18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í C-deild Alþingistíðinda. (998)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Jónsson:

Eg á hér tvær breytingartillögur við 15. gr., sem því miður hafa ekki fundið mikla náð fyrir augum hv. fjárlaganefndar. Eg vildi samt gera frekari grein fyrir þeim, Svo að háttv. þingm. sjái, að eg hafi ekki alveg að óþörfu borið þær fram.

Fyrri breytingartillagan er Við 15. gr. 1. g., að á eftir þeim lið komi nýr liður, um 1500 kr. fjárveitingu hvort árið til að semja Skrá yfir handritasafn Landsbókasafnsins. Fyrir fjárlaganefnd mun hafa legið beiðni um nokkuð hærri styrk í þessu skyni. En hún hefir ekki séð sér fært, að taka hana til greina. Af hvaða ástæðu, veit eg ekki með vissu, en eg hefi heyrt, að það muni hafa verið með fram af því, að beiðnin hafi ekki komið beint frá forstöðumanni Landsbókasafnsins sjálfum. Eg veit, að hann sér þörfina ekki eiður en aðrir, og eg má fullyrða, að hann hefir látið í ljós við mig, hvað eftir annað jafnvel, að fram á þetta þyrfti að fara við stjórnina, og að hann hefir hugsað sér að gera það, hvort sem úr því hefir orðið eða ekki.

Af því að eg er þessu máli sérstaklega kunnugur, vil eg leyfa mér að gera stuttlega grein fyrir, hvernig til hagar. Þetta er sannarlegt nauðsynjamál fyrir Landsbókasafnið og alla þá sem þurfa að nota handritasafnið.

Það er ekki nema hálft gagn af því, að leggja fram ærið fé árlega handa safninu til handritakaupa, án þess að sjá fyrir því um leið, að menn geti átt kost á að vita, hvað safnið á af handritum. En meðan starfakraftar safnsins eru ekki meiri en þeir eru, er ómögulegt að skrásetja handritin nema lauslega, og að eins til bráðabirgða. Safnið á nú yfir 6000 handrit, en skrásetningin á þeim er svo ófullkomin, að menn þurfa oft að verja hálfum og heilum dögum til þess að leita að því, er þeir vilja finna.. Þetta er svo mikill tímaþjófur, að það er nærri frágangssök að nota safnið nema fyrir þá, sem hafa nægan tíma yfir að ráða eða eru því annars vegar nauðakunnugir. Auk þess er skrásetningin svo ónákvæm, að aldrei verður bygt á neinni leit til fulls. Það er aldrei hægt, að leita af sér allan grun, því að margt í handritunum er enn alveg ótalið. Þegar þingið hefir lagt ár eftir ár svo tugum þúsunda skiftir í handritakaup, má ekki minna vera en að eitthvað sé lagt til þess að ganga svo frá, þeim, að þau séu nothæf í safninu. Þau eru þó til þess keypt, að þau geti komið að notum þeim er vilja afla sér fróðleiks um sögu og bókmentir landsins. Það væri líka alveg þýðingarlaust, að hrúga upp handritunum, ef ekki væri séð fyrir því um leið, að hægt væri að nota þau nokkurn veginn greiðlega. Þetta ætti öllum háttv. deildarmönnum að geta skilist. Eg ætla að taka eitt auðskilið dæmi. Í safninu eru mörg skjöl, sem snerta landamerki jarða og annað þar að lútandi. Þessi skjöl geta verið afar áríðandi, ekki sízt ef menn eiga í deilum og málaferlum út af landamerkjum. Eg veit til þess, að á síðari árum hafa margir skrifað hingað, eða komið sjálfir til þess að leita sér upplýsingar um skjöl, er þeir gætu lagt fram í þessum málum. En svo var það, meðan eg var við safnið, að þó að við hefðum allan vilja á að greiða fyrir þessum mönnum, þá var ómögulegt að komast að því með fullri vissu, hvort það var til eða ekki, sem þeir leituðu að, jafnvel þó að við gerðum okkur mikið far um að leita sjálfir.

Það sér hver maður, að skrásetningunni er mikið ábótavant, á meðan svo er ástatt. Eg vona þess vegna, að háttv. deild líti svo á, að þetta sé ekki þýðingarlausa fjárbeiðni, jafnvel þó að svo fari, að hún sjái sér ekki fært, að verða við henni.

Þá er breytingartillaga mín við 15. gr. 13, á þgskj. 396, um aukinn styrk til Alþingisbókanna, ekki ófyrirsynju fram borin. Þingið tók upp hjá sjálfu sér að styrkja þetta verk, sem hefir að geyma svo merkileg gögn og þinginu svo náskyld, að eg sé ekki betur, en að það, sóma síns vegna, sé skyldugt til að leggja ríflega af mörkum til þess. Eg vona, að eg taki ekki of djúpt í árinni þó að eg segi, að engin þjóð í heiminum eigi samskonar ritasafn. Það vita allir, að ekki er langt þangað til að Alþingi hefir staðið í 1000 ár, þó að hlé hafi á orðið um einn tíma. Það vantar að vísu talsvert á, að við eigum menjar allra þeirra þinga, sem haldin hafa verið, en við eigum þó svo mikið, að þar kemst engin þjóð í heiminum til jafns við okkur. Þó að ekki væi nema vegna sóma síns sjálfs, að þingið vildi styrkja þetta, þá væri það næg ástæða til þess, að leggja ríflegar að mörkum en gert hefir verið, með því að verkið gengur mjög seint nú. Ef þessu verki yrði lokið fyrir þann tíma er Alþingi hefir staðið í 1000 ár, þá yrði það sá menjagripur, sem yrði þjóðinni til virkilegs sóma og Alþingi sjálfu um leið, því að það hefir einmitt verið Alþingi, sem oftast hefir barist í bökkum, og unnið það sér til ágætis, að vernda þetta sjálfstæði, sem við höfum. — Eg get ómögulega kannast við, að það hafi verið réttmæt aðfinsla, sem hv. framsm. fjárlaganefndarinnar (P. J.) hreyfði, að meira væri tekið upp í þetta safn, en góðu hófi gegndi. Ef menn treysta sér ekki til, að gera það svo fullkomið sem frekast eru föng á, þá er betra að láta það tigert. Það er verk, sem ekki má káka við. Eg skal geta þess, að þeir sem um verkið fjalla eru vafalaust inir færustu menn, sem vér eigum á að skipa í þessari grein. Svo menn haldi ekki, að það sé í hagsmunaskyni fyrir þá, að fram á þetta er farið, skal eg taka það fram, að þeir fá blátt áfram hlægilega lítið fyrir vinnu sína. Aðalkostnaðurinn liggur í því, að til verkeins er svo vandað, að varla eru dæmi til slíks um aðrar bækur hér á landi, og það er gert með það fyrir augum, að Alþingi megi verða sem mestur sómi að útgáfunni. Þó að menn gætu ekki sint þessu frekar en svo, að varatillagan yrði samþykt, þá væri talsvert unnið við það, og verkið gæti þá gengið betur en hingað til.

Úr því að eg tók til máls á annað borð, ætla eg að víkja nokkrum orðum að viðaukatillögunni á þgskj. 400, um styrkveitingar til listamannanna Reynis Gíslasonar og bræðranna Eggerts og Þórarins Guðmundssona. Þessir menn, sem farið er fram á að styrkja ofurlítið til fullnaðarnáms í list sinni, eru allir mjög efnilegir — efni í snillinga, liggur mér við að segja. Við höfum átt kost á, að heyra til bræðranna og eg hygg, að engum, sem ofurlítið skynbragð ber á þá list, geti blandast hugur um, að þeirra tilþrifa hafi orðið vart, sem gefa jafnvel mjög miklar vonir um framtíðina. því miður kennir alt of oft þess hljóms, að fagrar listir og bókmentir vegi ekki þungt á metunum hjá þjóð og þingi. Eg verð að leyfa mér að efast um, að almenningur hafi gert sér fulla grein fyrir þessu, og eg er hræddur um, að það sé ekki annað en vanahjal, sem búið er að hjala svo oft í eyru þjóðarinnar, af mörgum þeim sem lítið skynbragð bera á þessa hluti, að þorri manna sé farinn að trúa því, og hjala það eftir hugsunarlaust. Svo mikinn unað og andlega auðlegð hafa skáld og rithöfundar veitt íslenzku þjóðinni, að það verður ekki metið til peninga. Þeim sem þekkja, hvernig högum flestra íslenzkra rithöfunda er háttað, er kunnugt, að þeir geta fæstir unnið að ritstörfum nema þeir séu styrktir til þess. Ritlaun eru hér svo lág, eina og eðlilegt er í fámenninu, að enginn getur á ritstörfum lifað. Eg veit ekki, hvað mikinn tíma skáld þurfa til sinna starfa, en eg get sagt frá því til gamans, að til eins ritsins, sem eg gaf út, varði eg tveimur árum, og 250 kr. fékk eg í ritlaun fyrir það. Og þó að þetta nái ekki til allra rithöfunda hér á landi, þá er óhætt að segja, að ritlaun eru hér yfirleitt mjög lág. Það sannar ekki, að ritin, sem um er að ræða, geti ekki verið fult eins mikils virði og þau rit, sem borguð eru með þúsundum og jafnvel tugum þúsunda í öðrum löndum. Hér er alt öðru máli að gegna. Alveg eins er því háttað um listamennina, hverju nafni sem þeir nefnast. Það verður, að minsta kosti, að létta undir með þeim meðan þeir eru að fullnuma sig, mýkja brautina fyrir þeim, meðan þeir eru að byrja, hún verður fyrir þeim flestum nógu þyrnum stráð fyrir því. Það er oft talað um, að nauðsynlegt sé að gera Ísland kunnugt útlendingum. Eg skal sízt mæla á móti því. En má eg spyrja, er þetta ekki bezti vegurinn, að styrkja unga og efnilega menn, í því skyni, að þeir fái getið sér og þjóð sinni frægð ? Stórveldi verðum við aldrei í ytra skilningi. En eg fyrir mitt leyti hugsa svo hátt og finst ekkert á móti því, að við getum með tímanum orðið stórveldi í andlegum skilningi. Það þarf ekki að fara saman að hafa tugum bryndreka og tugum ágætra ríthöfunda á að skipa. Eg veit með fullri vissu, að margur skinandi gimsteinn gáfna og andlegs atgervis er falinn með þjóð vorri, og það svo, að fæsta grunar. Það er margur frjóangi að grafa um sig í djúpinu, sem upp getur vagið og orðið að fögrum meiði, ef ekki er alt kæft með skammsýni og smásálarskap. Hver var það sem fyrst vakti eftirtekt á frændþjóð vorri Norðmönnum? Það var fiðlusnillingurinn Óli Bull. Og hverjir voru það sem skipuðu Norðmönnum sæti með fremstu menningarþjóðum heimsins? Það voru skáldsnillingarnir Henrik Ibsen og Björnstjerne Björnson. Eg er fullviss um, að við Íslendingar eigum eftir að sýna heiminum ekki síðri snillinga en þeir voru Óli Bull, Ibsen og Björnson, þó að þessir menn, sem hér er um að ræða og nú eru uppi, verði það ef til vill ekki. Eg aðhyllist skoðun háttv. fjárlananefndar, að réttast væri að stjórninni væri fengin ákveðin fjárupphæð til þess, að styrkja skáld og listamenn. Það er illa til fallið að karpa hér um það ár eftir ár, hverjum eigi að veita styrk og hverjum ekki og meta það til verðlauna, sem mörgum hér er ofvaxið að meta. Það er leiðinlegt að þurfa að vera að metast um það, hvort þessi eða hinn eigi að fá 200 kr. meira eða minna. Eg get þess vegna felt mig við að fjárveitingin til skáldanna sé bundin við fyrra árið, því að eg hygg, að það geti orðið til þess að Stjórnin fái á næstu fjárlögum ákveðna upphæð í hendur, sem hún svo úthlutar í samráði við þá menn, sem til þess eru hæfastir að leiðbeina henni í þeim efnum.

Er skal svo ekki fara frekari orðum um málið. Eg greiði atkvæði með því, að skáldin Þorsteinn Erlingsson og Einar Hjörleifsson fái sínar 2400 kr. hvor fyrra árið, hvað sem aðrir gera.

Að nóni gaf forseti fundarhlé, með því að umr. var enn eigi lokið, til kl. 5 síðdegis; var þá fundur settur á ný og umræðum haldið áfram.