14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í C-deild Alþingistíðinda. (895)

80. mál, gjafasjóður Jóns Sigurðssonar

Magnús Kristjánsson:

Eg álít þessi mótmæli háttv. framsögum. minni hlutana (G. E.) stafi af ókunnugleika hans. Hann hefir líklega ekki kynt sér, hvernig til hagar á þessum hluta landsins, að það geta liðið missiri án þess að nokkrar skipagöngur geti átt sér stað á því svæði, sem hér er um að ræða. Það er þess vegna nauðsynlegt, að þau stjórnarvöld, sem hér að standa, geti fengið umráð yfir þessu fé, svo að það geti komið að tilætluðum notum. Allur útreikningur háttv. framsögum. minni hlutans er á röngum grundvelli bygður, því að það hefir ekkert verið ákveðið um, hvernig verja skuli vöxtum sjóðsins. Og eg hygg, að það muni vera óhætt að treysta því, að bæjarstjórn Akureyrar og sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu muni vera fult eins færar um að ráða fram úr því eina og háttv. framsögum. minni hl. (G. E.). Þess vegna er rétt, að deildin verði við framkomnum óskum þeirra manna, sem hlut eiga að máli, og geri ákvarðanir um notkun sjóðsins, svo hann geti náð tilgangi sínum. Eg skil ekki þá hugmynd, að halda áfram að safna þessu fé, án þess að við því sé hreyft. Ef vandræði bera að höndum, þá þarf að vera heimilt að nota fé sjóðsins. Og það er ekki víst, að það yrði eyðslufé. Kornið getur að líkindum ekki orðið ónýtt, því að alt af er hægt að fá kaupendur að birgðunum. Það gæti komið fyrir í góðum árum, að lítil ástæða væri til að kaupa kornbirgðir, og það mætti líka draga það í lengstu lög, þangað til að búast mætti við hafís, enda þótt heimilað væri. Yfir höfuð get eg ekki annað sagt, en að útreikningur háttv. framsögum. minni hlutans sé á engum rökum bygðar, þar eð enn er ekki afráðið um, hvernig eða að hve miklu leyti því fé verður varið, sem heimilað kann að verða til þess að koma í veg fyrir bjargarskort.

Eg vona, að það þurfi nú ekki að fjölyrða meira um jafneinfalt mál og þetta, og eg býst við að menn sjái, að meiri hlutinn hafi réttara fyrir sér en minni hlutinn.