08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (92)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Jónsson:

Það var eiginlega ekki ætlun mín, að bera það á hæstv. ráðh., að hann hefði sagt rangt frá. Eg hafði því miður gleymt þessum orðum, ríkisréttarlegt samband, og þykir mér vænt um að þau rifjast upp, vegna þess að nú fæ eg tækifæri til að benda á, hversu fráleitt það er, að konungur hafni enn þá stjórnarskrárbreytingu.

Hér getur ekki verið um neitt ríkisréttarsamband að ræða. Það er öllum kunnugt frá þinginu 1911, að það mótmælti stöðulögunum, þar sem sagt er, að Ísland sé hluti af Danmörku, og ályktaði, að þau lög væru alls ekki bindandi fyrir Ísland. Kvað minni hlutinn þá jafnríkt að í rökstuddri dagskrá sinni sem við hinir. Voru því allir á einu máli um það, að þótt væru ógild hér á landi. Og þó eru það einu lögin, sem gefa rétt til að tala um ríkisréttarsamband milli Íslanda og Danmerkur.

Úr því að þessi lög eru svo ómerk, sem með þessu er sýnt, þá er það ljóst, að ráðherra getur ekki borið slíkt fram fyrir Alþingi Íslendinga. Það verður þá auðsjáanlega að hefja baráttu á ný, hvernig sem henni lyktar. Danir, sem ekkert varðar um okkur, gera kröfu til að vér séum hluti af þeim.

Eg trúi því ekki, að konungur ætlist til, að komið verði á samningum áður en því er kipt í lag.

Þess vegna getur mér ekki skilist, þegar Alþingi næst samþykkir breytingu á stjórnarskránni með öllum atkvæðum, að konungur skrifi ekki undir.