11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í C-deild Alþingistíðinda. (769)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Kristinn Daníelsson:

Þó eg ætli ekki að gera þetta mál að kappsmáli, verð eg samt sem áður að segja aftur nokkur orð.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) Vitnaði í, hver venja væri í öðrum löndum í þessu efni. Skal eg fús að játa, að hann hafi sagt rétt um það; en í því felst engin sönnun, engin nema sú almenna, að alt sé gott í útlöndum. Jón Ólafsson: Jú, reynslan). Háttvirtur sami þm. sagði líka, að borgarstjórinn væri með því fyrirkomulagi, sem er, alt of háður bæjarstjórninni. En eg skil ekki í öðru en hann verði alveg eins og engu síður háður kjósendum sínum með því fyrirkomulagi, sem farið er fram í frumv. — Eg get ekki betur séð en að þessu leyti komi alveg í sama stað niður, hvor aðferðin er höfð.

Þá virtist mér hann vilja líkja þessu fyrirkomulagi við sambandið milli kjósenda og þings. En það dettur engum lifandi manni í hug, að láta kjósendurna kjósa stjórn landsins. En viðvíkjandi því, sem hann sagði um sjálfræði sýslunefnda, er ið sama að segja. Kjósendurnir kjósa sýslunefndina sjálfa, en ekki oddvita hennar.

Þá þótti háttv. þm. það vera mótsögn hjá mér, er eg sagði, að mér þætti breytingin til ins verra, en óttaðist þó að allir hinir kaupstaðirnir kæmu á eftir. Hann hefir misskilið mig. Eg átti við, þar sem því var haldið fram, að þetta snerti Rvík eina, þá væri það ekki svo, heldur snerti og aðra kaupstaði, og eigi ekki að gefa út lög, sem eingöngu væru fyrir Reykjavík í þessu efni, heldur ættu sömu reglur að gilda fyrir aðra kaupstaði.

Þá ætla eg að beina nokkrum orðum til háttv. flutningsm. (L. H. B.). Hann sagði, að eg hefði haldið því fram, að þetta frumv. væri nýmæli. Það er ekki rétt, því eg benti einmitt á, að það væri ekki nýmæli, heldur væri sams konar fyrirkomulag til á öðrum svæðum og hefði tæplega gefist vel ávalt. Hitt sem eg sagði, að ekki yrði auðvelt að breyta lögunum aftur, kom af því, að eg álít að það sé ekki svo auðvelt að taka það vald af almenningi, sem honum einu sinni hefir verið fengið í hendur. Það sem háttv. flutningsm. sagði, að borgarsjórinn væri ekki annað en framkvæmdarvald bæjarstjórnarinnar, þykir mér vera til styrktar mínu máli. Virðist ekkert eðlilegra, en að bæjarstjórnin kjósi sjálf þann mann, sem á að framkvæma ráðstafanir hennar sjálfrar. Loks sagði háttv. flutningsm., að eg ætti eftir að sanna, að þetta fyrirkomulag reyndist ver, en það sem nú er. En mér finst að sönnunarskyldan liggi á honum, úr því að það er hann, sem vill breyta til. Hann ætti að koma með sönnun fyrir, að fyrirkomulagið, sem hann vill hafa, reynist betur. Það hefir hann ekki gert og mun ekki geta.