11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í C-deild Alþingistíðinda. (764)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Flutningsm. (Lárus. H. Bjarnason):

Eg hefi raunar litið að segja í viðbót við það sem eg sagði við flutning málsins upprunalega. Eg vil að eins leyfa mér að leiða athygli háttv. deildar aftur að því, hvað það er, sem hér er farið fram á. Það er eingöngu farið fram á breytingu á þeim máta, hvernig borgarstjórinn í Reykjavík er kosinn. Hingað til hefir hann verið kosinn af bæjarstjórninni, en nú er ætlast til að hann verði kosinn af öllum atkvæðisbærum borgurum bæjarins. körlum og konum. Eins og eg gat um við 1. umr. hefir þetta mál haft allra mála mest fylgi á þingmálafundum hér í Reykjavik, og þar við bætist, að á bæjarstjórnarfundi, sem haldinn var 7. Ágúst, var samþykt tillaga, sem eg skal lesa upp með leyfi forseta. Hún hljóðar svo, eftir bréfi frá borgarstjóranum, sem eg hefi í höndunum:

»Bæjarstjórnin lýsir fylgi sínu með því, að borgarstjóri verði kosinn af kosningabærum kjósendum, að því tilskildu, að minst 25 kjósendur mæli með umsækjanda«.

Móti tillögunni greiddu að eins tveir bæjarfulltrúar atkvæði, og einn sat hjá. Eg vona því, þegar menn heyra hversu borgurum bæjarins er þetta mikið áhugamál, og þegar bæjarstjórnin ljær því jafnóskift fylgi sitt, að allir háttv. þm. greiði frumv. atkvæði. Eg vona að það verði ekki að eins utanbæjarþingmenn, sem vilja unna bænum sjálfstæðis í þessu efni, heldur og engu síður þeir þingmenn, sem búsettir eru í Reykjavík.

Samkvæmt þessari ályktun bæjarstjórnarinnar hefi eg leyft mér að bera fram breyt till. á þgskj. 347 þess efnis, að 25 kjósendur verði að mæla með kosningu borgastjórans. Ennfremur hefi eg bætt því við, að stjórnarráðið skuli setja reglur um kosninguna eftir tillögum bæjarstjórnarinnar.

Eg hefi heyrt einstaka menn halda halda því fram, að hér væri í tvísýnu teflt um borgarstjóravaldið. Eg hygg að aldrei hafi verið nein hætta á því, og sízt nú, þegar stjórnarráð og bæjarstjórn eiga að ráða inum núnari reglum fyrir kosningunni. Til tryggingar því, að sæmilegur maður veljist í borgarstjóraembættið, er ennfremur heimtað, að 25 kjósendur að minsta, kosti mæli með honum. Og þó að ekkert sé ákveðið um hæfileika þeirra manna, má telja það víst, að ekki verði leitað til 25 manna af lakari endanum. Því að eins getur nokkurs maður búist við fylgi, að meðmælendurnir séu góðir. Eg hygg, að þessi aðferð sé réttari en sú sem verið hefir, því að það hlýtur að vekja ábyrgðartilfinningu þeirra manna, sem kjósa, að þeir geta engum um kent nema sjálfum sér, ef illa tekst, enda eiga þeir einir nokkuð á hættu og launa borgarstjórann að öllu leyti. Ef illa tekst, segi eg, en ekki af því að eg búist við að fremur takist illa til um borgarstjórakosninguna, þó að þessi aðferð verði höfð. Það gæti sannarlega tekist illa, þó að bæjarstjórnin kysi borgarstjórann, og engin trygging væri fyrir því að vel tækist — þó að jafnvel konungur eða stjórnarráðið skipaði hann, nú er menn eru hættir að trúa því, að þeim sem guð gefur embætti, gefi hann einnig hyggindi til að gegna því.

Eg vona sem sagt, að utanbæjarþingmenn vilji lofa Reykjavíkurbúum að ráða þessu einkamáli sínu sjálfum, og eg vona að hinir, sem búsettir eru hér í bænum, sjái, að hér er ekki út í neina hættu lagt, enda hægur hjá, að breyta til ef miður færi.