08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (86)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Ráðherrann (H. H.):

Eg finn mér skylt, þegar á þessu stigi málsins, að vekja athygli innar háttv. deildar á þeim skilaboðum, sem flutt voru á þingi í fyrra, að Hans hátign konungurinn sæi sér ekki fært að samþykkja frumv. til breytinga á stjórnarakránni, þar sem slept væri ákvæðinu um uppburð málanna í ríkisráði, meðan ekki væri fengið samkomulag milli Danmerkur og Íslands um samband landanna. Eg hygg að eg fari ekki rangt með, þó að eg segi, að þessi yfirlýsing hafi vegið drjúgum á metaskálunum, þegar mikill meirihluti á alþingi í fyrra varð sammála um, að fresta þessu máli þangað til ítarlegar tilraunir hefðu verið gerðar til þess að leiða sambandsmálið til lykta. Ýmsum þótti ilt að stofna hér til nýrrar baráttu um formstriði, sem enga sérstaka þýðingu hefir í framkvæmdinni, og voru hræddir um, að þjóðin mundi með því rata í þau vandræði, sem hún ætti erfitt með að leysa sig úr.

Eins og menn vita, var það samþykt á þinginu í fyrra, að taka til nýrra tilrauna með sambandsmálið. Það á ekki við að skýra það mál hér, enda er það öllum fullkunnugt. Að eins vil eg leiða athygli innar háttv. deildar að því, að þeim tilraunum er engan veginn lokið enn.

Mig furðar á, að inn háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) skyldi lýsa undrun sinni yfir því, að stjórnin hefði ekki lagt stjórnarskrárfrumv. fyrir þetta þing, og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) taka í sama strenginn. Eg verð að lýsa undrun minni yfir því, að þeir skuli bera slíkt fram, þar sem það hlýtur að vera öllum augljóst, að stjórnin hlaut að bíða ákvarðana þingmanna á þessu þingi um það, hvort nú yrði tekið upp frumvarp um sambandsmálið eða ekki. Það, að þingsályktunartillagan um stjórnarskrána náði ekki samþykki á þinginu í fyrra, gaf ekki stjórninni ástæðu til að halda, að þingið ætlaðist til, að hún legði stjórnarskrárfrumv. fyrir þingið. In rökstudda dagskrá, um að taka sambandsmálið upp aftur, er engan veginn takmörkuð Við árið 1912. Þvert á móti gat naumast verið um annað að ræða á því ári, en að þreifa fyrir sér, og ekkert það er að orðið, sem geri það að verkum, að sagt verði með réttu, að samkomulag sé útilokað í náinni fram tíð.

Án tillits til skoðanna á ríkisráðsákvæðinu, hvort það eigi heima í stjórnarskrá vorri eða ekki, verður að líta á það, hvort tími muni vera til kominn að neyða þingmenn til þess að gera eitt af tvennu: annaðhvort hafna samþykt alþingis 1911 um þetta atriði og láta undan síga, eða þá hitt, að hefja fremur vonlitla baráttu um þetta atriði út af fyrir sig. Mér er það kunnugt, að víðsvegar út um land er það talið glapræði. Í kjördæmi háttv. 1. þingm. Rangv. (E. J.) var það t. d. samþykt með miklum meirihluta, að láta málið hvíla sig. (Bjarni Jónsson: Með 14: 5). Það er þvínær þrefalt atkvæðamagn.

Eg fyrir mitt leyti get ekki hrósað því sem neinu happaverki, að þetta frv. hefir verið knúið fram svo skjótt á þessu þingi. Ekkert að breytingunum er þess eðlis, að þær geti ekki beðið án skaða til næsta þings, ef ekki lengur.

En úr því það er fram komið, þá tel eg sjálfsagt að nefnd verði sett í málið og það rætt, en eg vona að háttv. þingmenn taki það til alvarlegrar athugunar, hvað hentugast er og affarasælast fyrir framtíðina,. að afgert sé í þessu máli að svo stöddu.