12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í C-deild Alþingistíðinda. (802)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Halldór Steinsson:

Eg get ekki skilið í þessari grýlu, sem sumir háttv. þm. hafa fundið út úr 3. grein frumv. Þeir hafa talað um, að í því sé farið fram á veðsetningu á tekjum landssjóðs. Eg get ómögulega fallist á, að þetta felist í frumv. Þar er að eins farið fram á, að vexti og afborganir af þessu láni skuli greiða af tekjuafganginum af rekstri talsíma og ritsíma landsins. Eg get ekki séð, að þetta sé á nokkurn hátt að misbjóða sóma landsins eða að veðsetja tekjur þess. Þingið í fyrra veitti hæstv. ráðherra heimild til að taka þetta lán, og það er því sjálfsögð skylda þingsins að létta undir með honum að fá það.

Eg get sem sagt ekki séð, að það felist neitt hættulegt í 3. gr. frumv., og lit svo á, að ef þingið styður ekki hv. ráðherra í viðleitni hans til að fá þetta lán, þá sé það sama sem að gera tilraun til að fella úr gildi þessa lántökuheimild, sem ákveðin var með lögum 1912. Eg vil svo halda mér við þá tillögu mína, að kosin sé 5 manna nefnd í málið að umræðu lokinni.