15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í C-deild Alþingistíðinda. (935)

108. mál, strandferðir

Ráðherrann (H. H.):

Eg er samdóma háttv. þm. Sfjk. (V. G.) um það, að ekki þurfi að tala langt mál um einstök atriði við þessa umr. Eg er honum og nefndinni líka samdóma í því, að æskilegast væri, að vér fengjum sem fyrst samgöngur bæði milli landa og með atröndum fram, sem Íslendingar sjálfir önnuðust og réðu. En eftir því sem útlit er til nú, þá er engin von til þess, að Eimskipafélag Íslands geti komist á laggirnar og tekið til starfa á næstu tveim árum, að minsta kosti ekki næsta ár. Áætlanir þess eru alt of lágar eftir skipaverði nú. Mér er sagt, að eftir því sem verð er á skipum nú veiti ekki af 5–600 þús. kr. kapítali til að geta fengið bygð 2 skip af þeirri stærð og sniði, sem hér er til ætlað, þó að skipasmíðaverkstæði veiti lán og taki veð í skipunum fyrir því sem til vantar. En í próspectus eru að eins 340 þús. kr. áætlaðar til þess. Og enn eru ekki komnar inn nema 300 þús. kr. í peningum og loforðum um hlutabréfakaup. Það á því nokkuð langt í land, að þetta félag taki til starfa. Þess vegna er nauðsynlegt að gera einhverjar bráðabirgðaráðstafanir.

Eg vil leyfa mér að vekja athygli háttv. deildar á því, að hvenær sem strandferðirnar komast í hendur annara en þeirra, sem einnig halda uppi millilandaferðunum, eykst kostnaður við vöruflutninga til hafna út um land að miklum mun. Þá bætist við sérstakur flutningskostnaður frá staðnum, sem milliferðaskipið kemur til og varan er flutt til og til afhendingarstaðsins. Það er búið að koma mönnum upp á það, að borga sömu farmgjöld til allra hafna, nema hvað nú bætist við dálítill umhleðslukoatnaður til smáhafnanna. Ef enn bætist þar við fragt, þá kvartar einhver. Það er því bráðnauðsynlegt að millilandaferðir og strandferðir séu á sömu höndina ef unt er. Þegar sami aðilinn annast um hvottveggja, má semja svo um, að hækkunin verði ekki meiri en umhleðslugjaldinu nemur. Tæki landið sjálft að sér strandferðirnar einar, en annað félag eða félög hafi millilandaferðirnar, þá bætist því talsverður kostnaður á flutning útlendu vörunnar til smáhafnanna, því ekki getur landið tekið að sér flutninginn endurgjaldalaust; hvort sem það kaupir skip, eða leigir. Þegar því um þessa bráðabirgðaráðstöfun að ræða, væri það óefað hentugast, ef hægt væri, að fá sama félagið, sem flytur mestar vörurnar til landsins, til þess að flytja þær einnig áfram milli hafna á landinu. Þetta næðist ef hægt væri að fá Sameinaða gufuskipafélagið til þess að halda áfram strandferðum eins og nú, þangað til Eimskipafélag Íslands getur tekið við, og alt ætti að stefna að því, að Eimskipafélagið ætti að geta tekist hvorttveggja á hendur, bæði strandferðir og millilandaferðir.

Eg hefi skýrt háttv. nefnd frá því, að eg hefi gert miklar tilraunir til þess að geta fengið tilboð um strandferðir úr fleiri en einni átt. Það er nú komið tilboð frá Björgvinjarfélaginu, en það felur ekki í sér eiginlegar strandferðir í sama stíl og þær eru nú. Það er nefnilega ómögulegt að fá nokkurt utanríkisfélag til þess að takast slíkar strandferðir á hendur. Tilboð þessa félags gengur út á það, að það býðst til að halda uppi ferðum milli Noregs og Íslands 14. hvern dag, þannig að skipin fari í hverri ferð kringum land — komi í annari ferðinni sunnan um land, en fari vestur og norður um land. í hinni og vice versa — og komi við á mörgum stærri höfnum. Fyrir stærri viðkomustaði er þetta auðvitað ágætt fyrirkomulag, en þá verður að finna einhver önnur ráð viðvíkjandi þeim minni. Mér hefir hugkvæmst að fullnægja mætti þörfinni annaðhvort með því að láta eitt lítið flutningaskip þræða smáhafnirnar eða þá með litlum fjarðabátum, sem höguðu ferðum sínum eftir ferðum millilandaskipanna. Hefi eg í því skyni útvegað og sýnt nefndinni teikningar af bátum, sem gætu verið nothæfir til þessa, gerðir eftir fyrirmyndum frá Noregi. Norðmenn eru smátt og smátt að hverfa frá því að láta stór strandferðaskip fara inn á hvern vog og vík, heldur haga þeir strandferðunum svo, að þeir hafa fjarðarbáta með mótorvélum í sambandi við aðalskipin, sem flytja vörur og fólk inn á smáhafnirnar. Og þetta hefir reynst vel. Eg áleit því rétt að gefa þinginu kost á að athuga þetta, ef ske kynni að það vildi sinna því að einhverju leyti. Svo mikið er víst, að fyrir Suðurland gæti slikir bátar komið að fullum notum, þegar sími er kominn til Víkur og Hornafjarðar. Einn flóabátur gæti haft stöð í Vestmannaeyjum og flutt þaðan fólk og vörur til hafnanna á Suðurlandi, þegar veður og brim leyfði. En það gætu menn alt af vitað um í símanum. Á sama hátt mætti hafa bát á Djúpsvogi fyrir Austur-Skaftafellssýslu. Sá bátur, sem teikningin er gerð af, er ætlast til að hafi 40 hesta »mótor«, eyði 10 kilogr. af hráolíu á kl.st., fari 8 kilometra á klukkustund, kosti úr stáli 26 þús. kr., hafi lestarrúm fyrir 15 tons, sem auðvitað má stækka með því að minka farþegapláss, sem ætlast er til að taki 70 farþega með Þilfarsplássi. Mér skilst sem nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu, að slíkur bátur gæti ekki orðið nothæfur, nema fyrir Suðurlandi, en fyrir Austur- og Vesturlandi ætlist hún til að gangi tvö stærri strandferðaskip, eins og nú er. Undir öllum kringumstæðum virðist hún vilja að slíku fyrirkomulagi sé haldið 1914 og '15.

Eg get fullyrt það, að slík skip til strandferða er hvergi hægt að fá nú, nema hjá »Sameinaða gufaskipafélaginu« og er það þó torsótt. Þegar fjárlagafrumvarpið var prentað, hafði stjórnin ekki fengið neinn ádrátt um það enn. Þegar eg átti tal við forstjóra félagsins í Maímánuði, vildi hann ekki lofa neinu um að endurnýja samninginn um »Skálholt« og »Hóla«. Og þegar eg kom til Hafnar í vor, var það fyrst í skilyrðum haft, að félagið fengi uppbót á kolatollinum, einnig fyrir strandferðaskipin. Þó leyfði hann mér — áður en eg fór heim — að lýsa því yfir, að félagið mundi ganga að því að endurnýja samninginn um 2 ár án þess skilyrðis, ef ekki byðist betra. Þessu vildi eg skýra háttv. þm. frá.