14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í C-deild Alþingistíðinda. (879)

21. mál, íslenskur sérfáni

Framsögum. minni hl. Bjarni Jónsson):

Eg skal ekki halda langa ræðu, sérstaklega fyrir það hversu friðsamlega hefir verið tekið í tillögur mínar. Eg hefi enga mótbáru heyrt, sem nokkurs er verð. Um hæstv. ráðherra má segja, að »eldist árgalinn nú«, ef hann hefir þá ekki kastað þessu fram að gamni sínu. Þó að óheimilt sé að hafa annan fána en íslenzka fánann á opinberum byggingum, er ekki þar með útilokað að ekki megi sýna íslendingum kurteisi, í einstökum tilfellum, með því að draga fána þeirra á stöng. Slíkt dettur engum í hug. Eg held, að eg megi fullyrða að í útlendum lögum sé sams konar bann, og eg man ekki betur en að eg rækist á það um daginn, að í Danmörku sé óheimilt að hafa annan fána en Dannebrog á opinberum byggingum. Þykja þó Danir full kurteisir. (Lárus H. Bjarnason: Það er ekki rétt). Eg þori reyndar ekki að fullyrða það, en eg hygg þó, að mig minni rétt. Þetta bann getur ekki komið í bág við neinar kurteisisvenjur, enda mun venjan vera sú, að dregnir séu upp báðir fánarnir, fáni landsins og fáni þess manns eða þeirra manna, er kurteisina á að sýna. Hv. ráðh. hefir eflaust verið að gera að gamni sínu með því að segja, að ef konungurinn kæmi hingað og byggi í Latínuskólanum, þá mætti ekki draga þar upp konungafánann. En mér er nú spurn, þegar konungur Íslands kemur hingað, getur þá ekki fáni Íslands verið jafnframt konungsfáni? Eða ætli hann komi til þess að sýna, að hann sé ekki konungur Íslands? Þá held eg, að enginn skaði skeði, þó að hann byggi fánalaus í Latínuskólanum.

Menn hafa látið sér þau orð um munn fara, að gerð fánans hafi hvorki Verið samþykt af þjóð né þingi. Bláhvíti fáninn hefir verið samþyktur af þjóðinni á hverjum þingmálafundinum eftir annan og á Alþingi 1911 var hann samþyktur í neðri deild, og meira að segja sem fullkominn íslenzkur siglingafáni. Þetta er því einkennilegra, þar sem því er haldið fram af sömu mönnunum sem sátu hér á þinginu 1911 og spertust þá við að mótmæla fánanum.

Það er sjálfsagt rétt, sem háttv. 2. þm. G: K. (Kr. D.) sagði, að þjóðin vilji láta iðgleiða fána á þessu þingi. En henni stendur ekki á sama, hvers konar fáni það verður. Mér er t. d. ekki sama, ef eg á að fá hest upp í skuld, hvort eg fæ tréhest — barnaleikfang — eða gæðing. Og þetta er ekkert annað en leikfang í stað gagnlegs hlutar. — Það er líka rétt, að það er blái fáninn með hvíta krossinum, sem er fáni Íslands. Það er hann, sem samþyktur hefir verið sem siglingafáni af þjóð og þingi. Það var hann, sem tekinn var hér á höfninni 12. Júní. Vegna hans urðu menn reiðir. En þegar hann hefir verið gerður að öðrum fána en hann nú er, þá tekur mönnum ekki eins sárt til hans. Þjóðin fagnar ekki þingmönnum sínum, er þeir koma heim í haust, ef þeir hafa tekið fánann og lagt hann í sorpið fyrir fæturnar á hverjum þeim sem vill traðka á honum.

Það ræður nú hver sínu atkvæði fyrir mér um þetta mál. Eg hefi reynt að setja skýrt fram ástæðurnar fyrir minni breytingartillögu, hvað þeir undirskrifa, sem »já« segja, og sömuleiðis hinir, sem segja »nei«. Mun eg nú láta staðar numið, því þetta mál er orðið auðskilið og litt flókið. En að lokum vil eg geta þess, að þær myndbreytingar, sem farið hefir verið fram á hér á þinginu, að láta þetta tákn ekki merkja neitt eða það sama sem þorskurinn forðum, munu ekki mælast vel fyrir. Hygg eg, að þeir menn, sem að þeim stuðla, fái ekki þakklæti þjóðarinnar, heldur þungan dóm. Og það má eg fullyrða, að þeir munu verða taldir sakhæfir.

Framsögum. meiri hl. (Lárus H. Bjarnason): Eg er sammála hv. þm. Dal. (B. J.) um, að ekki þurfi að stæla lengi um breytingartill. hans, því þær eru með öllu óhæfar. Engin af þeim ástæðum, sem bornar hafa verið fram fyrir þeim, stendur óhrakin.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði með sinni vanalegu varkárni, að frumvarpið mundi geta valdið mótspyrnu utan lands og innan. Virðist mér að hann ætli sér nú að greiða atkvæði þvert ofan í atkvæði sitt áður. Hann mun hafa verið hræddur um, að verða mundi stjórnarskifti út af því. En hann þarf ekki að vera hræddur um það, því ekki velviljaðri maður okkur en Knútur Berlín hefir lýs yfir því, að frumv. um landafána muni ekki mæta mótspyrnu í Danmörku. Hæstv. ráðherra þóttist vera í vafa um, hvað landsfáni þýddi, hvort það þýddi að eins flagg á þessu landi, eða jafnframt flagg á höfn og í landhelgi. Hv. ráðherra hlýtur, sem löglesinn maður, að vita, að höfn og þurt land er eitt og sama í hér um ræddum skilningi, sbr. nýgenginn landsyfirdóm um áfengiskaup á höfn. Og líku máli gegnir um landhelgina. Þetta ætti sízt að þurfa að tyggja upp fyrir löglesnum mönnum dag eftir dag.

Það er algerður óþarfi fyrir hæstv. ráðherra að vera að leggjast á móti þessum lögum hér, því eftir því sem mér skildst á honum, þykist hann hafa efri deild í bakhönd, enda á jafnsamgróið mál þjóðerni voru og fánamálið að ræðast í báðum deildum og því þegar af þeirri ástæðu nauðsynlegt að það komist gengum þessa.

Eg hefi ekki fullyrt, að svo fari um fánafrumv. sem um lotterífrumv., en hitt hefi eg sagt, að líkt gæti um bæði farið. Það skiftir ekki miklu máli, með hverju móti Danir fengju frest til lagasetningar um alaherjar flagg, hvort heldur fyrir fall frumv. eða fyrir uppburðarleysi ráðherra. Hvort heldur sem yrði, gæti ráðherra með sama rétti sagt, að nú væri búið að lögleiða flagg, sem næði til allra landa konungsins, og því væri ekki til neins að halda lengur fram íslenzkum fána.

Þegar 3 stjórnarflokksmenn höfðu staðið upp til þess að gera grein fyrir, að þei litu nú — aumir — öðruvís á málið en áður, þá fór eg satt að segja að óttast, að flokkssamþykt lægi fyrir; en vera má að svo sé þó ekki, úr því að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) ætlar ekki að greiða atkvæði á móti frumv., heldur láta það afskiftalaust, eða kannske hann hafi fengið hlutleysialeyfi. Sé svo, verður að reyna að komast af án Stjórnarflokksins. Háttv. þingm. N.-MúI. (Jóh. Jóh.) sagði aftur, að hann óttaðist ekki endurtekningu á tiltækinu 12. Júní, af því að forsætisráðgjafinn danski lýsti vanþóknun sinni á því. Háttv. þm. hefir víst ekki lesið bréf forsætisráðherrans. Þar stendur, að hann sé þakklátur ráðherranum fyrir verndun ríkisflaggsins, þetta sé lítilfjörlegt atriði. sem þeir geti spjallað um þegar ráðherra komi út. Það var ekki með einu orði vikið að neinum ákúrum eins og háttv. þm. var að tala um, heldur þvert á móti, enda var ekki nema eitt svar til af hendi Danastjórnar, sem sé að kveðja foringjann á Islands Falk samstundis heim. Háttv. flutningsm. breytingartillögunnar, hvera einlægni eg aldrei efa, en hefir þennan leiða galla, að láta sitt góða hjarta ráða fyrir sínu góða höfði, þóttist finna sárt til smánar þeirrar, er okkur var sýnd 12. Júní, en þeim mun kynlegra er, að hann skuli ekkert vilja gera til að fyrirbyggja að slíkt komi fyrir aftur. Það er annara afarkynlegt að sjá þá sem er illa við íslenzku litina og þá sem elska þá, taka saman höndum til að urða frumv. (Bjarni Jónsson: Eg er dauður, skyldi annars svara). Eg er ekki að skamma þingmanninn, sagði að eins að hans góða höfuð ætti að ráða meiru, en hana heita hjarta.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mái, en vona, að úr því að það fór með 20 atkvæðum til 3. umræðu, þá takist að fleyta því með nægilegu atkvæðamagni til efri deildar, jafnvel þó að stjórnarflokkurinn leggist allur á móti því.