13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í C-deild Alþingistíðinda. (849)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Halldór Steinsson:

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls. En það voru tvö atriði í ræðu hæstv. ráðherra, sem eg verð að svara. Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) tók það fram í dag, að traust Íslandsbanka hefði minkað mikið við það, að mikið af starfsfé bankans hefði verið lánað erlendum verzlunarfélögum, sem stæðu ekki á meir en svo föstum fótum. Hæstv. ráðherra ganntaðist við þetta, en vildi verja það með Jesúítasetningunni: Tilgangurinn helgar meðalið. Hann sagði, að tilgangur bankans hefði verið sá, að styðja atvinnuvegina og hjálpa til þess að alþýða manna fengi hærra verð fyrir afurðir sínar. Það má vel vera, að tilgangur bankastjórnarinnar með þessum útlánum hafi verið sá, en þá get eg fullvissað hæstv. ráðherra um það, að þeim tilgangi hafi ekki verið náð. Það er svo langt frá, að þetta fé hafi bætt verzlunina; þvert á móti hefir það orðið henni til niðurdreps. Það þarf ekki verzlunarfróðan mann, og því síður mann, sem verið hefir bankastjóri, til að vita það, að verzlunarfélög eru ekki stofnuð af náunganskærleika einum, heldur aðallega og eingöngu til þess að útvega hluthöfum góðan arð af peningum sínum. Almennings hagur kemur því að eins til greina, að hann fari samfara hag hluthafanna. En það fer fjarri, að svo hafi verið hér.

Þá var það annað atriði, sem hæstv. ráðherra gerði mikið veður út af. Hv. þm. N.-Þing. (B. SV.) gat þess, að það væri óhæfa að birta ekki stjórnarfrumvörpin nokkru fyrir þing. Þeim væri dembt inn á þingmenn þegar þeir kæmu til þings og því væru mörg lög miklu ver úr garði gerð en skyldi. Ráðherra gerði sig mjög mjög breiðan út af þessum orðum — breiðari en eg gat búist við á þessum degi. — Hann sagðist ekki ætla að fara að segja það Pétri og Páli, sem hann mætti á götunni, hvaða frum vörp hann ætlaði að leggja fyrir þingið. Flest af því sem hæstvirtur ráðherra sagði í þessu efni, voru hártoganir eða vandræða yfirklór. Eg hefi ekki ætlast til þess, að ráðherra birti frumv. áður en hann legði þau fyrir konung. Hitt er annað mál, að það er öllum ljóst, að ráðherra hefir haft nægan tíma til þess að útbúa frumvörpin og bera þau undir konung svo snemma að þau geti verið birt þingm. nokkru fyrir þing, svo að þeir og kjósendur geti í samráði glöggvað sig á þeim bæði fyrir þetta og undanfarin þing.

Háttv. ráðherra sagði, að ekkí væri eðlilegra, að stjórnin birti sín frv. fyrir þing, en þingmenn þau frumv., er þeir flyttu. Eg er þeirrar skoðunar, að eðlilegast væri, að öll frumv. væru lögð fyrir þingið af stjórninni — bæði hennar eigin frumvörp og þingmannafrumvörpin. Þingmenn hefðu nógan tíma til að útbúa málin í héraði og senda þau svo stjórninni nógu snemma. Og þetta væri heldur ekki svo hættulegt. Í því landi, sem þingræðið væri einhvers metið, er það áreiðanlegt, að ekki mundu ganga fram þau frumvörp, sem stjórnin legði á móti. Hitt gæti verið vafasamt, hvort þetta væri heppilegt í því landi, þar sem stjórnin traðkar öllu þingræði og lítilsvirðir það, eins og dæmi eru til á sumum stöðum, sem eg ekki ætla að nefna núna.