13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í C-deild Alþingistíðinda. (841)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Jón Magnússon:

Eg ætla að eins að segja fáein orð. Tal margra háttv. þingmanna hefir hnigið að því, að þeir furða sig á því að hæstv. ráðherra skuli sitja þrátt fyrir það, sem fram hefir farið á þinginu. — Mér kemur mjög á óvart, að háttv. þingmenn skuli furða sig á þessu, því það er í fullu samræmi við þá venju, sem hefir gilt hjá okkur siðan við fengum innlenda stjórn.

Í þau 2 skifti sem ráðherra hefir orðið að fara frá, vegna þess að þeir hafa fengið meiri hluta þings á móti sér, þá hefir verið krafist vantraustsyfirlýsingar frá meiri hluta þjóðkjörinna þingmanna.

Geti slík yfirlýsing ekki fengist, finst mér það bera vott um, að meiri hluti þingsins vilji ekki að hann fari.

Það var að eins þetta, sem eg vildi benda á. Annars vil eg taka það fram, að eg er yfirleitt sammála háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) um það er hann sagði í ræðu sinni.