11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í C-deild Alþingistíðinda. (746)

21. mál, íslenskur sérfáni

Ráðherrann (H. H.):

Út af ummælum háttv. þm. Dal. (B. J.) um bréfaskriftirnar, sem farið hafa milli foraætisráðherrans og stjórnarráðsins, skal eg geta þess, að eg hefi þessi bréf hér við hendina, og mun eg afhenda þau skrifstofustjóranum svo að þau verði lögð fram á lestrarsalinn. Bréf stjórnarráðsins er dagsett 18. Júní og svar forsætisráðherrana 10. Ágúst. Eg fekk það ekki fyr en nú með Botníu í gær, og hefi því ekki getað lagt það fram fyr.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að sér þætti það undarlegt, þegar »ofbeldi« hefði verið haft í frammi við íslenzkan fána á íslenzkri höfn, þá hefði stjórnin svarað því þannig, að senda lögreglustjórum bréf og skora á þá að vernda danska fánann. Inn hv. þm. ætti að vita það manna bezt, að þetta stjórnarbréf hafði fullkomin rök við að styðjast Það var víst einmitt hann sjálfur, sem lét samþykkja fundarályktun um að skora á almenning að líða ekki að flagga með danska flagginu, og út úr því spanst það, að menn fóru að amast við ríkisflagginu, jafnvel skera það niður, bæði hjá stjórnarráðinu og einstökum mönnum, svo að menn gátu ekki haft þessa lögmætu eign eina í friði. Það sem stjórnin hefir gert í þessu efni, er því ekki annað en það, sem sjálfsagt var, að slá því föstu, að slíkar aðfarir mættu ekki liðast.

Að því er snertir ið annað atriði, að »ofbeldi hafi verið haft í frammi við íslenzkan fána«, skal eg leiða athygli háttv. þm. Dal. (B. J.) að því, að í þeim orðum í nefndaráliti meiri hlutans, að lögleiða þurfi íslenzkan fána til þess hann geti »blakt í friði innan íslenzks valdsvæðis«, felst viðurkenning fyrir því, að 12. Júní hafi ekki verið til nein lög, sem friðhelguðu þann fána, sem tekinn var hér á höfninni, enda hefir það verið tekið fram af einum háttv. ritstjóra, sem á sæti hér í deildinni, að það flagg hafi ekki haft meiri löghelgi sem slíkt, heldur en ef einhver vildi flagga með svuntunni kærustunnar sinnar.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um. þetta, en að eins endurtaka það, að þessi umræddu bréf munu verða lögð fram á lestrarsalinn.