13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í C-deild Alþingistíðinda. (831)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Lárus H. Bjarnason:

Það er að eins eitt atriði, sem mig langar til að víkja dálítið að. Eg vona að hæstv. ráðherra komi það ekki á óvart, þar sem við höfum leitt saman hesta okkar áður um það mál og eg hefi þegar fyrir nokkru tjáð honum, að þetta atriði mundi koma til umræðu í dag. Málið, sem eg ætla að tala um, er um samning hæstv. ráðherra við Sameinaða gufuskipafélagið. Það er talsvert umfangsmikið mál og eg verð að biðja hv. deild afsökunar á því, að eg býst við að ræða mín verði mjög þur og leiðinleg, því að eg verð að nota mikið af tölum, sem altaf eru leiðinlegar, en oftast sannorðar. Eg vildi helzt mega fá hæstv. ráðherra í hendur prentuðu skjölin, sem hér að lúta, svo að hann geti borið ræðu mína saman við þau og þannig sannfærst um það, hvort eg fer með rétt mál eða ekki. Og þessar skýrslur eru ekki eftir Bjarna frá Vogi, heldur að öðrum þræði eftir fyrirrennara hæstv. ráðherra og hann sjálfan Eg á við ferðaáætlanir og gjaldskrár millilanda og Strandferðaskipa og samningana um ferðir þessar 1909 og 1912. Eg ætla að bera saman þá samgöngukosti, sem við nú höfum, við þá sem við höfðum á árunum 1908—'12. Skal eg þá fyrst athuga kostina á árunum 1908–12, síðan þá sem við hófum nú, og loks gefa stuttan yfirlitssamanburð.

Um samgöngukostina 1908 get eg vísað til samnings stjórnarinnar við Sameinaða í Stj.tíð. 1907 B. bls. 224–27 og bls. 228–31. Þá höfðum við þaðan 3 millilandaskip, Sem fóru 26 ferðir með 23 Viðkomustöðum. Til strandferða höfðum við 2 skip, sem fóru 8 ferðir vestur um land til Akureyrar með 43 viðkomustöðum og 7 ferðir austur um land með 33 viðkomustöðum.

Fargjaldið var þá milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur og milli Leith og Reykjavíkur 65 kr. á 1 farrými og 45 kr. á 2., hvar sem komið var að landinu eða hvaðan sem farið var þaðan. Eg get ekki verið að lesa upp taxtann milli allra innanlandahafna — læt mér nægja að taka fargjald milli Reykjavíkur annarsvegar eina staðar í hverjum landsfjórðungi hins vegar. Milli Reykjavíkur og Stykkishólms var fargjaldið þá 6 kr. á 1. farrými, milli Reykjavíkur og Akureyrar 25 kr. eða 30 kr., eftir því hvort farið var vestur um land eða austur um land, milli Reykjavíkur og Víkur 9 kr. og milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar 18 kr.

Það var matfrelsi milli hafna, hvort sem farið var á millilanda- eða strandferðaskipum.

Farmgjaldið var þá ið sama milli Kaupmannahafnar og Íslands og nú er, en milli Leith og Íslands töluvert lægra en nú er. Af því að ekki getur komið til mála að fara að lesa upp alla fragttaxta, þá læt eg mér nægja, að tilgreina einstaka vörur. Eg tek að eins farmgjaldið milli Leith og Íslands og reikna gjald fyrir 2000 pd., eða 1 tonn. Sem dæmi upp á útlendar vörur skal eg nefna:

Matvörur (kornvörur o. þvl.) 20 sh. (18 kr.)

Járn, stál, gaddavír 20 s.

Sykur 25 sh.

Kaðlar og veiðarfæri allsk. 25 sh.

Skipsbrauð 50sh.

Sem dæmi upp á farmgjald á íslenzkum vörum skal eg nefna:

Sauðskinn og húðir 20 sh.

Tólg 20 sh.

Auk þess að farmgjaldið var þá lægra en nú, þá fekst og afsláttur af því, 2 sinnum 10%, sem að vísu er ekki alveg sama og 20%, en þó nálægt því.

Fyrir þessa kosti galt landssjóður einar 28,000 kr. (sbr. Landsr. 1908 bls. 50).

Það höfðu verið áætlaðar 40,000 kr. til Sameinaða gufuskipafélagsins og spöruðust þannig 12,000 kr.

Árið 1909 voru kostirnir þeir sömu og 1908, nema landasjóðstillagið varð þá 30,000 kr. (sbr. Landsr. 1909, bls 51).

1910 bötnuðu kostirnir að sumu leyti en lökuðust aftur að öðru. Eftir samningi stjórnarinnar Við »Sameinaða« og »Thore« (Stj.tið. 1909, B. bls. 238–46) fengum Við 3+4 millilandaskip, eða 7 alls. — Eg tala hér að eins um samningsbundnar ferðir. — Sameinaða félagið lagði til 3 af þessum skipum til millilandaferða, Thore 4. Ið »Sameinaða« fór 25 ferðir með 25 viðkomustöðum, Thore 36 ferðir með 20 viðkomustöðum. Auk þess fengum við 4 Hamborgarferðir með að minsta kosti 1 viðkomustað innan lands (Rvk). Þetta verða alla 65 ferðir með 46 viðkomustöðum.

Til strandferða höfðum við 3 skip — einu skipi var haldið úti fyrir Suðurlandi. Vestur um land voru farnar 6 ferðir með 46 viðkomustöðum, austur um land 7 ferðir með 26 viðkomustöðum, en suður um land 8 ferðir með 20 Viðkomustöðum. Auk þess voru farnar 4 hringferðir með 10 viðkomustöðum. Þetta verða samtals 25 ferðir með 102 viðkomustöðum.

Fargjaldataxtar voru inir sömu og verið höfðu á árunum 1908 og 09 og farmgjaldstaxtar voru einnig inir sömu.

En landssjóðsgjaldið var talsvert hærra, sem sé kr. 60,000 auk kr. 6000, sem sem borgaðar voru — um alla þörf fram — til Thore sem styrkur fyrir póstflutning.

Árið 1911 fór »Sameinaða« 26 millilandaferðir með 27 viðkomustöðum, »Thore« 38 með 22 Viðkomustöðum og 4 Hamborgarferðir með 1 viðkomustað. Alls 68 ferðir með 50 viðkomustöðum.

Strandferðirnar voru inar sömu og 1910, fargjald, farmgjald og landssjóðstillag sama og áður.

1912 Var samgöngunum eins háttað og 1910 og 11, nema millilandaferðirnar nokkru færri, ekki nema 63 með 49 viðkomustöðum.

Þá kem eg að árinu 1913, eða yfirstandandi ári. Þar skiftir nokkuð í tvö horn. Millilandaskipin verða ekki nema 3 — in sömu og á árunum 1908–09 — og millilandaferðirnar ekki nema 26 fastbundnar, þar af 14 beint til Reykjavíkur og vilyrði um eina ferð til, fáist nægur flutningur. Viðkomustaðir eru ekki nema 28. Hamborgarferðunum er slept, sbr. Stj.tfð. 1912 B, bls. 322–25.

Strandferðunum er einnig breytt til ins verra frá því sem áður var. Skipin eru ekki nema 2. Vestur um land fara þau 5 ferðir með 28 viðkomustöð. um. Austur um land 6 ferðir með 23 viðkomustöðum. Hringferðirnar eru ins vegar 2 fleiri en áður, eða 6 alls, en ekki nema 4 viðkomustaðir. Þetta verða samtals ekki nema 17 ferðir með 55 viðkomustöðum, sbr. Stj.tið. 1912 B, bls. 330–'34.

Fargjaldið er hækkað, bæði milli landa og innanlands hafna. Það hefir hefir hækkað milli landa vegna þess, að nú er miðað við Akureyri. Þeir farþegar, sem lengra fara, verða að borga aukafargjald milli þeirrar hafnar, sem þeir ætla til, og er þeim enginn afsláttur gefinn á því gjaldi. Þetta getur numið talsvert miklu, þar sem fargjald frá Akureyri til Reykjavíkur er 40 kr., ef farið er austur um — 30, ef farið er vestur um. Þetta ákvæði gildir jafnt fyrir Íslendinga sem útlendinga, jafnvel þótt hv. ráðherra segði það á þinginu 1912 (sbr: Alþ.tið. B., bls. 818), að það skyldi að eins gilda fyrir »túrista«, en Íslendingum mundi verða gefinn afsláttur.

Nú verða menn nauðugir viljugir að kaupa fæði milli hafna, ekki að eins á millilandaskipunum, heldur og á strandbátunum.

Fargjaldið milli innanlands hafna hefir einnig hækkað, miðað við það sem áður var. Sem dæmi skal eg taka fargjald milli Reykjavíkur og hinna sömu staða og eg nefndi áður. Til Stykkishólms kostaði áður 6 kr. á 1. farrými, nú 8 kr.; til Akureyrar áður 25 eða 30 kr., nú 30 eða 40 kr.; til Víkur áður 9 kr., nú 11,50 kr.; til Seyðisfjarðar áður 18 kr., nú 25 kr.

Farmgjald milli landa hefir og hækkað frá öðrum löndum. og til annara landa en Danmerkur. Þar helzt það óbreytt. Milli Leith og Íslands hefir það verið hækkað eigi all-lítið, bæði á innlendum vörum þangað og erlendum vörum hingað. Sem dæmi skal eg nefna upp á erlendar vörur frá Leith:

Kornvörur (pr. tonn) áður 20 sh., nú 22/6 d. Alls konar járnvara áður 20 sh., nú 25/-. Sápa til manna og skepnu þvotta áður 20 sh., nú 25/–. Sykur áður 25 sh., nú 30/–. Kaðlar og veiðarfæri áður 25 sh., nú 40/–. Skipsbrauð áður 50 sh., nú 60/–.

Sem dæmi upp á hækkun á innlendum vörum skal eg nefna inar sömu og áður: Tólg (pr. tonn) áður 20 sh., nú 22/–. Sauðargærur og húðir áður 20 sh., nú 22/–.

Aukaafsláttur, sem áður var mikill, er miklu minni, því að skilyrði fyrir afslætti eru nú þannig löguð, að fáum kemur að gagni.

Farmgjald milli hafna hefir og hækkað, bæði á útlendum og innlendum vörum. Dæmi upp á útlendar vörur má nefna: Sement (pr. 100 pd ) áður kr. 1,00, nú kr. 1,25. Kalk, tjara (tunnan) áður kr. 1,00, nú kr. 1,50.

Sem dæmi upp á innlendar vörur má nefna: Tólg (pr. 100 pd.) áður kr. 0,50, nú kr. 0,60. Fiskifang áður kr. 1,00, nú kr. 1,50. Kjöt o. þv. l. áður kr. 1,25, nú kr. 1,50.

Auk þessarar beinu hækkunar má geta þess, að félagið tekur 3–5 krónur sem umhleðslugjald á millilandavörum.

Lágmark á farmgjaldi var áður kr. 0,50, nú er það orðið kr. 1,00.

Áður mátti flytja vörur fyrir sama gjald (hálft gjald) til 3. hafnar sem til næstu, frá t. d. Reykjavík til Patreksfjarðar, nú nær sú ívilnum að eins til næstu hafnar.

Fyrir þessa kosti — ekki betri en þeir eru — borgar landssjóður kr. 60.000, að viðbættum kr. 5,000 fyrir vörugjaldi af kolum, sem ið Sameinaða fær endurgreitt eftir samningi við stjórnina, og póstflutningsgjaldi til Thore kr. 6,000, eða alls 71,000 kr. Beina gjaldið er þannig mikið, borið saman við in bágu kjör, en þó nema óbeinu afleiðingarnar af samningi stjórnarinnar vafalaust miklu hærri upphæð, líklega marg falt hærri upphæð en samnings upphæðin nemur.

Mig brestur bæði vilja og getu til þess að nefna nokkra tiltekna upphæð. En til þess að menn geti gert sér dálitla hugmynd um þetta, skal eg þó nefna nokkur atriði.

Samkvæmt verzlunarskýrslunum 1910 fluttust hingað til landsins þá erlendar vörur fyrir um 111/2 milíón kr. Þar af fluttust frá Danmörku vörur fyrir um 5 milíónir. Afgangurinn, um 61/2 milíón kr., var frá öðrum löndum, sem sé frá Englandi 3,700,000 kr., frá Þýzkalandi 1,050,000 kr., frá öðrum löndum 1,750000. Sé þess nú gætt, að farmgjaldið á vörum frá öðrum löndum en Danmörku hefir hækkað mikið og enn fremur þess, að kaupmenn kváðu reikna sér auk vörugjaldsins um 3% fram yfir, þá er auðsætt, að farmgjaldshækkunin ein út af fyrir sig nemur ekki lítilli upphæð, auk fargjaldshækkunarinnar, sem enn erfiðara er að ákveða, en nemur og miklu. Samningur ráðherra tók að vísu að eins beint til Sameinaða. En önnur félög, sem sigla hingað, hafa farið að dæmi Sameinaða og hækkað fargjald, þar á meðal Thorefélagið. Jafnvel flóabátarnir kváðu og hafa hækkað í líku hlutfalli og Sameinaða gufuskipafélagið.

Samningurinn er og að vísu ekki gerður nema fyrir árið 1913, en það má búast við að hann hafi óbein áhrif á samninga framvegis. Þeir sem taka að sér ferðirnar 1914–1915, mundu fremur miða við þá kosti, sem gilt hafa árinu áður, heldur en þá kosti, sem verið hafa lengra á undan.

Það er ekki von að þessi leiðinlegi talnalestur sitji lengi í mönnum, og ætla eg því að gera yfirlitssamanburð milli líðandi ára og nefndra liðinna ára. Skipafjöldi milli landa er samur og 1908-'09, en 5 skipum færra en 1910–' 12. Innanlands eru í förum jafnmörg skip og voru 1908–'09, en 1 færra en 1910–1912.

Ferðafjöldi milli landa er samur og 1908–'09, en 39 ferðum færra en 1910 –'12. Innanlandsferðirnar eru 2 færri en 1908–'09, en 10 færri en 1910–' 12. En hringferðir eru nú 6 fleiri en 1908 –'09 og 2 fleiri en 1910–'12.

Viðkomkustaðir eru nú í millilandaferðunum 4 eða 5 fleiri en 1908–'09, eftir því hvort við fáum þessa aukaferð, sem lofað hefir verið í árslok, en þeir eru 20 færri en 1910–' 12, Í innanlandaferðunum eru viðkomustaðirnir 21 færri en 1908–'09, en 47 færri en 1910–' 12.

Fargjöld milli landa hafa hækkað, bæði miðað við 1908–'09 og 1910–' 12. Sama er að segja um fargjöldin innanlands, hvort sem miðað er við 1908' –09 eða 1910–'12.

Farmgjöld milli annara landa en Íslands og Danmerkur, hafa hækkað á einstökum Vörum um alt að 37% frá

því sem var 1908–'12 og innanlands á einstaka vörum um alt að 33%.

Landssjóður borgar ná fyrir sjósamgöngur miklu hærra gjald heldur en 1908–'09, jafnvel þótt þær séu nú miklu lakari en þá voru þær. Út í tap almennings af þessu skal eg ekki fara, en það hlýtur að vera mikið, skiftir ef til vill 100,000 kr.

Þegar nú á alt þetta er litið, virðist það ekki ófyrirsynju gert, að spyrja, hvers vegna kostirnir urðu svo þröngir, þrátt fyrir 10 ára samninginn við Sameinaða gufuskipafélagið. Það var lán í óláni um samninginn 1909, að hann var gerður til 10 ára, bæði Við Sameinaða gufuskipafélagið og Thorefélagið. Eg segi að það var lán í óláni af því, að skömmu eftir að samningurinn var gerður, stigu farmgjöld mjög mikið, og mér vitanlega átti engin önnur þjóð þess kost, að geta siglt fyrir sömu far- og farmgjöld í 10 ár, þrátt fyrir ina miklu hækkun á fargjaldi og farmgjaldi.

Hvers vegna var ekki haldið í þessa kosti? Eg hefi ekki fengið svar við því. Mér var sagt, þegar eg flutti sömu ræðu á öðrum stað snemma á þessu ári, að ómögulegt hefði verið að útvega. strandferðirnar nema Sameinaða gufuskipafélaginu væri gefnir þeir kostir um millilandaferðir og strandferðir, sem það fékk. Enn fremur var mér þá sagt, að Thorefélagið hefði verið svo máttvana, að ekki hefði verið hægt að komast neina leið með það. En rök heyrði eg engin fyrir þessum staðhæfingum, enda sannfærðist eg ekki af þeim.

Stjórnin átti ekki að breyta samninginum um millilandaferðirnar. Þær voru bundnar með samningi milli innanríkisráðherrana danska og ráðherra Íslands annars vegar og formanns Sameinaða gufuskipafélagsins hina vegar, enda bygðust fjárveitingarnar til gufuskipaferða í fjárlögunum 1912–1913 á þeim samningi. Hæstv. ráðherra hafði því ekkert leyfi til að rifta honum, enda hafði ráðherra ekki farið fram á aðra ívilnun millilandaskipunum til handa en þá, að félagið mætti hækka fargjald á hraðskreiðasta skipi fyrir útlenda ferðamenn og svo að félagið fengi tiltekið svo kallað umhleðslugjald (sbr. Alþ.tíð. 1912 B II, bls. 819 og 834). Þessum breytingum var tekið vel af hendi strandferðanefndarinnar á þingi 1912, en öðrum ekki, enda hafði ráðherra ekki hreyft öðrum. Um strandferðirnar gaf nefndin ráðherra aftur á móti töluvert lausan taum. Ráðherra átti því að halda Sameinaða gufuskipafélaginu við millilandasamninginn. Það mátti engin breyting á samningnum eiga sér stað umfram það, að félaginu væri bættur upp sá skaði, sem það kynni að hafa af vörugjaldi á kolum. Meira gat félagið ekki heimtað og það fékk það. Þess vegna var alveg ástæðulaust, og eg vil segja óforsvaranlegt, að breyta samningunum frekara en þetta.

Svo vildi eg mega spyrja: Hví gekk hæstv. ráðherra ekki fastara að Thorefélaginu? Hann hafði að vísu fengið heimild hjá Alþingi 1912 til þess að leysa félagið undan samningi þess. En bæði var það, að sú heimild var ekki alla kostar athugasemdalaus, sbr. þgskj. nr. 367, Alþ.tíð. 1912 A., bls. 483), og hvað sem því líður, þá átti hæstv. ráðherra sem nýtur ráðsmaður að halda fast í Thorefélagið, svo að það gerði sem mest á móti þeirri uppgjöf, sem það fékk. Það var ekki svo lítils virði fyrir félagið að fá uppgjöf á jafn-erfiðum samningi og það taldi samninginn frá 1909 og félagið ekki svo að þrotum komið sem sagt var. Það er nærri því ótrúlegt, að ekki skuli hafa verið gerð nein alvarleg tilraun til að fá félagið til að sigla að minsta kosti þetta eina ár eftir sömu gjaldskrá og það hafði skuldbundið sig til að sigla eftir í 10 ár. Og enn ótrúlegra er það, að ekki skuli einu sinni hafa verið svo mikil mannræna í stjórninni, að láta félagið flytja póst ókeypis. Mér hefir verið sagt það úr góðum stað, að félagið fái sama styrk og áður, 6000 kr., fyrir að flytja póst. Eg hefi þetta eftir umboðamanni félagsins hér, enda kannaðist hæstv. ráðherra við það á fundi í Fram síðastliðinn vetur. (Ráðherra: Það er ósatt). Eg verð að reyna að taka það með ró, þótt ráðherra segi að þetta sé ósatt. Hann sagði þá líka, að sér hefði verið kunnugt um, að Thorefélagið stæði svo tæpt, að það hefði ekkert viljað leggja í sölurnar til þess að bjargast frá gjaldþroti. Þetta rengdi eg og fleiri. Við litum svo á, að ekki væri ástæða til að halda að félagið stæði svo tæpt, úr því að það sigldi fleiri skipum milli landa. Þetta sagði hæstv. ráðherra þá, en hann segir það líklega líka ósannindi. (Ráðherra: Já, það eru hrein og bein ósannindi). Jæja, mér kemur það ekki á óvart, þótt ráðherra segi það ósannindi sem passar ekki í kramið. Menn muna að jafnaði lakar það sem þeir segja sjálfir, heldur en það sem aðrir segja, enda er ráðherra óvenjulega gleyminn á eigin orð.

Svo vildi eg bæta því við, að þingsályktunin á þgskj. 367 gaf ráðherranum að eins leyfi til að gera samning fyrir árið 1913 um strand ferðirnar. Og þótt svo hefði verið, að strandferðirnar hefðu ekki fengist nema með tilslökun á samningnum um millilandaferðirnar, þá átti það ekki að þurfa að bera svo bráðan að fyrir hæstv. ráðherra að gera þennan samning, því að strandferðirnar hefjast ekki fyrri en í Apríl, en hann kom hingað í Desember. Þá flutti hæstv. ráðherra erindi, sem hann leitaði ráða um hjá þingmönnum. Hann hefði átt að leita undirtekta þingmanna, þeirra sem þá voru staddir hér, bæði um lotterímálið og um þetta mál, heldur en að leita álits um mál, sem var þannig vaxið, að hann sjálfur sór af sér faðernið, þegar hann sá, hve dauflega því var tekið.

Ef Thorefélaginu hefði verið þrýst til þess að sigla millilandaskipum sínum hingað með sömu kjörum 1913 og áður, þá hefði Sameinaða gufuskipafélagið ekki getað hækkað hjá sér. Ráðherra hefði átt 1, að halda Sameinaða við samninginn frá 1909, 2, að þrýsta Thore til að sigla fyrir sama gjald og áður; og 3, að fresta samningi um strandferðir fram yfir Desemberfundinn 1912.

Hann gerði ekkert af þessu og það stappar nærri vítaverðri vanrækslu, enda afleiðingin: stórtjón fyrir land og lýð.

Mér er spurn: hví gerði ráðherra ekkert af þessu ?

Eg skal svo ekki þreyta háttv. deild á lengri ræðu um þetta mál; það er orðið áliðið og við búið að fundinum verði frestað. Eg tek þá heldur aftur til máls seinna, ef hæstv. ráðherra virðir mig svars.

[Klukkan var þá orðin 3, og var þá fundi frestað til kl. 5, og hófust þá umræður aftur].

Forseti skýrði fá, að útbýtt hefði verið í deildinni:

l. Breytingartill. við frv. til laga um breytingar á 16. gr. laga nr. 29, 16. Nóv. 1907. Frá ráðherra (378);

2. Breytingartill. við frumv. til laga um breyting á lögum nr. 39, 10. Nóv. 1903, um leynilegar kosningar og hlutfallskosningar til bæjarstjórna í kaupstöðum (377).

3. Breytingartill. Við frv. til laga um Vatnsveitingar. Frá nefndinni (376).

Forseti skýrði frá, að útbýtt væri frá efri deild:

1. Frv. til laga um forðagæzlu. Frá nefndinni í málinu. Frv. til laga um hallærisvarnir (369),

2. Framhaldsnefndaráliti um frv. til laga um breyting á lögum nr. 32, 20. Okt. 1905, um málaftutningsmenn við landsyfirdómum í Reykjavík (383).