18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í C-deild Alþingistíðinda. (995)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

Eg vildi leyfa mér að fara nokkrum orðum um br.till. mínar á þgskj. 366. Þar er fyrst farið fram á að tillög til ungmennaskóla sé lækkuð úr 8000 kr. niður í 7000 kr. Og jafnframt er farið fram að til ungmennaskólans á Núpi í Dýrafirði sé veittur 1200 kr. styrkur hvort árið, og auk þess 20 kr. fyrir hvern nemanda, sem á skólanum er minst 5 mánaða tíma á ári, alt að 400 kr. Þessi breyting mundi því að eins baka landssjóði í hæsta lagi 600 kr. útgjaldaauka. Skóli þessi fékk síðastliðið ár 1000 kr. styrk úr landssjóði af fé, því sem ætlað var til ungmennaskóla, og mundi því mega búast við því að hann fengi eitthvað líkt af þeirri upphæð, sem nú er í fjárlagafrumvarpinu ætlað til ungmennafræðslu.

Skýrslu um þennan skóla fyrir síðustu árin hefir verið útbýtt hér í deildinni, svo háttv. deildarmönnum er skólinn að nokkru kunnur gegn um skýrslurnar. En eg skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um Skólastofnun þessa, því mér er hún frá byrjun vel kunnug.

Þegar Sigtryggur prestur Guðlaugsson fyrir 9 árum flutti frá Þóroddstöðum í Köldukinn til Mýraþings í Dýrafirði, hóf hann þar þegar ungmennafræðslu, sem var í heldur bágu ástandi. Séra Sigtryggur gekst og fyrir stofnun goodtemplarastúku. og var hann aðalforgöngumaður fyrir því að hún bygði hús á Núpi, þar sem hann ávalt hefir átt heima síðan hann flutti í Mýraþingin.

Þegar fyrsta árið sem hús þetta stóð, leigði séra Sigtryggur það til skólahalds, sumpart fyrir börn og sumpart fyrir ungmenni á 15–20 ára aldri. Einn veturinn var kenslunni þannig fyrir komið, að annar skólinn hafði húsið fyrri hluta dagsins og hinn skólinn síðari hluta dagsina. Nú er þar á Núpi bygður allveglegur barnaskóli, sem hreppur inn á, og á séra Sigtryggur neðra lyfti þess húss og notar það nú fyrir svefnhús handa piltunum, sem eru á ungmennaskólanum. Skömmu eftir að séra Sigtryggur hóf starfsemi sina í Mýrahreppi, kom Björn Guðmundsson, sem nú um nokkur ár hefir verið kennari við ungmennaskólann, frá útlöndum. Hefir hann verið í ýmsum skólum í útlöndum, til dæmis á Askov í Danmörku og skólum í Noregi. Hefir hann framast vel í þeirri för. Hafa þeir séra Sigtryggur og hann nú í nokkur ár kent við ungmennaskólann og barnaskólann þannig, að Björn hefir kent náttúrufræði, teikning og leikfimi í ungmennaskólanum, en séra Sigtryggur hefir kent kristin fræði og reikning í barnaskólanum.

Björn þessi hygg eg að sé einhver með færustu kennurum út um land, og samvinna þessara tveggja manna hefir farið svo vel úr hendi, sem frekast má hugsa sér. Álít eg að skólinn megi án hvorugs þeirra vera, ef vel á að fara. Bætir hvor þeirra það upp, sem hinn skortir.

En nú getur séra Sigtryggur ekki boðið þessum manni þau kjör, sem hann getur unað við. Ungmennakenslan er nú í seinni tíð orðin svo umfangsmikil, að engin tök eru til þess að þessir tveir menn geti sint barnakenslunni ásamt henni, og þarf því að taka alt kaup Bjarnar af tekjum ungmennaskólans, en við því má hann ekki með þeim tekjum, sem hann hefir nú.

Séra Sigtryggur er smám saman að kaupa húseign skólans, og viðbót, sú sem gerð hefir verið við húsið, er eingöngu bygð fyrir hans fé. Má svo heita, að hann verji hverjum eyri af tekjum sínum í þarfir þessa skóla. Hann hefir og komið upp gróðrarreit í sambandi við skólann og er það mikið verk og dýrt, enda er þar nú orðin allblómleg gróðrarstöð. Er það nú orðin alvenja, að hver nemandi gróðursetur þar tré við burtför sína af skólanum, og flest árin vitja þeir þessara nýgræðinga sinna og hlúa að þeim.

Þessi starfsemi séra Sigtryggs er svo vaxin, að hún verðskuldar viðurkenningu, og mér virðist jafnvel, að enginn alþýðuskóli þessa lands þoli samanburð við þennan skóla, þegar á alt er litið, að minsta kosti meðan þessara manna nýtur við, sem nú standa að skólanum. Eg teldi það því illa farið og ómaklegt, ef þingið neitaði honum um styrk, þann er farið er fram á með br.till. minni, jafnsanngjarnleg og hún er.

Eg skal geta þess, að á öllum þingmálafundum í kjördæminn var það einróma ósk allra, að þessi stofnun yrði sett á fastari fót en hún er nú.

Háttv. fjárlaganefnd kvaðst óttast, að ef þessi skóli yrði settur á fastan styrk úr landssjóði, þá muni allir ungmennaskólar landsins fara fram á sama. Eg segi að eins: Gott og vel. Þegar jafnmikið liggur eftir þá og kennara þeirra eins og eftir þennan skóla, þá er sannarlega skylt að styðja þá; en eg býst ekki við að það verði á næstu árum.

Eg fullyrði, að þessi skóli, sem hér er um að ræða, hafi gersamlega umskapað sveitina kringum sig, svo að hún nú eigi stendur að baki neinni sveit í nágrenninu að menningu til. En það er ekki að eins Mýrahreppur, heldur og allir hreppar V.-Ísafj.sýslu, sem notið hafa góðs af þessum skóla. Hefir hann jafnvel verið sóttur úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Skólinn nýtur svo almenns álits hjá héraðsbúum, að á öllum þingmálafundum var farið fram á, að hann yrði tekinn upp á fjárlögin með föstum styrki.

Mér er illa við að fara í matning eða mannjöfnuð, en eg get ekki bundist þess að segja svo mikið, að það sé hart, ef synja á þessu eina kjördæmi um þennan lítilfjörlega styrk til þessa skóla, þar sem þetta er eina fjárbónin, auk lánsins, sem farið er fram á á þgskj. 373, og eg síðar mun minnast á.

Þessi fjárveiting virðist mér því sjálfsagðari, sem það er vitanlegt, að þau héruð, er að skóla þessum standa, eiga erfitt með að útvega ungum mönnum frekari fræðslu en börn fá í barnaskólunum, en sú fræðsla er engan veginn fullnægjandi fyrir lífið. Og er það öllum kunnugt.

Eg hefi leyft mér að æskja þess af hæstv. forseta, að hann viðhafi nafnakall um þessa breyt.till., því eg vil sjá nöfn þeirra manna, svört á hvítu, sem leggja það til, að þessi sanngjarna krafa verði feld. Ef hún yrði feld, væri ekki hægt að líta öðruvísi á, en að V.-Ísafjarðarkjördæmi sé olnbogabarn þingsins, sem ekkert megi fá, þegar önnur kjördæmi fá stórfé.

Eins og menn vita, er nú búið að gera áæltun um höfn á Súgandafirði og er áætlunin innan við 20 þús. kr. Hafði eg hugsað mér að fara fram á að landssjóður veitti þessa upphæð, en þegar eg vissi, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk.Th.) fór fram á fjárframlag til brimbrjóts í Bolungarvík, hætti eg við það.

Annars skal eg ekki orðlengja þetta meira. Vænti þess að hæstv. forseti láti það eftir mér að hafa nafnakall um breyt.till. mína.