11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (736)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. minni hl. [Skúli Thoroddsen]:

Eg get tekið undir með háttv. framsögumanni meiri hl. (L. H. B.), að því leyti, að eg hefi ekki ástæðu til að vera langorður um þetta mál. Eg hefi samið allýtarlegt nefndarálit, og vona eg að háttv. þingdeildarmenn hafi þegar kynt sér það.

Eg skal þó benda á, að mér finst kenna mótsagnar í nefndaráliti meiri hl., þar sem talað er um, að löggilda fána, er blakta megi í friði »innan íslenzks valdsvæðis«, en tekið þó jafnframt fram, að ekki sé til þess ætlast, að fáninn sé siglinga- eða verzlunar-fáni. Íslenzkt valdsvið. nær þó ekki eingöngu yfir landið sjálft, heldur og yfir landhelgissvæðið, svo að ef ekki ætti að vera mótsögn í álitsskjali meiri hluta nefndarinnar, ætti þó að vera heimilt að nota fánann í landhelgi Íslands.

Það má meira að segja líta svo á, sem íslenzkt valdsvið nái að mun lengra en yfir landhelgissvæðið, — þ. e. líta svo á, sem hvar sem íslenzkt skip sé, þar sé og Ísland; en út í það skal hér eigi frekara farið.

Það sem mig skilur á við meiri hl. nefndarinnar, það er — eins og nefndarálit mitt sýnir — það, að úr því að farið var að hreyfa málinu á þessu þingi, sem eg að vísu tel rétt vera, þá vil eg að sporið sé stígið fult, og lögleiddur siglinga og verzlunarfáni.

Þykist eg hafa skýrt það nægilega í nefndaráliti mínu, að eg tel oss Íslendinga hafa fullan rétt til þessa, hvort sem litið er á siðferðislegan eða lagalegan rétt vorn, sem hvor um sig er óyggjandi.

Í stjórnarskránni frá 5. Jan. 1874 er ákveðið, að í »sérstaklegu málunum« skuli landið hafa »löggjöf sína og stjórn út af fyrir sig«, en í stöðulögunum frá 2. Jan. 1871 eru í 3. gr. »siglingarnar« taldar meðal »sérstaklegu málanna«, og getur mér því ómögulega skilist, að danska þjóðin geti eða vilji vera þekt að því, að gefa út lög, sem hún síðan fótum treður eða vill ekki standa við.

Annars er mér næst skapi að ímynda mér, að mótspyrna Dana í þessu máli stafi eigi að; litlu leyti af því, að þeir sem hafa átt að gera þeim málið ljóst, hafi eigi útskýrt það eina rækilega og þurft hefði, og trúi eg því eigi öðru, en að við hljótum að geta fengið siglinga fána löggiltan, ef eigi brestur oss úthaldið eða þrautseigjuna.

Að því er á hinn bóginn kemur til þess, að fara að löggilda hér staðarfána, fæ eg eigi séð, að þess sé nein þörf, þar sem engin lög banna að vér drögum á stöng á húsum vorum hvaða fána sem oss þóknast. En fáninn á hinn bóginn óvirtur — og tilfinningarnar særðar —, sbr. nefndarálit mitt, er ákveðið er jafnframt, að hann megi ekki notast sem siglingafáni, — megi ekki sjást, er út fyrir landsteinana kemur.

Yfirleitt vildi eg heldur, að málið gengi ekki fram á þessu þingi, en að frumv. meiri hlutans yrði samþykt, eins og það er í garðinn búið, og skal það þó engu að síður játað, að hjá meiri hluta nefndarinnar hefir komið fram góður vilji, miðað við afatöðu hans til málsins, er það kom fram á þingi 1911.

Ávinningur er það þannig t.d., að horfinn er nú að öllu ágreiningurinn um gerð fánana, þar sem bæði meiri og minni hlutinn hafa nú orðið ásáttir um bláu og hvítu litina.

Atburðirnir, sem hér urðu 12. Júní þ. á., hafa gert það að verkum, að málinu hefir unnist fylgi, en eg held, að það spilti þó ekki, að það fengi þó heldur að hvíla sig, en verða afgreitt á þessu þingi í því formi, sem meiri hluti nefndarinnar vill vera láta.

Skal eg svo eigi fjölyrða meira um mál þetta að sinni, en skírskota til röksemdanna í nefndaráliti mínu.