11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (745)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. minni hlutans (Skúli Thoroddsen):

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) gat þessi ræðu sinni, að það, að þurfa mundi viðurkenningu annara þjóða, að því er fánann snertir, myndi þó eigi vera annað, en form, þ. e. að nægja myndi tilkynning þess efnis, að svona fána ætluðum vér oss eftir leiðis að nota.

Eg honum samdóma í þessu efni, og þykir vænt um, að grýla þessi, sem svo mjög var otað fram á þinginu 1911, má þá væntanlega teljast úr sögunni hér í þingsalnum.

Þá tók sami háttv. þm. það einnig fram, í ræðu sinni, að það væri ekki æskilegt, að atburðirnir, sem gerðust hér 12. Júní þ. á., endurtækjust, þ. e, að beitt væri hervaldi og fánanum misboðið, eins og þá átti sér stað. En eg sé ekki, að í frumvarpi meiri hlutans felist nein trygging fyrir, að svo geti ekki komið fyrir aftur, nema gerð væri þá breytingartillaga við frumvarpið, er tæki af öll tvímæli um það, að fánann mætti og nota í landhelgi Íslands, þar sem það er tæpast nóg — þvert ofan í skýr ummæli í nefndaráliti meiri hlutans — að háttv. framaögum. vill nú, knúður til þess af umræðunum, leggja fyrgreindan, víðtækari skilning á orðið »landsfáni«.

Hæstv. ráðherra gat þess í ræðu sinni, að honum þætti máli þessu ekki liggja neitt á, en um það atriði get eg engan veginn verið honum samdóma, því eins og kunnugt er — þá eru menn þegar alment farnir að verða óánægðir yfir því, að bláhvíti fáninn skuli enn ekki hafa löggiltur verið sem fáni Íslendinga.

Ekki sízt bakar það ungu kynalóðinni — sbr. þá og veifugjöf reykvíksku kvenþjóðarinnar o. fl. — leiða óánægju.

En þegar svo er, að vöknuð er óánægja út af einhverju, sem rangt er eða óheppilegt, þá er einatt ástæða til að flýta sér — einatt skylt æ að hraða sér að nema burt leiðann eða óánægjuefnið, sem æ er hætta oss öllum.

Sbr. þá og það, að alla eigum vér einatt glaða og ánægða að vilja. Annars skal eg taka það fram, að mér er það ljóst, að þó að frumvarpið um »staðarfánann« verði staðfest, þá fullnægir það íslenzku þjóðinni alls ekki.

Krafan um »verzlunar- og siglingafána« hlýtur engu að síður að halda áfram.

Frumvarpið gerir því ekki enda á baráttunni, en það gæti þó á hinn bóginn orðið til þess, að ýmsir þingmenn ýrðu þá deigari að fylgja fram verzlunar- og siglingafánanum og seinkað því fyrir því að hann fáist.

Getur það og aldrei annað, en hefnt sín á einhvern hátt fyr eða síðar, er sjálfstæðið, einurðin eða þorið er eigi sem skyldi.

En það, að hörfa nú frá »verzlunar- og siglingafánanum«; er neðri deild Alþingis samþykti þó árið 1911, og una við »staðarfánann«, það er vottur ins fyrgreinda.

Háttv. 1. þm. Rvk. benti á, að siðferðiskrafan gilti, eða ætti að gilda, hvað einstaklingana snertir, en um þjóðirnar væri öðru máli að gegna.

Eg skal nú og að vísu játa það, að ef vér lítum til viðskifta þjóðanna hér á jörðinni, þá er svo að sjá sem þjóðernin telji siðfræðina sér óviðkomandi, þar sem sú er enn venjan, og hefir verið, að smáþjóðirnar verða nær einatt að lúta stórþjóðunum.

Gegnir það annara furðu að þjóðerni, sem þó kalla sig kristin, skuli enn haga sér — og æ hafa hagað sér — sem þau gera, skuli nær hvívetna náðast á smáþjóðunum, jafn algagnstætt sem slíkt er þó orðum og anda kristindómsins, er býður oss að sýna þeim mestan kærleikann, umhyggjuna, umburðarlyndið og hjálpsemina, sem minni máttar eru eða öðrum ver ættir að einhverju leyti.

Í kirkjunum eru kærleikskenningar kristindómsins síprédikaðar hvern helgidaginn eftir annan, árið út og árið inn, og ár eftir ár og öld eftir öld, og þó er breytnin, í viðskiftum þjóðdæmanna sem fyr segir.

Em hvað er siðfræðilegi rétturinn: Það er réttur, sem hrerjum manni er meðfæddur, — réttur, sem eigi verður traðkað á einn eða neinn hátt, án þess ábyrgðin fylgi, þ e. mótlæti, fyr eða síðar, svo að lundernin umskapist, og einskis rétti — hvorki einstaklings eða þjóðernis geti þá af viðkomanda traðkað orðið.

Saga þjóðanna sýnir þá og öllum þennan óyggjandi sannleika.

Vér þekkjum allir sögu rómverska keisaradæmisins. Vér þekkjum og sögu spánaka ríkisins, sögu danska ríkisins o. e. frv. o. s. frv

Öll hafa ríki þessi sundurliðast, þ. e. hefndin — sem eigi gat annað en komið: fyr eða síðar — hefir hitt þau.

Og þó lætur enginn sér segjast, — rétti smá-þjóðernanna er traðkað enn þann dag í dag, alveg eins og hver maður vissi, að ekkert færi þar á eftir. —

Að því er snertir samskifti vor og Dana, þá dylst mér það yfirleitt ekki, að þar liggur aðal-styrkur vor í því, að Danir — eða danska stjórnin í umboði þeirra allra — hafna sið fræðilega réttmætum kröfum vorum, þá er hver þeirra æ finnandi og vitandi sig gera það sem eigi rétt er.

Og það, að gera ið ranga — og það enda hvað eftir annað — skapar þeim einatt leiða, er það gera, sé veran eigi því dýpra fallin, þ.e. orðin að þeim tilfinningarleysisins steini, sem alveg er sama, hvort hún gerir ið rétta eður ranga, eður og sú orðin, er það beint fær unaðar að gera ið ranga.

En því oftar sem leiðinn er skapaður, því sárari verður hann þá og einatt, enda siðferðislega ábyrgðin og einatt fundin og vituð því meiri, sem oftar er spyrnt gegn því sem rétt er.

Og einmitt þessa vegna þá er oss Íslendingum og brýnni nauðsynin, að sívekja þeim leiðann, unz sú kvölin skapast að lokum, að eigi geta annað en undan látið, og — sigurinn er vor.

Eg skal svo ekki eyða fleiri orðum að málinu að þessu sinni, en að eins lýsa yfir því, að falli tillögur, sem eg er við búinn, þá mun eg greiða atkvæði á móti frumv. meiri hlutans, af því eg lít svo á, sem »staðarfáni« geri málinu fremur ógagn en gagn, — seinki fyrir því, að vér fáum reglulegan fána, þ. e. »siglinga« og verzlunarfána.