11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í C-deild Alþingistíðinda. (743)

21. mál, íslenskur sérfáni

Bjarni Jónsson:

Af því að þetta er nú minn svanasöngur, verð eg að minnast á nokkur atriði, sem eg nefndi ekki í fyrri ræðu minni.

Háttv. ráðherra gat þess í seinni ræðu sinni, að ef 12. Júní og viðburðirnir, sem þá gerðust, hefði átt nokkra sök á þeirri auknu hreyfingu, sem komist hefði á þetta mál, þá væri það harla lítil ástæða, þar sem hann hefði yfirlýsingu forsætisráðherra Dana um það, að yfirmaður varðskipsins hefði ekki gert þessa óhæfu eftir sérstakri skipun yfirmanna sinna. Það er nú svo. Það getur verið gott og blessað, en hitt vantar upplýsingar um, hvort bréfritarinn álítur samt ekki, að hann hafi gert rétt og braytt samkvæmt eldri skipun. Ef svo er, þá er þessi ástæða ekki lítilfjörleg. Þá, er þetta ekki sprottið af misskilningi yfirmannsins, heldur hefir hann breytt rétt samkvæmt yfirlýstum skilningi Dana á þessu efni. Eg veit ekki, hvernig þessu bréfi er háttað, en líklegast þykir mér, að það sé svar upp á skrif íslenzku stjórnarinnar til Kaupmannahafnar. Það væri gott, ef þingmönnum væri gerður greiður aðgangur að þessu bréfi.

Eg hefi verið að hugsa um að koma með sérstaka fyrirspurn um það, hvað gert hafi verið til að vernda Íslendinga gegn slíku ofbeldi, og hver svör hæstv. ráðherra hafi fengið upp á málaleitun, sem hæstv. ráðherra gat um í öðru máli hér í deildinni, að stjórnin hefði sent viðvíkjandi þessu. Ef danska stjórnin telur atferli yfirmannsins rétt, þá er þetta ekki lítilfjörlegt smámál, heldur stórmál, sem verður að athugast.

Það er rétt hjá háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), að blöð Dana — það stór veldið — taka öll málstað yfirmannsins og telja hann hafa rétt gert. Nú væri gaman að vita álit dönsku stjórnarinuar. Líka mætti á orðahljóðan þess bréfs nokkurn veginn sjá, hvernig íslenzka stjórnin hefir skrifað. Sé það rétt hermt, sem mér er sagt, að aðalinnihald bréfsins sé þakklæti til stjórnarinnar fyrir röggsamlega vernd ríkisfánans, þá er þetta ekki lítilfjörlegt atriði, heldur verður Alþingi — sín og þjóðarinnar vegna — að athuga málið.

Það er annars einkennilegt, þegar ofbeldi er sýnt íslenzkum fána á íslenzkri höfn, þá skuli Stjórnin senda út bréf til verndar dönskum fána.

Þar er eg ósamdóma háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), að í hans frumv. felist nokkur uppreist fyrir þessu ofbeldisniði. Það er þveröfugt. Ef við, eftir 12. Júní, förum að samþykkja lands-heima-staðarfána, þá munu andstæðingar okkar, sem vilja kefja allar íslenzkar réttarkröfur, segja: »Þarna sjáið þið! Eftir alt heimta þeir ekki nema lands-heimastaðar-fána. Þeir viðurkenna, að þeir hafi ekki rétt til nokkurs meira. Og ef þeir þurfa að samþykkja lög um þennan fána, þá er það gefið, að fáninn, sem yfirmaðurinn tók, hefir verið ólöglegur og yfirmaðurinn verið í sínum fulla rétti«. Með öðrum orðum: Þetta frumvarp má leggja út sem viðurkenningu okkar á því, að yfirmaður Fálkans hafi breytt rétt. Þetta kalla eg að bita í skottið á sér. Því verður háttv. þingm. að halda mér til góða, þótt eg finni ekki neina uppreisn í frumv. hans.

Háttv. þm. minti mig á, að við hefðum byrjað smátt, en altaf þokast áfram. Eins ætlaðist hann til að nú yrði. Hann byrjaði á stöðulögunum 1871, sem allir vita að eru einhliða dönsk lög, og rakti svo framfarinar. En því byrjaði hann ekki eins á 1814, þegar vér vorum drottinvöld þjóð og engum háðir hvorki með réttu né röngu, og spurði svo:

Höfum vér gengið til góðs

götuna fram eftir veg ?

Nei ! Við stöndum svo nú, að við höfum raunar þennan lagalega rétt ennþá, en við höfum flækt hann og gert hann óljósari fyrir sjálfum okkur og öðrum með hiki og hugleysi á öllum sviðum og í öllum málum, sem við höfum átt í við aðrar þjóðir.

Þar sem háttv. þm. tók sem dæmi keppikeflið 1908, að við hefðum þá getað fengið ið bezta fyrirkomulag, þá er þar til að segja, að það voru ekki annað en auvirðileg hrossakaup, sem áttu að ganga út á það, að við seldum af hendi óskorað þau mál, sem Voru úrskurðarmál um það, hvort við hefðum fullveldisrétt eða ekki, á móti því að fá í eigin hendur nokkur aukamál. Við áttum að renna niður okkar eigin rétti, en svo átti að stinga upp í okkur dúsu, til þess að bæta okkur í munni, þegar við hefðum borðað það, sem við sízt ættum að borða.

Þar sem háttv. þm. mintist á slagbrandinn, sem eg vildi setja 1908, þá fór hann ekki rétt með, þar sem hann sagði að hann hefði ekki haldið, vegna þess að 1911–12 hefði bræðingurinn risið upp. En hann hefir einmitt haldið til þessa dags. Hvað mikill hluti þjóðarinnar hefir hnoðað »bræðing« eða brætt »grút«? Enn hefir ekki brostið flótti í liðið og enn hefir hvorki bræðingur né grútur gengið fram, einmitt vegna þess, að 1908 var settur þessi »slagbrandur í flóttans dyr«, eins og eg komst að orði.

Háttv. þm. vildi viðurkenna stefnu okkar sem hugsjónastefnu. En hann sagði, að hugsjón án vonar um framkvæmd væri jafnfráleit og framkvæmd, sem sneidd væri allri hugsjón. Þetta er ekki rétt að því leyti, að það er örðugt að segja, að nokkur bugsjón sé nokkurn tíma aneydd von um framkvæmd. Ósigur hugsjónanna bæði hér á landi og annarstaðar mun sjaldnar koma af því, að þær séu óframkvæmanlegar, heldur af hinu, að þeir menn, sem hugsjónunum fylgdu og börðust fyrir þeim, renna frá þeim og þora ekki að standa við þær, áður en séð er, hvort þeir vegi til sigurs eða ekki. Og þá er ekki að undra, þótt flótti bresti í alt liðið, þegar forsprakkarnir hefja flóttann. Þess er ekki að vænta af óbreyttum liðsmönnum, að þeir haldi áfram að berjast, þegar fyrirliðarnir hopa. Á þessu farast flestar hugsjónir. Þegar aldur færist yfir menn, þá kemur matarins mikla hugtak, og það verður svo umfangsmikið, að það bolar út æskuhugajónunum, sem beztar eru.

Eg hygg, að það sé ekki að eins fallegt að fylgja fram hugsjónunum, heldur líka gagnlegt — og fylgja þeim heilum.

Það verður oft þegar menn fara að þreytast, að þeir mola út úr hugsjónunum, af því að þær séu ekki framkvæmanlegar — það sé þó betra að slá af og fá dálitið minna — það sé »praktískara«. Og þá vill það oftast koma fram, sem kallað er »hvataskifti« í heimspekinni, — þegar menn gleyma inni upprunalegu stefnu og taka það, sem áður var meðal, sem aðaltilgang. Vanalegasta dæmið, sem tekið er þessu til skýringar, er það, að maður, sem fyrst aflar sér peninga, til þess að hafa gnægð lífsnauðsynja og geta unnið að ýmsum framkvæmdum með þeim, gleymir þessu takmarki og fer að safna peningum til að eiga þá og telja þá svo í »Dalakútnum«, þegar hann er dauður. Eins verður þegar menn hafa sett upp kröfu um siglingafána og hann fær ekki að vera óáreittur fyrir ofbeldismönnum, þá slá menn af kröfunum og segja: Þetta skal ekki oftar koma upp á þessu landi. Þeir skifta um tilgang, samþykkja ósköp meinlausan heima-lands-staðar-fána, og hann fær að vera óáreittur, því að öllum er sama um hann - bæði mótstöðumönnum hans, sem áður voru, af því að hann táknar alt annað, og eina hinum, sem með öðru takmarki voru honum velviljaðir. Það er alveg eins og þegar fálkinn var fánakrafa. Þá átti hann marga mótstöðumenn. En þegar hásæll Albjartur fann það upp að setja hann á þann stað, sem þorskurinn hafði áður verið, sem skjaldarmerki, er okkur kemur ekkert við, þá hætti velvilji þeirra, sem hafði verið hlýtt til hans áður og hinir hættu að óttast hann. Eins fer það með þennan fána, ef slegið verður af kröfunum. Nú er hann elskaður og virtur af sumum, en hataður af öðrum. En þegar búið er að gera hann að þessu viðrini, þá hætta vinir hans að virða hann og mótstöðumenn hans að hata hanna, því að það er ástæðulaust.

Þar sem háttv. þingmaður hélt því fram, að sérstakrar viðurkenningar annara ríkja þyrfti við, þótt konungur skrifaði undir lög um íslenzkan siglingarfána, þá held eg að það sé rangt. Eg hygg að það sé nóg, að þeim sé tilkynt það, að þetta sé siglingafáni ins íslenzka ríkis.

Háttv. þingmaður vildi ekki taka mikið tillit til ins siðferðislega réttar milli þjóðanna og vildi því gera litið úr orðum háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem þar að lutu. En það vill nú einmitt svo til að hér fara saman hjá okkur Íslendingum tvær varnir, það, að við náum okkar rétti og líka hitt, að þjóðirnar læri smátt og smátt að færa inn siðferðislega rétt inn í viðskifti sín hvor við aðra. Og það verð eg að segja, að alþjóðarétturinn er einmitt tákn þess, að þjóðirnar eru að læra að beygja sig fyrir siðferðisástæðum annara þjóða — og minka óréttinn innbyrðis. Og við ættum, heldur en hitt, að leggja okkar litla skerf til þess, að þessi stefna fái sem beztan framgang. Þar er okkar verndar von, og allra smáþjóða. Jafnvel þetta stórveldi (í hug sumra Íslendinga), Danmörk, verður að byggja á því. Ekki eiga Danir skip til að verja sinn fána. Eg held að nokkrir »Dreadnoughtar« myndu ekki spyrja að því, þótt »Fálkinn« væri sendur til að verja danska fánann, ef þeim virtist ástæða til að taka hann. Þessi vörn fánans er því meira í orði en framkvæmd. Það þarf ekki stærri þjóð en Norðmenn til að taka »Dannebrog«.

Þá var háttv. þingmaður hissa á því, að við skyldum að nokkru leyti geta orðið samferða hæstv. ráðherra. Hann er víst hissa ef okkur ber saman um eitthvað aukaatriði í einhverju smámáli. En annars kemur þetta ekki af því, að við hæstv. ráðherra séum já-bræður. En eg get ekki látið svo, að eg þurfi endillega að vera á móti öllu, sem vill svo til, að hæstv. ráðherra er með Eg þykist maður til að meta þær ástæður, sem eiga að ráða atkvæði mínu. Hér er ekki að ræða um menn, heldur málefni. Auðvitað vildi eg helzt þegar til atkvæða kæmi, að sem flestir — bæði ráðherra og aðrir — yrðu á sömu skoðun og eg.

Þá gat háttv. þingmaður þess, að tilfinningarnar mundu ráða meiru hjá okkur en skynsemin. Mér þótti gaman að heyra þetta — það voru einmitt sömu orðin sem hæstv. ráðherra hótaði í fyrra í öðru máli. En nú eru menn að lofa skynsemdina í tillögum mínum um það mál. Sannleikurinn er, að hér fer hvorttveggja saman, höfuð og hjarta, og það er spá mín, að háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sannfærist um það áður en langt um líður. Það er líka það heppilegasta og affarasælla en að vera alt af að reikna út, hvort það muni borga sig að hlaupa frá skoðunum sínum og tilfinningum. Býst eg við, að eins fari fyrir slíkum mönnum og manninum, sem

»reiknar glögt og fimar heldur en fjandinn,

en fær þó aldrei nokkur úrslit rétt«.

Háttv. þingmaður rangfærði orð mín um háttv. Ed. Eg sagði að eins, að ef þetta frumv. gengi í gegnum Nd. og sofnaði svo í Ed., þá yrði niðurstaðan af 12. ,Júní sú, að deildin skemdi málið og drægi niður í sorpið þá stefnu, sem ríkti 1911 og samþykt var á Alþingi þá. Það er auðsjáanlegt spor aftur á bak, og ef svarið gegn ofbeldinu 12. Júní á að vera það, að við hopum á hæl, þá sýnir það, að lífaregla Íslendinga er þessi: altaf að hrökkva, en aldrei að stökkva.