14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í C-deild Alþingistíðinda. (891)

80. mál, gjafasjóður Jóns Sigurðssonar

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Eg þykist ekki þurfa að fara mörgum orðum um þetta mál að þessu sinni. Eg gerði grein fyrir því við 1. umr. hvernig málið er til komið. Að eins skal eg benda á, að tvö aðalatriði frumvarpsins eru þau, að vöxtum af gjafasjóði Jóns Sigurðssonar frá Böggversstöðum handa fátækum í Eyjafjarðarsýslu megi verja til kornforðatryggingar innan sýslunnar. Og í öðru lagi, að allar fjárveitingar úr sjóðnum skuli veittar að tilhlutun sýslunefndarinnar í Eyjafjarðarsýslu og bæjarstjórnarinnar á Akureyri.

Um breyt.till. meiri hluta nefndarinnar er það eitt að segja, að hún ræðir um það, að bæjarstjórnin á Akureyri hafi sama tillögurétt um fjárveitingar úr sjóðnum og sýslunefndin í Eyjafjarðarsýslu, og bærinn njóti sömu hlunninda og sýslubúar, enda hefir svo verið, og byggist það á því, að Akureyrarbær var óskiftur hluti Hrafnagilshreppa þegar gjöfin var gefin, og fekk fyrst sín sérskildu réttindi og aðskilinn fjárhag eftir 30. ár, það er því. fyrir vangá, að þetta — ákvæði var ekki skýrt tekið fram í frumvarpinu.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en að því leyti sem nefndin hefir ekki getað fylgst að máli, veit eg að minni hlutinn muni gera grein fyrir þeim ágreiningi.