13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í C-deild Alþingistíðinda. (855)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Mig furðar stórlega á því, að hv. 2. þm. Rangv. (E. P.) skuli bregðast reiður við, þótt eg reyni að bera hönd fyrir höfuð mér og flokksbæðra minna, eftir að hann hefir borið á okkur þær ásakanir, að við höfum greitt atkvæði í skattamálunum móti betri vitund. Það eru nokkuð stór orð, sem honum verður líklega erfitt að sanna. Enn fremur furðar mig það, að hann skuli bregða mér um stjórnarfylgi. Eg skal lýsa yfir því strax, að eg tel það miklu fremur heiður en last, að fylgja þeirri stjórn, sem nú situr við völd. Eg veit ekki betur, en að þessi, sami hv. þm. hafi lengst af fylgt henni að málum, og eg hefi ekki álitið hann minni mann fyrir það. Þetta er nú breytt, hvort sem það er af því, að þingmaðurinn hafi séð í hillingum einhverja aðra stjórn, ellegar af öðrum ástæðum. Það er annars mikill misskilningur, sem virðist koma fram hjá mörgum, að það sé enginn maður með mönnum, sem ekki sé á móti stjórninni, hvernig sem hún hagar sér. Eg skil þetta ekki, en mér finst það benda í þá átt, að þeir menn, sem þannig haga sér, vilji ekki hafa innlenda stjórn, heldur einhvers konar óstjórn, því afleiðingin af slíkum hugsunarhætti getur, að að mínu áliti, ekki orðið önnur, enda mun þessi skoðun ekki eiga sér stað í nokkru siðuðu landi nema hér. Eg get því ekki álitið að það sé hægt að tala um það í niðrandi merkingu, að einhver maður fylgi stjórninni, meðan hún ekki misbeitir valdi sínu. Um framkomu mína skal eg ekkert segja, en eg skal að eins leyfa mér að benda háttv. 2. Rangv. (E. P.) á það, að það getur verið álitamál, hvort sé betra, þetta svokallaða stjórnarfylgi, sem hann var að bregða mér um, eða hitt, að vera að vega salt milli flokka og vita ekki, hverjum þeirra maður vill fylgja, eins og mér virðist eiga sér stað með þennan háttv. þingmann.