08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (88)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Jónsson:

Eg verð að byrja á því, að biðja hæstv. ráðherra að hlusta á það, að sá meiri hluti, sem samþykti á þingmálafundi í mínu kjördæmi, að hreyfa ekki við stjórnarskrármálinu á þessu þingi, var næsta lítill, einir 14 menn. (Ráðherrann: Það Voru þó 3/4 hlutar þeirra manna, sem skiftu sér af málinu). Eg get ekki gert að því, þó að bændur hafi sótt illa þingmálafundinn; og eg verð að líta svo á, að þessi meiri hluti lýsi ekki vilja kjósenda alment og get því í þessu tilfelli ekki farið eftir ályktun, þeirri sem á, fundinum var gerð. Annars bind mig ekki við það, hvað kjósendur segja, nema það samrýmist minni eigin skoðun. Hér skoða eg mig ekki bundinn við neitt annað en mína eigin sannfæringu, og fer eftir henni einni, enda þó mér sé ætíð kærara að mínar skoðanir falli saman veg við þeirra.

Eg get ekki skilið, hvernig hæstv. ráðherra getur sagt, að ekkert liggi á með þetta mál. Það er þó vilji þjóðarinnar að það nái fram að ganga. Breytingum á stjórnarskránní hefir verið frestað á undanförnum þingum að eins vegna þess, að menn álitu, að sambandamálið ætti að vera til lykta leitt á undan. En nú er mér ekki kunnugt, að sambandamálið hafi þann byr, að útlit sé til að það nái fram að ganga. Og þegar seinustu tilraunirnar til samkomulags voru gerðar í vetur, og þingmenn kallaðir hingað suður til að segja álit sitt um þá kosti, sem þá voru í boði, þá var Resultatið það, að þeir sáu sér ekki fært að ganga að þeim. Eg get því ekki verið samdóma hæstv. ráðherra um það, að nú kalli ekkert að með breytingar á stjórnarakránni.

Svo eg minnist dálítið á aðra ræðumenn, sem talað hafa í þessu máli, skal eg víkja nokkrum orðum að háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann vill að kosningarétturinn sé ekki bundinn neinu öðru skilyrði en alduratakmarki. Þannig geta þá bæði þjófar og bófar öðlast kosningarrétt og kjörgengi. Eg álít hitt réttara að kosningarrétturinn sé ekki bundinn fyrst og fremst við 4 kr. aukaútsvar minst — sama hvort það eru 4 kr. eða 400 kr., eða ekki neitt. Aðalatriðið frá mínu sjónarmiði er það, að maðurinn sé heiðvirður og heilbrigður í skoðunum. Og eg vil hjartanlega biðja háttv. þm. Dal. (B. J.) að taka þessi orð mín til greina og vera ekki að gera tilraun til þess að greiða þjófum og bófum inngöngu í þingsalinn.

Eg hefi ekki ástæðu til að minna hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) á að álasa stjórninni. Það vita allir, hvað gjarnt honum er að ráðast á landsstjórnina, hver svo sem hún er. Það getur nú verið gott og blessað á stundum, því Við það koma oft fram frekari upplýsingar um málin, en ella, og fyrir það er eg honum þakklátur, því að hann er líka manna bezt fallinn til að gera gott úr því aftur. En eg get ekki verið honum samdóma um, að ástæða sé til að álasa stjórninni fyrir að hafa ekki lagt fyrir þingið frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögunum eina og nú er ástatt.

Eg skal svo ekki halda áfram lengur. Eg hefi lýst að nokkru skoðun minni á málinu, og eg get ekki séð að það sé mikill meiri hluti á móti því í Rangárvallasýslu, þó að 14 menn af 4–500 hafi viljað fresta því.