08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (84)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Jónsson; Það frv., sem hér er framkomið, frá þremur háttv. þingmönnum fjallar um það mál, sem þjóðinni er einna mest hugleikið að rætt sé um og athugað. Eg tek því í sama strenginn og háttv. 1, þm. Rvk. (L. H. B.) og þakka hinum háttv. flutn.m. fyrir það, að þeir hafa flutt þetta frv.

Eg ætla mér ekki að ræða einstakar greinar frv., enda liggur það ekki fyrir við 1. umr. málsins. Þó vil eg geta þess, að ýmis atriði þessa frumvarps eru þannig löguð, að eg býst ekki við að geta verið þeim að öllu leyti samþykkur þegar til kemur. Eg get nefnt t.d. ákvæðin í 11. gr.

Því er stundum kastað framan í okkur þingmenn, að við séum hræddir við kjósendur. Hvað sem því líður, verður því ekki neitað, að talsverð ábyrgð hvílir á okkur að fara að eindregnum vilja kjósendanna, þar sem það verður samrýmt við okkar eigin vilja og skoðanir.

Þess vegna er það ósk mín og von að við skiljumst ekki fyr, en þjóðin hefir verið gerð ánægð að þessu leyti. Það er full þörf á því, að Alþingi 1913 skilji ekki eins illa við þetta mál og Alþingi 1912 gerði.

Þó að eg, eins og eg mintist á, hafi sitthvað við frumvarpið að athuga, og geti ekki verið því samþykkur að öllu, mun eg gera mitt til að það nái fram að ganga í einhverri mynd. Vil eg svo leyfa mér að endurtaka þakklæti mitt til inna háttv. flutningsmanna, en bíða með frekari skýringar á skoðun minni um þau sérstöku atriði í 11. grein og víðar — til 2. eða 3. umr. málsins.