04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

86. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Eg átti hér á dögunum brtill. við fjáraukalögin, er fór fram á sama og þetta frumvarp. Þegar þau lög vóru feld hér í deildinni, lofsællar minningar, bjóst eg ekki við, að fram mundi koma á þessu þingi nein lög, er færi fram á útgjöld úr landssjóði. En fáum stundum eftir að lögin vóru feld, vóru þegar prentuð þrjú frv. til heimildarlaga fyrir landsstjórnina til að veita fé úr landssjóði. Mér virtist þá, að eg gæti ekki setið hjá og látið þau frv. ganga fram, án þess að gefa þinginu kost á að fjalla um þetta mál, sem eg tel í fremstu röð þeirra mála, sem hér um ræðir.

Eins og flestum er kunnugt, er á svæðinu frá Reykjanesi og austur á Hornafjörð alls engar hafnir, er því nafni geti nefnst og lendingar afarillar. Þó liggur víðast þar að landi einhver fiskisælasti sjór hér við land, að minsta kosti síðari hluta vetrar.

Mér hafði verið þetta um langan tíma kunnugt áður en eg ferðaðist austur um fjall í erindum Fiskifélags Íslands síðastliðinn vetur. En mér varð þá fyrst ljóst, að fiskimenn á Stokkseyri og Eyrarbakka eru nú miklum mun verr staddir en þeir vóru fyrir nokkrum árum. Áður gengu þaðan að eins opnir bátar til fiskjar, og þá var Þorlákshöfn þrautalending þeirra, þegar sundin á Stokkseyri og Eyrarbakka vóru ófær vegna brims, en nú kemur Þorlákshöfn þeim eigi að slíku gagni sem áður, því að vélbátarnir, sem nú eru því nær hinn eini skipakostur þeirra til fiskveiða, eru of þungir og óviðráðanlegir til að lenda þeim, jafnvel þótt með rólegum sjó sé, hvað þá heldur í brimi.

Þeim er því nú enginn annar kostur, en að liggja úti á hafi, hvernig sem veður er, og þegar þess er gætt, að þeir með allri landsunnan og austanátt hafa hina hættulegustu strönd á hléborða, þá ætti öllum að vera það ljóst, að þeir eru að mun hættar staddir nú en áður, og verði eigi ráðin bót á þessu ástandi, getur ekki hjá því farið, að af því leiði stórtjón.

Nú hefir hlutafélag nokkurt keypt Þorlákshöfn og hygst að koma þar upp vélbátahöfn og reka þaðan vélbátaútveg. Hefir það nú sent þinginu umsókn um styrk til fyrirtækisins og farið fram á lán til þess. Fór stjórn þessa hlutafélags þess á leit við mig, með því að hún vissi, að eg hafði hug á því, þótt ekki yrði á þessu þingi, að eg flytti frumvarp þessa efnis. Eg var ráðinn í því að hlutast til um, að lagt yrði fyrir þingið 1915 frumvarp í þessa átt, ásamt fleiri frumvörpum um hafnabætur og lendingu, en eg hefi aldrei verið í neinum vafa um, að þarna er þörfin brýnust og má með engu móti dragast, ef ekki á að leiða stórtjón af.

Mér var því einkar ljúft að verða við þeim tilmælum og það því fremur, sem eg þekti suma af forgöngumönnum þessa máls sem sérstaka framkvæmdamenn.

Eg hefi heyrt á ýmsum deildarmönnum, að þeir vilji að vísu styðja málið og áliti það mesta nauðsynjamál, en þeir vilji gera það skilyrði fyrir fylgi sínu við málið, að landsjóður kaupi Þorlákshöfn, annaðhvort taki hana eignarnámi eða kaupi hana á venjulegan hátt.

Ekki er eg því á nokkurn hátt mótfallinn, að landssjóður eignist þessa eign og láti byggja þar höfn á sinn kostnað, en eg óttast fyrir því, að það myndi valda drætti á framkvæmd málsins, og hann tel eg hættulegan. Hefir mér virst svo, sem framkvæmd landasjóðs í hverju landi sem er, sé eigi mun rösklegri en einstakra manna, nema síður sé. Þá hefir því og verið haldið fram, að núverandi eigendur Þorlákshafnar okruðu á henni og tæki óvenjulega hátt gjald fyrir uppsátur, og að það myndi jafnvel geta orðið frágangssök að nota höfnina vegna þess hve dýr hún yrði.

En í fyrsta lagi er það nú fjarri öllum sanni, að eigendur Þorlákshafnar hafi enn sem komið er beitt sjómenn neinum ójöfnuði, og í öðru lagi væri þingi og stjórn ávalt innan handar að taka eign þessa eignarnámi ef almenningsþörf krefði.

Uppsátursgjaldið er nú ½ hlutur á hverjum bát og mun það verða sem næst 4–5 af hundraði af afla bátsins, virðist það ekki afarhátt gjald, þegar litið er til þess, að fiskimönnum eru lögð til vergögn og íbúð.

Þá hefir því verið hreyft til andmæla, að málið væri ofilla undirbúið. Þetta gæti verið ástæða, ef hún væri á rökum bygð. Landsverkfræðingurinn hefir látið aðstoðarmann sinn, hr. Jón Ísleifsson, gera athuganir á staðnum og sjálfur hefir hann verið þar í sömu erindum. Að vísu hefir hann ekki getað vegna tímaskorts lagt fram teikningu af höfninni né nákvæma áætlun um kostnaðinn, en hann hefir leyft mér að hafa það eftir sér, að kostnaðurinn mundi verða öðruhvorumegin við 75 þúsund krónur, og ætla eigendurnir að sjálfsögðu að leggja það fé til, sem styrkurinn og lánið hrekkur ekki til, en þeir sjá sér ekki fært, að leggja út í fyrirtækið hjálparlaust.

Mér dettur í hug atburður, sem fór fram fyrir mörgum hundruðum ára á því sama landsvæði, sem hér á hlut að máli, suðurlandsundirlendinu. Þegar mörgum banaspjótum var beint að brjósti eins hins göfgasta og glæsilegasta manna fornaldarinnar, Gunnars á Hlíðarenda, þá bað hann konu sína að snúa sér bogastreng úr hári hennar, en hún spurði þá þessarri kæruleysislegu og kuldalegu spurningu: »Liggur nokkuð við?« »Líf mitt liggur við,« svaraði hann. En kvenflagðið synjaði honum hársins og hann féll fyrir óvinunum, svo sem kunnugt er.

Nú er mörgum banaskeytum beint að brjóstum þeirra manna, er sjó stunda á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þingið á nú ráð á þeim bogastreng, sem eignir og líf þessarra manna er undir komið. Vill það nú synja um aðstoð sína, eða vill það treysta strenginn, svo að lifi og eignum verði betur borgið? Eg vil vona það.

Annars vegar blasir hér við hætta á tjóni lífs margra efnilegra manna og meiri eða minni eigna, ef framkvæmd þessa máls dregst, en hinsvegar aukið öryggi á lífi og eignum, aukin framleiðsla og meira gjaldþol og beinar tolltekjur í landssjóð, ef fljótt og vel er við brugðið. Ef þingið vísar þessu máli á bug og af því hlýzt tjón, þá vildi eg ekki vera í sporum þeirra manna, er að því væri valdir.

Eg hefi áður tekið það fram, að eg vildi stuðla að því, að vér takmörkuðum sem mest útgjöld vor til þess, er eigi færir beinan arð, en eg er á gagnstæðri skoðun þegar um er að ræða þær framkvæmdir, er auka velmegun og öryggi. Frá mínu sjónarmiði er þetta fyrirtæki beinn búhnykkur fyrir landssjóð.

Eg vil nú eigi lengja umræður um þetta mál við þessa umræðu, en aðeins bæta því við, að eg vona að deildin sýni þessu máli þann sóma að skipa nefnd í það og leyfa því að ganga til 2. umr. Leyfi eg mér að stinga upp á 5 manna nefnd.