11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í C-deild Alþingistíðinda. (740)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögnm. minni hl. (Skúli Thoroddsen):

Hæstv. ráðherra gat þess, að honum þætti það óviðfeldið, að mál þetta hefði ekki verið borið undir konung, áður en Alþingi tók það til meðferðar, — taldi það kurteisisskyldu við hann, að svo hefði verið, að heyrt hefði verið álit hans um gerð fánans o. fl. — En til þessa er því einu að svara, að slíkt hefir aldrei venja verið, að því er frumv. einatakra þingmanna snertir, enda hefði það þá helzt verið ráðherrans, sem auðvitað mátti geta getið sér þess til, að slíkt frumv. kynni fram að koma.

Út af ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), þar sem hann gat þess, að meiri hluti Íslendinga í millilandanefndinni frá 1908 hefði litið svo á, sem fáninn væri sameiginlegt mál, en eigi íslenzkt sérmál, þá sannar það eigi annað, en það — sem og sýndi sig í eigi all-fáum öðrum greinum —, að þeir höfðu þá eigi kynt sér stöðulögin frá 2. Jan. 1871, sem skyldi, eða hirtu þá eigi, að fylgja fram rétti vorum, sem átt hefði að vera.

Annars er það mjög leitt, að maður skuli reka sig á það, hvað eftir annað, að enda íslenzkir þingmenn skuli eigi — að því er séð verður — hafa kynt sér stöðulögin, þ. e. skuli eigi hafa gert sér það ljóst, hvað Danir hafa sjálfir gengist undir, og viðurkent rétt vorn að vera.

Leitt, að vér Íslendingar skulum eigi sjálfir geta fylgst að málum, og haldið því fram, að Danir fullnægi þeim skuldbindingum, sem ótvírætt felast í stöðulögunum.

Vera má að vísu, að Danir hafi sjálfir, er stöðulögin voru gefin, eigi gert sér það fulljóst, hvað í þeim var falið, hafi og hugsað sér, að halda þá öllu í sama horfinu sem verið hafði, eins og sýndi sig á efndunum, að því er ráðherra snerti, þar sem svo var hagað, að einn dönsku ráðherranna, þ. e. dómsmálaráðherra Dana, var að eins skírður jafnframt ráðherra Íslands, og látinn þá og hafa málefni Íslands á hendi, enda alt síðan gert, sem unt var, til að halda öllu í sama horfinu, sem verið hafði, — láta »jafnréttið« í atvinnumálum haldast, og samræmi í danskri og íslenzkri löggjöf, að svo miklu leyti sem íslenzkir staðhættir gerðu ekki annað alóhjákvæmilegt.

En Dönum er ekki fremur heimilt að gefa út skjöl, eða skuldbingar, og rjúfa þær, en hverjum öðrum. — En það vitum vér allir, að ef einhver af oss hefir gert einhvern samning eða skuldbundið sig til þess að gera eitthvað, eða láta eitthvað ógert, þá verður hann að standa við orð sín. — Þess vegna verður ekki minna krafist af Dönum, en að þeir standi og við það, sem í »stöðulögunum« er heitið.

Jafnvel hr. Knud Berlin viðurkennir þá og, að vér Íslendingar getum löggilt »heimaflagg«, eins og háttv. framsögum. (L. H. B.) tók fram, þ. e. játar það og þar með, að fáninn sé eigi eingöngu sameiginlegt málefni. — En nú vita það allir, að landhelgin er ekki síður Ísland, en landið, er vér stöndum á, og getur hr. Knud Berlin því eigi véfengt, að í landhelgi Íslands Sé oss þá og heimilt, að nota fánann, sem »siglinga og verzlunarfána«.

Að öðru leyti verð eg og að leggja áherzlu á það, að hefðu Danir ætlast til þess, að fáninn væri sameiginlegi mál, þ. e. væri eigi, sem íslenzkt sérmál, falinn í orðinu »siglingar« o.fl., sbr. enn nefndarálit mitt, þá hefðu þeir orðið að taka það fram berum orðum í »stöðulögunum«.

Eins og bent er á í nefndaráliti mínu, verð eg því að líta svo á., sem ótvírætt sé, að væri því atriði, hvort Danir hefðu ekki með ákvæðum »stöðulaganna« frá 2. Jan. 1871 afsalað sér öllu tilkalli til þess, að hafa nokkur afskifti af því, hvaða fána vér Íslendingar höfum, þá hlytum vér að vinna það mál, ef réttlátur dómari ætti um það að fjalla.

Það var ekki rétt hermt hjá háttv. framsögum. meiri hl. (L. H. B.), að eg hefði sagt það, að fánafrumvarpið hefði verið samþykt at Alþingi 1911. Eg sagði að eins, að neðri deild hefði árið 1911 Samþykt frumv. um siglinga- og verzlunarfána, sbr. álitaskjal mitt, svo að deildin stigi því spor aftur á bak, færi hún nú að láta sér lynda »staðarfánann«.

Háttv. framsögum. meiri hlutaus drap eitthvað á þjóðaréttinn, — þ. e. taldi hann mundu heimta þjóðarsjálfstæðið, sem skilyrði »verzlunar- og siglingafánans«.

En hvað sem því kann að líða, skal eg benda háttv. þingmanni á það, að vér höfum allir skrifuð þau lög í brjóstum vorum, að hver þjóð eigi réttinn til þjóðarsjálfstæðis, þ. e. réttinn til þess, að ráða ein öllum sínum málum, enda geri hún þá eigi öðrum þjóðernum rangt, né vanræki skyldur sínar gegn þeim.

Enn fremur og þau lögin, að ekki eigi neinn einstaklingur né þjóðerni að láta það nokkurt augnablikið viðgangast, að öðrum, þ. e. einstaklingi eða þjóðerni sé gert rangt, þ. e. varnað þess réttar, sem hver og einn — sem og hvert þjóðerni — veit sér bera, og öllum er skylt að óska, að hver einstaklingurinn sem og hvert þjóðernið æ njóti.

Hitt er annað mál, að vér vitum það allir, hversu þjóðernin — sem og einstaklingar þeirra — hafa nær einatt brugðist þeim skyldum sínum til þessa.

En hvað fánann snertir, höfum vér viðurkenningu Dana sjálfra, sem þeim þeim sízt er ætlandi að ganga frá, séu þeir mintir einarðlega á hana, og illa færi þeim óorðheldnin, og það eigi sízt við sér máttarminna og fámennara þjóðerni. En hvað »Social-Demokraten«, »Riget« o. fl. blöð Dana af fáfræði sinni eru að flytja lesendum sínum um þessi efni, það er ekkert að marka.

Það sýnir ekkert annað en það, að þau líta á málið frá Sjónarmiði »yfirþjóðarinnar« er sig svo telur, og hafa enn eigi látið sér skiljast, að sanna mikilmenskan er einmitt í því einu fólgin, að sýna þeim veglyndi og hjálpfýsi, sem minni máttar eru, en eigi löngun til neins konar yfirdrotnunar.

Sannarlega situr það og illa á smáþjóð, eins og Dönum, sem daglega kvarta undan meðferð Þjóðverja á löndum sínum í Norður-Slésvík, að vilja beita oss mikilmensku, eða sýna sig stórmenni, er vér krefjumst réttar vors, sanna réttarins, sem þeir sjálfir finna þó sárt til að löndum þeirra í Norður-Slésvík er varnað. —

Vanalega verður sá þó næmari — eða ætti að minsta kosti að verða það —, sem sjálfur er kvalinn, og ætti þá og að verða enn færari um það en ella, að skilja þá sams konar kvöl annara.

Hitt er, að láta kvölina hafa á sig alöfug áhrif, að verða þá þess tilfinningasljóvari, að því er kvöl annara snertir.

Eg man svo ekki að eg þurfi að svara háttv. framsögumanni meiri hlutans (L. H. B.) fleira, en treysti því, að þess verði ekki langt að bíða, er sú skoðun hlýtur að ryðja sér til rúms hjá Dönum, að þeim beri ekki að spyrna á móti því, að vér — að því er til fánamálsins kemur, sem og ella — fáum að njóta þess réttar, sem hver þeirra finnur og veit, ekki síður en vér sjálfir, að oss ber með réttu, og sem þeim því alla ekki er ábyrgðarlaust að varna oss.