16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í C-deild Alþingistíðinda. (969)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg þarf í rauninni ekki að svara fleiru en þegar er gert þeim háttv. þm., sem talað hafa fyrir þeim 2 breyt.till., sem fram eru komnar frá einstökum þingmönnum, enda munu menn ráðnir í því, hvernig þeir greiða atkv.

Virtust þeir vera í mótsögn hvor við annan, háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) og háttv. þm. Sfjk. (V. G.). Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) Sagði, að ekki væri von að menn vildu leggja á sig aukin útgjöld til þess að prófa varnir úr landi. En háttv. þm. Sfjk. (V. G.) sagði, að það, sem landssjóður legði fram í þessu skyni, endurgyldist við vaxandi afla. Eg held nú, að þar sem tekjur landssjóðs eru að eina 10 aurar af hverjum 100 pundum af saltfiski, að þá þurfi aflinn að vaxa við þessar varnir býsna mikið til þess að það fé borgist landssjóði aftur, sem hann leggur í þetta. Og ef aflinn veg svo mikið, þá standa þau svæði, sem varnanna njóta, enn betur við kostnaðinn, þótt þau hefði hann allan meira að segja. En hvorugur mun hafa alveg rétt fyrir sér, og nefndin lítur svo á, að þetta mál sé ekki nægilega undirbúið.

Háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) fann að því, að nefndin leggur til að hækka laun holdsveikra-læknisins. Nefndinni er það ekkert kappsmál, en heldur þó fast við tillöguna, af því að hún álitur hækkunina sanngjarna.. Mér skildist á sama háttv. þm. að honum þætti óheppileg sú stefna fjárlaganefndarinnar að hækka á fjárlögunum laun embættismanna. Eg get ekki fallist á að sú stefna sé óheppileg, ef hægt er að sanna, að hún sé sanngjörn. Hér er að ræða um mann, sem lengi hefir haft þetta starf á höndum. Þessi maður hefir í rauninni lægri laun en honum voru ætluð í fyrstu. Honum var ætlaður ókeypis bústaður í Spítalanum, en af atvikum gat hann ekki búið þar, enda er íbúðin alveg ófullnægjandi fyrir spítalalækni, það verð eg að votta. Því hefir læknirinn orðið að setjast að hér, enda hefir hann og kenslu á hendi við háskólann. Enginn vafi er á, að hann hefir borið verra úr býtum við það að binda sig við holdsveikraspítalann, heldur en ef hann hefði haldið áfram sinni fyrri braut. Hann mundi vafalaust hafa náð miklu áliti við lækningar alment og mundi vera kominn í betri stöðu en hann nú hefir. Þessar ástæður þykja nefndinni mæla með launahækuninni.