13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í C-deild Alþingistíðinda. (842)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) var að spá því, að dómur sögunnar um okkur, Sem fylgdum millilandafrumvarpinu 1908 og fylgjum enn, mundi verða mislitur, en dómurinn um hann og hans líka bjartari. Eg skal engu spá um þetta umfram það, að þá gæti eg vel trúað, að háttv. þingmaður Dal yrði ekki talinn sakhæfur um gerðir sínar í sambandsmálinu og því sýknaður.

Háttv. svo kölluðum fyrri þingmanni Rangv. (E. J.), sem Sumir eru farnir að kalla 7. konungkjörinn, þarf eg ekki að svara. Hann talar nálega altaf »svart« og alt af af sjálfráðum ástæðum, sér og kjördæmi sínu til lítils sóma, hann virðist beint hafa tekið »patent« á því að tala svart. Honum svara eg aldrei öðru.

Háttv. þingmann S.-Þing. (P. J.) verð eg að taka alvarlegar, af því að við höfum áður fylgst að, ofan á að minsta kosti, og eg matið hann mikils í Sumu. Mér þótti undarlegt, að hann skildi fjórum sinnum í sömu ræðunni nefna, taglhnýtinga, því satt að segja hefi eg aldrei heyrt hans getið sem nokkurs forustusauðs.

Háttv. þingm. sagði, að allir heimastjórnarmenn — að 2 undanskildum — hefðu skilyrðislaust gengið í Sambandsflokkinn. Það þótti mér undarlegt að heyra, enda vænti eg þess. að háttv. þingm. Vestm. muni ekki samsinna því, sízt er hann er mintur á það.

Eg gekk í Sambandaflokkinn með þeim skilyrðum, sem eg les nú upp og eiga að vera bókuð í gerðabók Sambandsflokksins 18. ágúst 1912:

»Samþykki tillögurnar (a: þingbræðinginn) með þessum fyrirvara: 1. greiði þeim atkvæði sem lausum samningstilraunum, en í fullu vonleysi um framframgang þeirra; 2. tek frumv. 1908 óbreyttu, hvenær sem það fæst; 2. tek ekki lakari kostum óneyddur«.

Það er heldur ekki rétt, að »Samb.-flokkurinn« hafi tekið upp »prógram Heimastj.flokksins, hvorki að efni eða aðferð. Heimastjórnarflokkurinn batt sig við millilandufrumv. sem lágmark og barðist fyrir því í fullri dagsbirtu, en »Sambandsfl.« bræðir, og bræðir og nú loks »grút« og gerir alt — í laumi. Vitna eg til háttv. þm. Vestm. (J. M.) um fyrirvara minn af því, að hann geymdi öll þingbræðingsfrumv. og þar á meðal mitt með nefndri árituninni um nokkuð langan tíma, en þar að auki voru nokkuð fleiri úr Heimastjórnarflokknum, sem gengu í Sambandaflokkinn svokallaða með fyrirvara, og fleiri mundu hafa gert en gerðu, ef þeir hefðu varað sig á ráðherra, Eg er þess minnugur, að ráðh. gekk með skjal meðal þm. í Júlí 1912 til að safna loforðum undir »föst samtök«, og kallaði óbreytt fundarboð. Sumir þeirra manna, sem skrifuðu undir skjalið, sleptu fyrirvaranum af því að þeir trúðu ráðherra, að blaðið væri ekki annað en óbreytt fundarboð.

Skal eg nefna mennina, ef á móti verður borið.

Þá var háttv. þm. S.-Þing (P. J.), að brigzla Heimastjórnarflokknum. sem hann heyrir ekki til nú, um leynileg Samtök við forna andstæðinga. Hann hefði ekki átt að tala svo digurt, og sitja samt á flokksfundi með þingm. Seyðfirðinga og bróður sínum og fleiri fornurn andstæðingum. Hann hefði heldur ekki átt að tala um leynimakk maðurinn sá, sem ekki hafði þrek til að vera kyr í Sambandsflokknum, en skreið í Bændaflokkinn af því að hann vissi að Sambandsflokkurinn mundi héðan af bera keim af »grútnum« og sá matur ekki líklegur til að verða tálbeita fyrir kjósendur. Annars get eg sagt hv. þm., og þm. veit það ósagt, að ekkert leynimakk er milli Heimastjórnarþingflokksins og Sjálfstæðisþingflokksins um fram það, að þeir, og ekki allfáir úr Bændaflokknum, hafa fylgst að nokkrum málum. Og skynbærir menn hneykslast ekki á því, eða hefir svokallaður Sambandsflokkur ekki gert sama? Og hvernig ættu smáflokkar yfirleitt að koma nokkru fram en þess? Yfirleitt situr það ekki á hv. þm., að tala um pukur eða óheilindi annara. Til þess er sumum of minnisstæð afskifti hans af Íslandabankafrv. á Alþingi 1901.

Háttv. þm. var að skjóta fram einhverjum ógnunum, mér skildist helzt um þingrof, en eg hygg, að Heimastjórnflokkurinn óttist ekki fremur þingrof, en Sambandsflokkurinn og leyniafleggjarar hans í Bændaflokknum. Hann hefði ekki slept stjórnarskránni út úr deildinni, ef svo hefði verið.

Þá ætla eg að víkja nokkrum orðum að hæstv. ráðherra. Hann byrjaði ræðu sína með því, að erfitt væri fyrir sig að svara ræðu minni og er það undarlegt, því hún var þó ekki ný. Það var sama ræðan, sem eg flutti í upphafi ársins að hæstv. ráðherra áheyrandi, enda hafði eg sagt ráðherra, að eg mundi hreyfa gufaskipasamningnum á eldhúsdaginn. Mér verður þó tæpast brugðið um, að eg vegi að ráðherra óvörum eða óviðbúnum, enda held eg að mér láti brjóstvíg fult svo vel sem bakvíg.

Hæstv. ráðherra sagði, að hann skildi ekki þennan langa talnalestur minn. Eg hafði talið upp ferðafjöldann, skipafjöldann o.s.frv. Eg hélt að svo listfengur maður gæti skilið annað eins og það, að aftan hverrar myndar, sem vel á að sjást, verður að standa skýrt baksvið, svo sem á mörgum málverkum kringum oss, munurinn á yngri og eldri samningnum sést ekki nema með samanburði.

Hæstv. ráðherra sagði, að önnur ástæðan til þess að hann hefði breytt samningnum um millilandaferðirnar væri sú, að fragtir hefðu verið orðnar svo háar á heimamarkaðinum, honum værum við ekki herrar yfir. Það er öldungis rétt, það erum við ekki, en þeim mun ríkari var ástæðan að halda kostunum frá 1909 um umsamið lágt fargjald og farmgjald. En eins og ástæðan fyrir hæstv. ráðherra var rík til að halda í samninginn, að sama skapi var hún vitanlega fyrir ið Sameinaða að reyna að smokka sér undan samningnum.

Þá sagði ráðherra, að hin ástæðan til þess að hann hefði vikið frá, samningnum við Sameinaða um millilandaferðirnar, væri, að slitnað hefði upp úr Thoresamningnum, en Thore-samningurinn var ekki um millilandaferðirnar, heldur strandferðirnar, svo það var engin ástæða, enda stóð sitt félagið að hvorum samningnum.

Hæstv. ráðherra sagði, að þeir kostir, sem eg hélt fram að við yrðum að búa við, væru ekki eins þungir og eg lýsti þeim, og bætti því við, að eg hefði talað alt í »procenttölum« líklega til að villa. En hvernig getur maðurinn sagt þetta? Eg nefndi að eins tvisvar procentur, en bar alt af undantekningarlaust saman krónur og auratölur. Hann vildi ekki gera tap landsmanna meira en um 13000 kr. og sagði það ekki nema meiru en verðhækkun á kolum og vörutolli. En við þennan útreikning er ýmislegt að athuga. Fyrst það, að ráðherra taldi að eins hækkun gjalda á strandferðaskipunum, en slepti millilandaskipunum, sem gjaldhækkunin kemur vitanlega miklu harðara niður á. Í annan stað varðaði oss alls ekkert um verðhækkun kola eftir samningnum frá 1909 Í þriðja lagi hefir ráðherra lofað að endurgjalda vörugjaldið af kolum og ætti því ekki að þurfa að tvíborga það. Og í fjórða lagi var alt tíundarframtal hans órköstutt slump.

Þá skildist mér hæstv. ráðherra vilja þakka sér, að ekki hefði hækkað far- og farmgjald milli Íslands og Danmerkur. En eins og það var ekki Gvendi að þakka »að hún (Gunna flaut«, eins er gamla gjaldhæðin hér ekki ráðherra að þakka, heldur margreyndri umhyggjusemi Dana, að halda verzlun vorri undir sig með því að bola aðrir þjóðir frá með þyngri kjörum.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að farmgjaldahækkun milli Leith og Íslands væri ekki samningi sínum að kenna, heldur samningnum frá 1909, bornum saman við samninginn 1907. En til hvers áskildi félagið sér og leyfði ráðherra félaginu breytingu á farmgjaldi í 2. gr. samn. frá 1912, hafi félagið þegar áður haft þann rétt?

Í 2. gr. samningsins frá 1909, Stj.tfð. 1909, B, bls. 181 stendur:

«Gjaldskrá um fargjöld og farmgjöld skal samþykt af stjórnarráðunum og mega gjöld þessi ekki vera hærri en til er tekið í samningi um um gufuskipaferðir fyrir árin 1908 og 09 bæði milli Danmerkur og Íslands og milli Leith og Íslands og hvora leiðina sem er«.

Gjaldskrár, þær sem hér er getið um, voru gerðar eftir dagsetningu samningsins frá 1909 og giltu fyrir alt í höndfarandi 10 ára tímabil.

Nei, ráðherra mátti ekki raska samninginum frá 1909 um millilandaferðir umfram það, sem Alþingi 1912 veitti heimild til, og það leyfi náði einungis til útlendra »turista« og umhleðslugjalds.

Þá sagðist hæstv. ráðherra hafa fengið stóra ívilnun oss til handa svo sem í notum þeirra, sem hann hafði veitt félaginu, og átti þessi ívilnun að vera í því fólgin, að félagið flytti nú póst kauplaust. En við þetta er bara það að athuga, að félagið var skyldugt til að flytja allan póst kauplaust, sbr. 3. og 4. gr. samningsina frá 1909, enda hefir félagið flutt allan póst til allra póststöðva landsins kauplaust frá upphafi og til þessa dags.

Þá hélt hæstv. ráðherra því fram, að ekki hefði verið hægt að fá betri strandferðir en þær, sem hann hefir fengið. Slíkt er altaf hægt að segja. En ráðherrann hafði ekki leitað nema til Sameinaða og ef til vill Bergensfélagsins. En veröldin er stærri en Kaupmannahöfn og Bergen. Eg hefi heyrt að Frakkland og England eigi t. d. skip.

Eg spurði, hvers vegna ekki hefði verið þrýst fastara að »Thore«. Upp á þá spurningu svaraði hæstv. ráðh. með upplestri bréfs frá stjórn »Thore« þess efnis, að félagið mundi verða gjaldþrota ef það yrði ekki ieyst frá samningnum ekilyrðislaust. Eg gat ekki að því gert, að þetta minti mig á söguna um dómarann sem spurðí þjófinn: »Hefirðu stolið?«, og bætti við, þegar þjófurinn neitaði: »Jæja, þá ertu góður. Þú mátt fara«. Eg held að »Thore« hefði varla orðið gjaldþrota þó að hann hefði t. d. orðið að flytja póstflutning ókeypis, og ekki hefði það verið mikið móts við samningsuppgjöfina.

Eg spurði, hvers vegna samningum um strandferðirnar hefði ekki verið frestað. Hæstv. ráðherra svaraði því, að Sameinaðafélagið hefði ekki þolað neina bið, það hefði grætt 30,000 kr. á »Hólum« og »Skálholt«, hvoru um sig, og óforsvaranlegt hefði verið að láta það bíða lengi, úr því að það það hefði aumkvast yfir oss í »sárri nauðsyn vorri«. Trúi því hver sem vill, að félagið hafi gert þetta í gustukaskyni við oss. Því trúir enginn hér, að undanteknum háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.), sem trúir öllu sem í hann er látið af ráðherra.

Eg hafði ætlað mér að víkja nokkuð að »grútnum« svokallaða, en háttv. þm. Sfjk. (V. G.) er nú búinn að taka flest það fram sem eg vildi hafa sagt og hefi sagt nokkuð ítarlegar á öðrum stað þegar í Desember 1912. Þó get eg ekki verið háttv. þm. sammála um það, að »bræðingurinn« hafi verið til nokkurra bóta, hvort heldur hér eða í Danmörku, heldur þvert á móti.

Það var skemd að bræðingnum fyrst og fremst að því leyti til, sem hann fór skemra en millilandafrumvarpið, og þar næst að svo miklu leyti, sem hann gerði nýjar kröfur af vorri hendi, með því að vitanlegt var, að þá mundu koma nýjar kröfur í móti af hendi Dana, sem og varð, sbr. Desemberburðinn. Þá var það og ekki sízt til skemda, hvernig með bræðinginn var farið, alt leynimakkið jafn óhyggilegt og þarflaust, sem það var ljótt, enda fyrirsjáanlegt að það mundi sundra einkavígi Sambandsmálsins, Heimastjórnarflokknum. Og er nærri sorglegt að vita til þess að til þessa skyldi verða sá maður, sem mestan þátt átti Íslendinga í millilandanefndarárangrinum. Þetta er því sorglegra, sem það er líklegt, að millilandafrumvarpið hefði getað gengið fram bæði hjá þingmönnum og eins hjá kjósendum eftir alþingiskosningarnar 1911, og þá líklega einnig hjá Dönum, ef því hefði verið tekið bæði á þingi og við atkvæðagreiðslu með kjósendum.

Heimastjórnarmenn voru svo traustir eftir kosningarnar 1911 og sjálfstæðismenn svo sundraðir eftir ið alkunna »spark«, að hefðum vér allir gengið fram í þéttri fylkingu, þá hefði málinu mátt vera borgið bæði á þingi og hjá almenningi. Nú er millilandafrumvarpið ef til vill úr sögunni, og að minsta kosti ekki til neins að hreyfa því af hendi Íslendinga í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er árangurinn af bræðings- og grútarmakkinu.

Hæstv. ráðherra mátti manna bezt vita, að heimastjórnarmenn eru ótrauðir bæði í leiði og barningi, enda mér ljúfara, nú er við erum skildir, að minnast bæði sigranna, sem við höfum unnið saman og slettanna, sem við höfum fengið, heldur en ágreiningsins út af bræðinginum og Desemberfylgju hana. En ráðherra hefir verið búinn að gleyma því, að þó að satt sé að:

Altaf má fá annað skip

og annað föruneyti,

þá er hitt fult svo satt, að öllum skipum tekur ekki jafnvel og að það getur skift nokkru máli, hvert föruneytið er.

Ef efast ekki um, að það hafi verið hæstv. ráðherra hjartans mál, að koma sambandsmálinu í gott horf. En góður vilji er ekki alt af einhlítur, og var það að minsta kosti ekki nú, því að sambandsmálinu er nú svo spilt, að lítil von er um viðunanlegan framgang þess í fyrirsjáanlegri framtíð.

Eg hygg að augnabliks tilfinningar hafi nú, svo sem stundum áður, ráðið of miklu hjá ráðherra, að skáldið hafi verið sterkara en stjórnmálamaðurinn. Og er þá ekki undarlegt. þó að líkt hafi farið fyrir honum og »Stormsvalen« hjá Hinrik Ibsen:

For tung for Luften, for let for

Bolgerne,

Digter-fugl — Digter-fugl, der har

vi Følgerne.