12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í C-deild Alþingistíðinda. (788)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Eg er þakklátur háttv. þm. Snæf. (H. St.) fyrir orð hans og samdóma honum í öllu. Frv. stjórnarinnar miðaði að því einu, að taka það skýrara fram en nú er gert eftir lögunum frá 1912, að símarnir beri sig sjálfir, og að af arðinum borgist eigi að eins 3. flokks símar, heldur og rentur og afborganir á lánum til 2. flokks simanna. öllum er kunnugt, að þetta var tilgangur símalaganna, þó að orðalagið hafi orðið svo, að það er ekki látið koma nógu skýrt fram. Nú hefir það komið á daginn, að beint þarf á því að halda, að þetta sé skýrt og ómótmælanlega tekið fram. Þá er hægt að fá símalánið með ágætiskjörum, sem ella fást ekki. En breytingarnar, sem háttv. Ed. hefir gert á frumv., raska alveg grundvelli þessara góðu laga frá þinginu í fyrra.

Það getur að vísu verið ýmislegt, sem sýnist mæla með því, að taka aukalínur, sem borga sig vel, upp í hærra flokk; en sé gengið út á þá braut, er ekki gott að segja, hvar staðar skuli numið, og svo er einnig þess að gæta, að þær 2. flokks linur, sem nú eru taldar borga sig svo vel í svipinn, eru stopulli heldur en þær línur, sem frá upphafi voru settar í 1. flokk. T. d. vita það allir, að Siglufjörður á alt undir síldveiðinni. Ef hún bregst, eða ef síldin fellur stórkostlega í verði, þá yrði símalínan þangað ekki líkleg til þess að bera sig, hvað þá til arðs. Það er því varhugavert að víkja frá lögunum í þessu og láta landssjóð skila aftur þeim styrk, sem sýslufélögin og sveitirnar hafa lagt til frá sér. Það fé nemur nú sem stendur alls um 90 þúsund kr. eða vel það, sem sveitarfélög hafa lagt fram til síma landssjóðs. Þetta er að vísu ekki mikið í samanburði við það, hvað símarnir hafa kostað landið, en það getur þó munað um eiikt eftirleiðis. En enn þá hættulegri er þó sú breytingin, að skylda landssjóð til þess að borga rekstrarkostnað 3. flokka stöðva í sveitum. Þar álit eg að það hafi verið holl regla, sem fylgt hefir verið hingað til, því að ef landssjóður ætti að bera þennan kostnað undir öllum kringumstæðum, þá mundi fara líkt um bréfhirðingar og póstafgreiðslumenn, að alt af yrði verið að biðja um aukin laun, jafnv. á hverju þingi, og þá er hætt við að ekki yrði mikill afgangur til þess að reisa 3. fl. stöðvar.

Eg er því samþykkur, að þetta mál verði íhugað sem rækilegast í nefnd.