15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

43. mál, landsdómur

Guðmundur Eggerz:

Á þessu stigi málsins skal eg að eina leyfa mér að minnast á eina meginreglu í frumvarpinu, sem eg felli mig ekki við.

Þennan dóm, sem frumv. gerir ráð fyrir, skipa 29 menn, þar af 9 sjálfkjörnir, en 20 kjörnir af alþingi, 13 af neðri deild en 7 af efri deild.

Það, að alþingi kýs þannig mikinn meiri hluta dómendanna, gerir það að verkum, að í raun og veru verða alþingismenn dómararnir, en þeir eru ekki einungis dómarar, heldur líka ákærendur. Frumvarpið ber það sem sagt með sér, að þingið ákærir ráðherra, skipar sóknara og tilgreinir kæruatriðin. Þetta felli eg mig ekki við. Vér skulum hugsa oss, að eitthvert atriði sé, sem alþingi vilji kæra ráðherra fyrir; það mundi vissulega ekki taka aðra menn í dóminn en þá, sem það vissi, að hefði sömu skoðun og það á málinu, menn, sem ef til vill væri gallharðari flokksmenn en alþingismennirnir sem kysi þá. (Bjarni Jónsson: Dómendurnir eru kosnir til margra ára). Já, þeir eru kosnir til 6 ára, en sú breyting er alls ekki til batnaðar.

Eg skal leyfa mér að benda á, að í öðrum löndum forðast menn, að ákæruvaldið og dómsvaldið sé í sömu höndum. Í Prússlandi, Hollandi og Belgíu er dómsvaldið hjá hæstarétti. Í Frakklandi og Englandi er ákæruvaldið hjá neðri deild, en sú efri dæmir. Í Noregi dæmir hæstiréttur og lögþingið, en óðalsþingið ákærir. Í Danmörku ákærir Fólksþingið, en hæstiréttur og jafnmargir úr landsþinginu dæma. Í Svíþjóð ákærir þingið, en sjálfkjörnir embættismenn dæma.

Eins og sjá má af þessu, er alstaðar forðast, að ákæru- og dómsvaldið sé í sömu höndum.

Eg get bætt því við, út af því sem háttv. flutningamaður sagði, að hann áliti óheppilegt, að láta sýslunefndirnar kjósa menn í landsdóminn, að þar erum við á alveg mótsettri skoðun. Eg hefi þá reynslu, að sýslunefndir hafa gert sér far um að kjósa í landsdóm samkvæmt núgildandi lögum gætna og eldri menn.