15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í C-deild Alþingistíðinda. (936)

108. mál, strandferðir

Framsögumaður (Valtýr Guðmundsson):

Það er rétt, sem hæstv. ráðherra tók fram, að ef strandferðirnar komast á aðrar hendur en þær, sem líka annast millilandaferðirnar, þá hefir það í för með sér talsverðan aukakostnað, sem nemur fragtinni á vörum frá þeim stað, sem skipið kemur við á, til afhendingarstaðsins, sem skipið kemur ekki við á. Það er gefið, að jafnvel þótt landssjóður tæki að sér strandferðferðirnar, þá gæti hann ekki flutt þessar vörur endurgjaldslaust. En þess ber að gæta, að eins og nú er, þá fer talsverður aukakostnaður líka í umhleðslugjöld. Enn ber að líta á það, hvort sanngjarnt sé, að landssjóður borgi ferðirnar til þessara smáhafna, sem flytja þarf vörur til. Auðvitað væri það æskilegast að allir ættu við sömu kjör að búa — en það er nú svo, að þeir, sem lifa á fjarlægari stöðum verða að gjalda þess í mörgu. Það er t. d. munur til aðdrátta til búsins fyrir mann, sem býr upp til dala og þann sem býr við sjó. Kolin eru orðin nokkuð dýrari fyrir sveitamanninn, þegar hann er búinn að flytja þau heim til sín, en þann sem býr í sjóþorpi og fær þau beina leið. Og þó hefi eg ekki heyrt neinn ætlast til þess, að landssjóður borgaði þennan mismun.

Þetta vakti fyrir nefndinni sem það »primæra« að Eimskipafélagið tæki hvortveggju ferðirnar að sér. Hitt var að eias »secundært«, að lánaðist það ekki og gæti ráðherra ekki útvegað heppilegar strandferðir, þá væri lagt út í landssjóðaútgerð og landssjóður greiddi sérstaka borgun fyrir fragt til þessara staða. Eg gleymdi í fyrri ræðu mínni að minnast á tilraunir stjórnarinnar til að ná í samninga um strandferðir. Eins og hæstv. ráðherra skýrði frá, liggur nú fyrir tilboð frá Björgvinjarfélaginu. Þetta tilboð virðist alveg óaðgengilegt eitt sér og það þegar af þeirri ástæðu, sem hæstv. ráðherra gat um á fundi við nefndina, að skipin eiga ekki að koma við annarstaðar í útlöndum en í Noregi. En viðskiftasambönd íslenzkra kaupanna eru að mestu leyti annarstaðar, ganga aðallega í gegn um Kaupmannahöfn og Leith. Ef gengið væri að tilboði þessa félags, ræki að því sama, sem hæstv. ráðherra talaði mikið um viðvíkjandi strandferðum, að borga yrði sérstaka fragt af vörum, sem kæmu með öðrum millilandaskipum til landsins. En tilboðið er gallað að mörgu öðru leyti. Í fyrsta lagi felur það ekki í sér eiginlegar strandferðir, það er að vísu ætlast til að skipin fari kringum land til útlanda og »vice versa«. En þau eiga ekki einu sinni að koma við á jafnmörgum höfnum og þau millilandaskip, sem við nú höfum t.d. við Húnaflóa koma koma millilandaskipin nú Við á 7 stöðum alls. Bergensku skipin áttu alls ekki að koma við á neinum af þessum höfnum. Þó gat hæstv. ráðherra þess, að hann mundi geta fengið þá tilslökun, að þau færu inn á eina höfn við Húnaflóa, en það stendur ekki í tilboðinu. Líka er svo ákveðið víkjandi vetrarferðum, að Norðurland hefir engar skipakomur á vetrum. Á Austurlandi koma skipin um þann tíma árs að eins við á Eskifirði og Seyðisfirði og svo á Suður- og Vesturlandi alt að Ísafirði. En alla leiðina millí Ísafjarðar og Seyðisfjarðar verða því engar samgöngur frá því í Nóvember til Marzloka. Þetta kemur auðvitað ekki strandferðunum við, því að þeim er heldur ekki haldið uppi á vetrum, en hefir þó þýðingu, þar sem millilandaskipin sem ná eru, koma við á þessum stöðum.

Hvað snertir þessar teikningar, sem hæstv. ráðherra hefir útvegað, af mótorbátum, sem hann upphaflega hafði hugsað sér 6, þá kemur það ekki til mála, að þeir séu nothæfir, í stað strandferða, nema þá kannske fyrir Suðurlandi. Ef til vill væri hugsanlegt, að þá mætti nota til þess að koma lagi á flóabátana og fækka viðkomustöðum inna stærri skipa. Flóabáta höfum við nú á Faxaflóa, Breiðaflóa, Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði.

En þessir vélbátar eru svo lagaðir, að þeir eiga ekki við hjá okkur. Það or vafasamt, að þeir þoli sjóinn við strendur Íslands, og áreiðanlegt er, að lestarrúmið, sem gert er ráð fyrir, verður að stækka. 7 tonna lestarúm er alt of lítið. Jörundur, flóabáturinn á Eyjafirði, hefir 30 tonna lestarúm, og jafnvel það er of litið. Aftur á móti virðist ekki nauðsynlegt að hafa farþegarúmið svona stórt, fyrir 70 farþega. En líklega er nú svo ráð fyrir gert, að meiri hluti þeirra verði á þilfari. Það getur verið, eins og eg hefi sagt, að slíkur bátur ætti við fyrir Suðurlandi, en þó því að eins, að höfn sé komin í Vestmannaeyjum. Að öðrum kosti yrði ekki tiltök á að nota minni bát en Ingólf, sem kostaði 70. þús. kr., og er þó spursmál, hvort hann dygði. Alt annað mál væri, ef höfn væri komin í Vestmannaeyjum. Þá væri hægt að hafa þar aðalstöð og fregna í símanum, hvenær sjór væri góður á viðkomustöðunum fyrir Suðurlandi.

Viðvíkjandi þeirri athugasemd, að ekki sé hægt að fá strandferðir, nema hjá því »Sameinaða«, þá er mér ekki kunnugt um, hvað reynt hefir verið í því efni. Það þyrfti hæstv. ráðherra því að gefa upplýsingar um. En það eru til bæði önnur skip og félög, sem reyna mætti við, áður en hægt væri að segja, að ómögulegt væri að komast að einhverjum samningum annarstaðar.

Það kom berlega fram í nefndinni mjög mikill andblástur gegn því, að eiga nokkurn skapaðan hlut við Sameinað gufuskipafélagið framar. Menn þykjast hafa fengið sig fullsadda af því að eiga við þetta félag, og vilja gera alt til að losna við það. Og það eru ekkí einungis Íslendingar, sem sjá þetta, að það er okkur til hnekkis að vera bundnir við Sameinaða gufuskipafélagið.

Eg átti nýlega tal við merkan danskan mann, sem nú er hér staddur, prófessor Lorentzen, og sagði hann, að það væri lífsspursmál fyrir okkur að losna við samgöngueinokun þessa félags. Þetta er danskur maður, sem þannig talar, en hann litur óvilhalt á málið. Annars er nógur tími til að tala um þetta spursmál, því að nefndirnar hafa ekki tekið það til nægilegrar athugunar enn þá.