16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í C-deild Alþingistíðinda. (984)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónson:

Mitt nafn er á 4 breyt.till. Eina þeirra hefi eg tekið aftur og um tvær hefir verið talað allrækilega, svo að eg get verið stuttorður. Samt ætla eg að gera grein fyrir, hvers vegna eg tók aftur breyt.till. á þgskj. 447. Hún var við liðinn um persónulega launaviðbót við landsverkfræðinginn, að hann félli burtu. En þar sem það var sérstakur liður í breyt.till. fjárlaganefndarinnar, sem hægt var að greiða atkvæði um, samþykkja eða fella sérstaklega, þá var breyt.till. óþörf og þess vegna tók eg hana aftur.

Það greip mig svo, að persónuleg launaviðbót til þessa manns væri óþörf. Í fjárlagafrumv. stjórnarinnar eru laun hans hækkuð úr 3000 upp í 4000 kr. Nefndin leggur til, að af þessari upphæð verði 3600 kr. skoðað sem landsverkfræðingslaun, en 400 kr. sem persónuleg launaviðbót. Eg hygg, að hann sé fullsæmdur af 3600 kr. launum, jafnvel þó að eg viðurkenni, að hann sé mjög vel starfinu vaxinn og hafi auk þess mikið verk með höndum. Svo hefir mér skilist, að hann bæri meira úr býtum en þessi laun, því að á fjárlögunum situr 500 kr. upphæð honum til ferðakostnaðar, og auk þess hefir mér dottið í hug, að ýmsir aðrir liðir væru honum heldur til tekna, svo sem sjá má á fjárlögunum.

Í sambandi við ferðakostnaðinn skal eg minna á breyt.till., sem eg ásamt öðrum hefi borið fram á þgskj. 446, um að ferðakostnaður og fæðispeningar landsverkfræðingsins og landsímastjórans skuli vera eftir reikningi alt að inni tilteknu upphæð. Þetta er ið sama og t.d. fræðslumálastjóranum o.fl. er gert að skyldu, og getur ekki verið viðkomandi mönnum neinn bagi, en það er tryggilegra fyrir landssjóðinn.

Að eg held minni skoðun fram á þennan hátt gagnvart landaverkfræðingnum, kemur af því, að mér er illa við að laun embættismanna séu hækkuð til muna eins og á stendur.

Það lítur annars út fyrir, að háttv. deild sé að bregða á leik, þar sem hún fyrir nokkrum dögum hefir felt mörg launahækkunarfrumvörp, en nú er hún aftur farin að eyða dögum í það, að í strekkja við að samþykkja það aftur, sem hún hefir áður felt. Það er erfitt að skilja framkomu sumra manna í þessu falli, nema ef vera skyldi löngun til þess, að sitja hér sem flesta daga á kostnað landsins.

Háttv. samþingismaður minn (E. P.) hefir talað svo rækilega fyrir brúnni á Eystri-Rangá, að eg þarf ekki að eyða orðum að því.

Það er að eina eitt atriði viðvíkjandi háttv. 1. þm. Eyf. (St. St ). sem eg vildi athuga. Háttv. fjárlaganefnd leggur til, að fé það sem í fjárlagafrumv.stjórnarinnar er ætlað til brúar á Eyjafjarðará, gangi til brúar á Jökulsá á Sólheimasandi. Hæstv. ráðherra og háttv. 1. þm. Eyf (St. St. ) halda því fram, að þetta sé svo mikið áhættuspil, að ekki sé leggjandi út í það. Eg hygg, að eg muni oftar hafa farið yfir ána heldur en nokkur annar viðstaddur og sé því kunnugastur manna hér í deildinni, hvernig Jökulsá hagar sér, og tel eg mig þess vegna hafa rétt til að lýsa skoðun minni á þessu máli. Það er langt frá því að eg telji þetta nokkurt áhættuspil, svo framarlega sem fé er fyrir hendi til þess. Eg skal með ljósu dæmi sýna, hvað eg hefi fyrir mér í þessu efni. Áin hefir legið í sama farveg svo lengi sem elztu menn muna. Tveir stórir ateinar, nefndir Stórusteinar, sitja við ána, einmitt þar sem brúin á að koma, og munu þeir jafnvel vera ætlaðir brúnni til styrktar. Þetta eru engin stórbjörg, á að gizka 4 álnir á hæð og jafnmargir faðmar ummáls. En þessir steinar hafa setið höggunarlausir og ekki farið úr skorðum svo langt sem menn vita. Ef þessir steinar væru hafðir undir brúna, þá væru þeir þess vegna tryggilegir, og sama gilti um steypta stöpla, sem væru vel grafnir niður og vandað til á allan hátt. Það er því fjarstæða hjá háttv. 1. þm. Eyf. að halda, að áin muni spyrna brúnni af sér. (Stefán Stefánsson: Það eru orð Verkfræðingsins). Þá skil eg ekki orð verkfræðingsins, því að hann hefir gefið í skyn, að ekki væri líklegt að brúin reyndist ótrygg. Um hitt skal eg ekki dæma, hvort sanngjarnt er að taka féð frá brúnni á Eyjafjarðará til þess að byggja brú á Jökulsá. En það er engin ástæða til að óttast, að Jökulsá spyrni brúnni út á sjó, þó að hlaup komi í hana. Eg hugsa að við lifum okkar ævi til lykta, okkar synir og þeirra synir áður en það kemur fyrir, þó að hlaupin séu ljót, því er sízt að neita.

Það var enn fremur fjarstæða, sem háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sagði, að Jökulsá væri aldrei ófær nema stutta stund í einu. Er þar skemst á að minnast, að í haust sem leið teptust fjárrekstrar við hana í 7–8 daga, og var þó vitanlega að eina rigningatíð, en ekkert hlaup. Eg er auðvitað ekki kunnugur öllum vatnsföllum hér á landi, en þó hefi eg oft farið yfir mörg og vond vötn og hefi eg þó aldrei séð eina agalegt vatnsfall og Jökulsá á Sólheimasandi, enda er það því til sönnunar, að það vatn hefir drepið langflesta menn af öllum vötnum hér á landi.

Þessar upplýsingar, sem eg hefi nú gefið um Jökulsá á Sólheimasandi, eru það sannasta, sem eg veit. Vildi eg þess vegna að háttv. þingmenn veittu þeim athygli.

Eins og eg tók fram, ætla eg ekki að ræða um brúna á Eystri-Rangá. Og get eg að eins tekið undir með háttv. samþingismanni mínum (E. P.), að okkur var það óljúft verk að þurfa að fara fram á þessa fjárveitingu svona fljótt. En þörfin var svo brýn, að hjá því varð ekki komist, vegna þess að áin breyttist svo snögglega að ófær varð.

Vona eg svo að háttv. þingmenn taki þeirri og öðrum tillögum mínum svo vel sem þeir sjá sér frekast fært.