14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í C-deild Alþingistíðinda. (875)

21. mál, íslenskur sérfáni

Ráðherrann (H. H.):

Eg hefi áður tekið fram, að form frumvarpsins er alveg ófullnægjandi. Frumvarpið er alt of stuttaralegt Ef það er meiningin að fyrirbyggja, að líkt komi fyrir aftur og það sem átti sér stað 12. Júní, þá þarf að taka skýrara fram, að nota megi flaggið á höfnum inni. Það liggur ekkert slíkt í orðinu »lands«fáni. Það liggur jafnvel beinast við, ef ekki er ætlast til að fánann megi nota alstaðar á landhelgissvæðinu, að skilja orðið þannig, að fánann megi hvergi nota nema á þurru landi.

Eg er samdóma háttv. framsögm. (L. H. B.) um, að breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) séu óhæfar. Fyrri tillöguna þarf ekki að ræða, hún hefir þegar verið feld hér í deildinni. Hin síðari er þannig orðuð, að hún gæti leitt til endema. Það á að vera óheimilt, að draga nokkurn annan fána á stöng á byggingum, sem eru opinber eign, en þennan »landsfána«. Eg veit ekki, hvort háttv. þm. Dal. (B. J.) rekur minni til, að konungurinn kom hér árið 1907. Þá bjó hann í Mentaskólahúsinu,. sem er opinber stofnun, og hafði þar fána sínu á stöng. Ef slíkt kæmi fyrir aftur, þá ætti konungi að vera óheimilt að draga upp konungaflagg sitt á því húsi, sem honum væri fengið til íbúðar, ef það væri landseign, t.d. Mentaskólinn eða ráðherrabústaðurinn. Það geta komið fyrir önnur tilfelli jafnfáránleg. (Valtýr Guðmundsson: Það mætti t. d. ekki sýna útlendum þjóðum kurteisi með því að draga upp fána þeirra). Nei, það ætti eftir þessu að verða lagabrot. Eg held að háttv. þm. hafi ekki hugsað út í þetta., þegar hann samdi tillöguna. Eg ætla að ljúka máli mínu með því sem eg hefi reyndar margsagt, að eg álit frumvarpið þess eðlis, að sérstaklega ætti við, að ráðherra ræddi málið við konunginn áður en Alþingi leggur sinn úrskurð á það. Það á þess vegna ekki að verða útrætt nú á þinginu. Það mætti t. d. afgreiða það með rökstuddri dagskrá um að vísa því til stjórnarinnar.