg vilji hafa mín megin við girðingu, nes úr landi annars manns, þar sem opnar mógrafir eru, sem hætta getur stafað af bæði fyrir börn og búfénað, Þannig mætti halda áfram að telja upp, til þess að sýna, hversu ósanngjarnt þetta er.

Háttv. 2. þm. G.-g. (gr. D.) er eg þakklátur fyrir hana athugasemd. Því að ef ósóminn nær fram að ganga, er það langt um betra að báðir aðilar velji hvor sinn mann til þess að meta skaðann, og oddamaðurinn einn sé skipaður af yfirvöldum.