14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í C-deild Alþingistíðinda. (885)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Það eru aðallega tvö atriði, sem eg legg áherzlu á. Annað er um það, hver kosta skuli byggingar á jörðum, og hitt um það, hver bæta skuli ef jarðir skemmast.

Mér virðist mikil hætta vera á því, að húsakynni verði vanalega vond, ef leiguliðar eiga að byggja upp hús á jörðunum, vegna þess að leiguliðar eru vanlega fátækir. Þeir taka nú við jörðunum vanalega með álagi, og má geta nærri, að það er ekki svo vel úti látið, að bygt verði fyrir það. Mér finst hitt ólíku sanngjarnara, að eigandi jarðar eigi húsin og taki þá þess meiri leigu af jörðunum, sem hann kostar miklu til bygginga. Líka er miklu betra fyrir leigjandann að borga meiri leigu en að eiga álagið alt af yfir höfði sér. Hann veit þá, hvað hann á og hvað hann á ekki.

Eg gæti látið vera að tala um málið ef að eg væri viss um að þingmenn hefðu lesið álit minni hlutans. En af því að ekki stendur mikið af okkur upp úr skjalabunkanum, sem hleður niður á hverjum degi, þá get eg búist við því, að menn hafi ekki lesið það. Eg vil því leyfa mér að segja nokkur orð um breytingartillögur mínar.

Mér virðist það alveg röng stefna, að láta leiguliðana bera ábyrgðina á því, að jarðirnar skemmist. Það er líka gagnstætt almennri venju, að eigendur beri ekki ábyrgð á þeim skemdum á eigum sínum, sem eru öllum ósjálfráðar. Það er miklu betra fyrir leigjandann, að borga hærri leigu og bera ekki ábyrgðina, heldur en að bera að sínum hlut ábyrgóina á skemdum og borga lágt eftirgjald. Mér finst það líka alveg óhafandi ákvæði í 17. gr. ábúðarlaganna, sem nú gilda.

Það er ekki tími til að reikna út hækkunina, sem verður á landskuldinni fyrir þessar kvaðir, sem leggjast á eigandann. Gerum samt ráð fyrir að hann byggi torfbæ, sem standi að öllum líkindum í 30 ár, þá ætti hækkunin að nema 6%, sem er ekki er of mikið, ef húsið er vel gert. Það er augsýnilegt, að eigendur, sem gerðu vönduð hús t. d. steinbæi, kæmust af með mínna en að reiknuð væri 4%, því að húsin entust þá lengur. Eg reiknaði út einu sinni í öðru máli, að lán væri fullgreitt á 75 árum með 5% og mættu vextir þá vera 4,85. Eg hefi því miður ekki haft hentugleika til að reikna þetta nú, og hefi ekki tekið logarithmana með mér. Eg vona að mönnum skiljist, að þetta sé engin frágangssök. Með þessum hætti fellur kostnaðurinn jafnt á báða, leiguliða og jarðeiganda.

Að öðru en þessu er eg alveg sammála nefndinni. Það er að eins 4. og 5. gr., sem oss skilur á um. Um hag eigandans er nægilega séð í 5. gr. Á leiguliða legst viðhaldið að öðru en eðlilegri fyrningu. Þessar greinir eru meginatriði frumvarpsins, og ef þær eru ekki teknar með, sé eg ekki, að gagn sé í frumvarpinu. (Sig. Sigurðsson: 3. gr.). Þá grein met eg einskis. Ef nokkuð er, þá virðist mér hún helzti djarftæk á eignir manna, þar sem jarðeigendum er gert að skyldu að greiða fyrir jarðabætur, hvort sem þær eru haganlegar eða ekki.

Að öðru leyti gerði eg ekki ágreiningsatriði í nefndinni; eg taldi frumv. skaðlaust. Eg veit ekki, hvort höfundur frumvarpsins ætlar sér að blása lifandi anda í þær greinir, sem nefndin ætlar sér að drepa, en þó býst eg við því.