12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í C-deild Alþingistíðinda. (815)

106. mál, lánsdeild við Fiskveiðasjóð Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Eg er ánægður með undirtektir hv. flutningsmanns um framlengingu frestsins. Um viðleitni stjórnarinnar í þessu máli, sem háttv. þingmaður var að tala um, vil eg að eins segja það, að það er alt af varhugavert að gefa út opinber vaxtabréf, sem illa seljast. Það getur verið hættulegt fyrir lánstraust landsins, ef í umferð eru slík opinber verðbréf, sem annaðhvort alls ekki eru talin sölu hæf, eða þá seljast að eins með gífurlegum afföllum. Og ekki væri væntanlegum lántakendum við veðdeild fiskveiðasjóðs ins neinn hagur í möguleikanum til að fá sér afardýrt fé.