15.08.1913
Neðri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í C-deild Alþingistíðinda. (939)

108. mál, strandferðir

Frams.m. (Valtýr Guðmundsson):

Það eru að eins fáeinar athugasemdir við ræðu hæstv. ráðherra. Hann talaði um, að norsku ferðirnar ættu ekki að vera millilandaferðir og það hefði því enga þýðingu, þó þau hefðu ekki viðkomustaði erlendis, nema í Noregi, en það hefði þó þýðingu fyrir aukafragtirnar. Hann vildi halda því fram, að það væri ómögulegt að forðast aukafragtirnar, nema með því að semja við Sameinaða gufuskipafélagið. Eg er honum ekki sammála um það, því að það er líka hægt ef Eimskipa félag Íslands tekur að sér ferðirnar. Þegar eg sagði, að landssjóður græddi á aukaferðunum, þá meinti eg, að það hlyti að bætast við tekjumegin liður, sem alls ekki er til í áætlun okkar í nefndarálitinu. Svo vitnaði hæstv. ráðherra í skýrslu Hendriksens. Eg skal nú ekki fara mikið út í þessar skýrslur fyrverandi og núverandi forstjóra Thorefélagains, hvor þeirra sé réttari. Þeim ber ekki saman. Fyrir Tuliniusi getur ekki verið um neina hagsmuni að ræða. En öðru máli er að skifta um Hendriksen. Hann hefir verið þjónn Sameinaða gufuskipafélagsins og er því hliðhollur, og sumt í skýrslu hans er beint til að villa. Það er t. d. auðsjáanlega villandi í skýrslu hans, að skipin Austri, Vestri og Perwie er reiknuð á 500,000 kr. Svo reiknar hann vexti og fyrningargjald 50–55,000 kr. á ári, en það er mjög óréttlátt, því að það ber ekki að reikna nema fyrir þann tíma, sem skipin voru í strandferðum. Og það sér hver maður, að það er rangt reiknað, að skipin hafi kostað 500,000 kr., því að við vitum, hvað bygging Austra og Vestra kostaði, og það er ómönulegt að reikna Perwie nema 40–50,000 kr. Hann segir að þetta sé »bogført Værdi«, en það hlýtur að vera rangi samt, þó svo hafi verið bókfært, og er auðsjáanlega gert til að villa. Við vitum vel, að Perwie er mjög lélegt skip og getur ekki hafa kostað meira en þetta, og Austri og Vestri vitum við að kostuðu, er þeir voru bygðir, 170,000 kr. hvor. Það voru að eins þessar athugasemdir sem eg vildi gera.