14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í C-deild Alþingistíðinda. (900)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Tryggvi Bjarnason:

Eg gat þess við 1. umr. þessa máls, að það væri ýmislegt, sem eg gat ekki felt mig við.

Var það sérstaklega niðurlag 7. gr. Þar stendur: »Svo skal bankastjórninni heimilt þegar henni þurfa þykir, að láta skoðunargerð fara fram á fasteignum, þeim sem bankinn hefir að veði, á kostnað lántakanda«. Eg geri reyndar ráð fyrir að núverandi bankastjórn hugsi sér að beita þessu ákvæði á þann hátt, er framsögum. tók fram í ræðu um annað frumv., sem hér var til umræðu á dögunum um sama efni og atendur í þessari grein frumvarpsina, þannig, að bankinn mundi heimta vottorð um það að eignunum væri sæmilega viðhaldið, en fengjust ekki nein vottorð um það, að þá mætti bankinn senda menn til þess að skoða eignirnar. Þetta ákvæði sló miklum óhug á mig og mun hafa gert það á fleiri, því komið gæti sú bankastjórn, sem notaði sér þessa heimild helzt til freklega. Þetta ákvæði er talsvert varhugavert og mundi verða illa þokkað. Og víst er um það, að þegar þetta fréttist til Ísafjarðar, að frv. væri á leiðinni hér í þinginu um þetta efni, þá var kallaður saman borgara fundur, sem samþykki það að skora á þingið að fella þetta frumv. Þetta sýnir, hvernig menn mundu alment líta á þetta. Annars skal eg ekki tala mikið um þetta, þar sem háttv. framsögum. (B. Kr.) mótmælti ekki minni breyt.till. Eg er heldur ekki neitt mótfallinn breyt.till. við mína breyt.till. Eg þóttist altaf vita að það yrði bankastjórnin, sem myndi skera úr því, hvort skírteinin væru fullnægjandi, eins og hún sker úr því, hvort lántökuskjöl eru fullnægjandi.

En 2. lið breyt.till. minnar get eg ekki fallið frá. Mér finst þetta vera nokkuð hár skattur ofan á aðrar kvaðir, sem ekki hafa verið áður. Þetta er gert af því, að hér er svo mikil verzlun með fasteignir, oft án beinnar þarfar — og sem sumir kalla brask — og rétt sé að skatta þessa braskara. Það er ekkert á móti því, en Skatturinn má þó ekki vera of hár, og það er hann hér, því það eru margir, sem kaupa og selja fasteignir af beinni þörf, og verða þeir að gjalda hinna og greiða þennan skatt. Þeirra vegna vil eg lækka þetta gjald. Mér sýnist því nægilegt að hafa þennan skatt 1%. Í þessu frumvarpi virðist mest vera hugsað um að tryggja veðdeildina, en minna um það að tryggja lántakendur. Það er ekkert út á það að setja, þó menn vilji tryggja fé bankans, en mér finst eiga að minsta kosti að taka eins mikið tillit til lántakendanna.

Samábyrgðina, sem talað er um í 8. gr., kann eg ekki við. Býst eg við, að mönnum stafi óhugur af henni. En annars skal eg ekki fara fleiri orðum um hana, né frumv. í heild sinni, en vænti þess, að breytingartillögur mínar verði samþyktar, því þá verður frumv. nokkuð aðgengilegra.