16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í C-deild Alþingistíðinda. (959)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

Eg get tekið undir með háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.), að þakka fjárlaganefndinni fyrir að hækka fjárframlagið til eftirlits með fiskiveiðum í landhelgi. Þegar stjórnin samdi fjárlagafrumvarpið, vissi hún ekki hve mikið gagn hafði leitt af þessum landhelgisvörnum; hefði hún vitað það, er eg viss um að hún hefði veitt ríflegri styrk, kannske enn þá ríflegri en fjárlaganefndin hefir lagt til. Nefndin hefir haft fyrir reglu, að vera varfærin í fjárkröfum sínum. Hún þykist líka hafa verið það þrátt fyrir tillöguna á þgskj. 371, þegar tekið er tillit til þess, hve lengi sjávarútvegsmenn hafa þagað. Nú eru menn búnir að fá vissu fyrir, að koma muni fjárbeiðnir úr fleiri áttum til að hafa eftirlit með fiskveiðum í landhelgi. Mér er kunnugt um, að slíkar kröfur munu koma af ýmsum stóðum á Vestfjörðum. Þar hefir víða orðið mikill skaði af atferli útlendra botnvörpunga. Það er t. d. sannreynt, að Arnarfjörður, sem var áður einn af fiskisælustu fjörðum á landinu, hefir verið gereyðilagður af útlendingum, sem hafa sópað burt fiskinum og veiðarfærum manna, svo menn hafa ekki einu sinni þorað að leggja veíðarfæri sín í sjó.

Bátarnir, sem hér er um að ræða, hafa að vísu ekki lögregluvald, en það er staðreynt, að botnvörpungarnir hafa beyg af þeim. Þeir forðast að koma inn fyrir landhelgina, þegar þessir bátar eru á sveimi. Þeir hafa meira að segja stundum þann sið, að breiða yfir nafn sitt og númer til þess að þeir þekkist ekki. Sýnir það bezt, hvílíkur ótti þeim stafar af bátunum. Mér sýnist ekki rétt að telja tekjurnar, sem af þessum vörnum kynni að leiða, til tekna landssjóðs. En hvort sem það er gert eða ekki, heyra þær undir tekjur landsmanna.

Þessi upphæð er svo lítilfjörleg, þegar tekið er tillit til, hve mikið gagn getur af þeim leitt, að þrátt fyrir bágborinn hag landssjóðs mun eg greiða atkvæði með henni.