14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í C-deild Alþingistíðinda. (884)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Framsögum. (Ólafur Briem):

Samskonar frumv. og hér liggur fyrir, hefir verið til meðferðar á þingunum 1911 og 1909. Í bæði skiftin áttu þau upptök ein í Nd., komust til Ed. og strönduðu þar. Þessi frv. voru nokkuð viðtækari en þetta er. Þetta frumvarp, sem hér liggur fyrir, snýst aðallega um 4 atriði.

1 gr. er um bygging jarða og ábúðarhúsa. 2. og 3. gr. er um endurgjald til leiguliða fyrir jarðabætur. 4. og 5. gr. er um bygging bæja og viðhald húsa. 6. og 7. gr. um rétt leiguliða til að losa sig við innstæðukúgildi á jörðum.

1. gr. frumvarpsins um bygging jarða fer fram á, að aldrei sé heimilað manni að byggja jörð skemur en til 10 ára, og svo er þar annað nýmæli, að ekkja haldi ábúðarrétti bónda sina. Um rétt ekkju til ábúðar á. jörð eftir mann sinn, er sú regla, að hún haldi honum þangað til hún giftist aftur. Um þetta atriði var enginn ágreiningur í nefndinni.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri rétt að setja samningafrelsi manna þær skorður, að þeim væri ekki leyfilegt að byggja jarðir sínar til skemri tíma en 10 ára eða jafnvel þó ekki væri nema til eins ára. Slíkt gæti í einstökum tilfellum haft óþægilegar afleiðingar. Segjum t.d. að maður vildi láta son sinn taka við jörðinni, en hann væri ekki fulltíða eða það stæði einhvernveginn svo á að hann gæti ekki byrjað búskap á henni í bili. Þá gæti honum verið það mikill bagi að mega ekki byggja jörðina 1 ár eða svo þangað til sonur hana gæti tekið við henni. Nefndin leggur því til að feld sé úr 1. gr. frumvarpsins og vill una við atkv. núgildandi ábúðarlaga.

2. gr. frumvarpsina er í fullu samræmi við 20. gr. ábúðarlaganna, sem nú gilda; um endurgjald fyrir unnar jarðabætur leiguliða, og það hvernig leiguliði á að haga sér, ef hann vill gera jarðabætur. Hér er að eins gerð sú breyting á, að hámark endurgjaldsins fyrir unnar jarðabætur er hækkað um 1/5 eða úr tólffaldri upp í fimtánfalda afgjaldshækkun jarðarinnar. Þetta getur verið álitamál, hvort rétt sé, en nefndin hefir samt látið það atanda. Nefndin hefir komið með breyt.till. við 3. gr. frumvarpsins, sem fer í þá átt, að landsdrottinn eigi jafnan kost á að líta eftir, hvernig jarðabætur á leigujörðum eru unnar. Enn fremur hefir nefndin komið með breyt.till. um upphæð endurgjalds fyrir unnar jarðabætur og fært það niður úr 1,50 kr. í 1,00 kr. fyrir hvert dagsverk, sem jarðabæturnar eru metnar. En þetta atriði vill hún samt ekki gera að neinu kappsmáli.

Nefndin hefir loks komið með þá breyt.till., að seinni liður 3. gr. falli niður. Svo stendur á, að vafi leikur á því meðal lögfræðinga, hvort ábúðarlögin frá 12. Jan. 1884 nái til prestssetra og kirkjujarða. En hvað sem um það er, þá vildi nefndin ekkí, að þessi viðaukalög hefðu víðtækara gildi en sjálf ábúðarlögin og því leggur hún þetta til.

Nefndin hefir ekki getað orðið öll ásátt um 4. og 5. gr. frumvarpsins, er snertu byggingu og viðhald bæjarhúsa, og er það tillaga meiri hlutans, að þessar greinir falli burtu. Það sem þar er farið fram á, er algert nýmæli. Þar er haldið fram því fyrirkomulagi, að bæjarhús séu eign landadrottins og, að viðhald húsanna hvíli á honum, þannig, að hann sé skyldur að byggja þau upp algerlega á sinn kostnað, en taki þar á móti í notum þess hærri landskuld af jörðinni. Í gildandi ábúðarlögum hvílir viðhaldið á leiguliðunum, hann verður að halda húsunum og skila þeim í gildu standi eða með fullu álagi eftir úttekt. Nefndina hefir reyndar ekki greint svo mjög á um aðalefni þessa máls. Hún var sem sé öll sammála um það, að í sjálfu sér væri hentugast það fyrirkomulag, sem nefndar frumvarpsgreinar gera ráð fyrir, og að æskilegt væri, að það kæmist á sem fyrst, en meiri hluti hennar áleit, að tíminn til þess að lögleiða þetta væri enn ekki kominn.

Það má staðhæfa, að bæjarbyggingar eru enn sem komið er á tilraunastigi. Það litur út fyrir að menn séu að hverfa frá torfbæjabyggingu, sem til skamms tíma var alment ríkjandi upp til sveita. Um nokkurt árabil gekk stefnan í þá átt, að byggja timburhús. En nú þykjast menn komnir að raun um, að timburhúsin séu mjög óhentug til sveita, bæði af því að efnið þarf að sækja langt til, og líka af því, að timbur, það sem flyzt til landsins í seinni tíð, er mjög óvandað, sem gerir húsin endingarlítil og alt viðhald kostnaðarsamt. Og auk þess þarf mikið til að hita upp timburhús, en erfitt að ná í kol. Þess vegna eru menn nú farnir að byggja steinhús á jörðum sínum, því að þau hafa þann kost, að þau eru lang endingarbezt af öllum húsum. Af þessu getum við séð, að húsin reynast ærið misjafnlega eftir því, hvernig byggingu þeirra er hagað, og að enn er ekki fengin full reynsla í þessu efni, enda allsendis ónógar upplýsingar um, hvað bezt hefir gefist, og því þarf að safna nákvæmum skýrslum um húsabyggingar og hvaða hús reynist bezt, áður en lagt er út í að lögleiða nýmæli, sem gerði það að verkum, að hægt væri að knýja eigendur jarða til þess að leggja út í kostnað við nýjar bæjabyggingar. Fyrir því vakti það aðallega fyrir meiri hluta nefndarinnar, að nauðsyn bæri til að fyrst væri komist að einhverri niðurstöðu um, hvað bezt hentaði í því efni.

Um 6. og 7. gr., er snertir rétt leiguliða til að losast við jarðakúgildi með tilteknum skilyrðum, var enginn ágreiningur í nefndinni, og skal eg því ekki tala neitt um þær greinar.

Breyt.till. frá minni hlutanum við 8. gr. man eg ekki til að kæmi til orða í nefndinni. Tillagan er um, að ef land leigujarðar skemmist af náttúruvöldum, skuli meta, hve miklum hluta landsskuldar það nemi ár hvert, og eigi þá leiguliði heimting á að landskuldin lækki um þá upphæð, sem metin er. Í ábúðarlögunum, sem nú gilda, er það ákveðið í 17. gr., að leiguliði eigi heimting á helmingslækkun á afgjaldi, þegar jarðir skemmast til muna. Það má deila um, hvor reglan sé réttlátari. Þetta hefir ekki verið athugað í nefndinni. Mitt álit er, að ef á að breyta gildandi ákvæðum, þá þurfi að ákveða nánara en gert er grundvöllinn, sem matið er bygt á. Nú er mjög mismunandi, hvaða reglum er fylgt þegar svona mat fer fram. Til dæmis hafi skriða fallið á engi, þá ákveða sumir matsmenn skaðann eftir því, hve marga hesta engið, sem skemdist, gaf af sér. Hafi nú engið t. d. gefið af sér 100 hesta af heyi og slæjutollurinn sé metinn 30 aurar, gerir þetta samtals 30 krónur. Hafi nú alt afgjaldið af jörðinni verið 60 krónur, ætti landskuldin eftir breytingartillögu minni hlutans að lækka um helming, og sjá allir, að það nær ekki nokkurri átt, þar sem tún, beitiland o. s. frv. er alt óskemt og engjaskemdirnar nema ef til vill ekki nema litlum hluta af útheyskapnum. Það er öllum mönnum sjáanlegt, að svona grundvöllur getur ekki verið réttur, og meðfram af þeirri ástæðu verð eg að telja varhugavert að samþykkja umrædda breytingartillögu minni hlutans.

Þá var komið nón og ýmsir beðið sér hljóðs, frestaði því forseti þingfundi til kl. 5 síðdegis.