12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (791)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Það er sagt að það eigi að verða eldhúsdagur á morgun, og þá finst mér að þingmaðurinn ætti að geta þolað Við með umræður af þessu tæi þangað til. Háttv. Ed. hefir athugað nákvæmlega þetta atriði frumvarpsins, sem hann er að ilskast út úr, séð öll skjöl og skilríki þar að lútandi, og ekkert fundið athugavert við það, að því er snertir sæmd landsins eða traust landssjóða. Eg get ekki séð, að það sé neitt óviðfeldnara, að ákveða í lögunum, að af ágóða símanna skuli greiða vexti og afborganir af láni, sem tekið er til þess að leggja fyrir nýjar símalínur, heldur en að ákveða, að af ágóðanum skuli greiða kostnaðinn við að leggja nýjar línur, eins og með berum orðum er skipað fyrir í lögunum. Hér er ekki farið fram á annað en fylling á orðalagi, nánari ákvæði um það er var vilji þingsins í þessu efni. Hér er einmitt ekki að ræða um veðsetning í lagalegum skilningi þess orðs, heldur hitt, að láta það taka sig út, að hér er ekki að ræða um lán til almennra landaþarfa, heldur er það landsíminn, sem tekur lán til þess að efla sjálfan sig, til þess að geta vagið og útbreiðst, og hann borgar lánið sjálfur af sínum tekjum.

Háttv. þingmaður talaði um, að það væri rangt, að láta sýslufélögin borga tillag til símanna, og gerði mikið úr því, að þau ættu mikla hlutdeild í honum. Þetta er þó ekki eins mikil hlutdeild eins og hann hyggur. Árið 1912 nam tillag sýslufélaga til símalagningá alls ekki nema c. 7% af kostnaðinum til símalagninga í heild sinni, svo að ekki er unt að segja með sanni, að landssjóður hafi varpað mjög miklum byrðum af sér yfir á sveitafélögin, þó að þingið af sérstökum ástæðum hafi neyðst til þess að slá þann varnagla eða setja þau takmörk, að ekki sé lagt landsfé í álmur, sem ekki eru taldar óhjákvæmilegar vegna landsins í heild sinni, nema sveitafélögin sýni einhvern lit á þörfinni með tillagi. Án slíkrar reglu gæti landssjóður enga rönd við reist. Og því verður þó ekki neitað, héruðunum hefir verið sýnt að það tillit, sem unt var. Þegar kostnaðurinn við lagninguna hefir orðið lægri, en við var búist, hefir verið endurborgað það sem unt var að réttri tiltölu, og er sjaldgæft að til nokkurrar línu hafi verið lagður fram af héruðunum meira en 1/6 hluti kostnaðar. Árnessýsla hefir fengið 3 þús. kr. endurgreidd og Rangárvallasýsla 4 þús., og ef enn eru dregin 5 þús. kr. frá Patreksfjarðarsímanum, þá er ekki eftir nema tæp 90 þús. kr., sem sýslu- og sveitafélög hafa lagt til. Afarþung byrði getur það ekki kallast.