16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í C-deild Alþingistíðinda. (982)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Tryggvi Bjarnason:

Eg á ofurlitla breyt.till. á þgskj. 415 um fjárveitinga til viðbótar Hvammstangaveginum. Við þm. Húnv. skrifuðum fjárlaganefnd og fórum fram á talsvert meiri upphæð, en hér er nefnd. En nefndin sá sér ekki fært að ganga að því, af því að ekki er vant að veita styrk til sýsluvega yfirleitt. En henni mun ekki hafa verið ljóst, sem þó hefði mátt vera, að þetta er bara endurveiting, því að það stendur í núgildandi fjárlögum 2000 kr. til þessa vegar, þótt það hafi eigi verið notað enn þá af vissum ástæðum, og þess vegna er það tekið hér upp aftur. Það vantar enn mikið á að þessi vegur sé fullgerður. Annar vegar eru eftir 2 kílometrar til þess að hann nái austur á þjóðveginn, og til þessa spotta þarf 4000 kr. En svo eru þar að auk eftir 6 kilom. að vestanverðu til Hvammstanga, sem eru hrein vegleysa, og til þeirra þyrfti 12 þús. kr. eftir áætlun landsverkfræðings Jóns Þorlákssonar.

Þetta sem hér er farið fram á, er að eins til þess að bæta úr brýnustu þörf. Eg vonast eftir að undirtektir verði góðar ag fjárveitingin sem veitt var 1911, endurtekin.