04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

86. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Guðmundur Hannesson:

Eg stend upp til þess að leiðrétta misskilning eða ranghermi hjá háttv. 1. þm. Rangv.s. (E. J.). Hann sagði, að eg hefði metið mannslífið á 500 kr. Þetta er rangt. Eg sagði um daginn, að jafnvel þótt mannslífið væri ekki metið hærra en 500 kr., þá mundi læknir, sem mikið hefði að starfa, borga sig ágætlega fyrir landið, þar sem hann áreiðanlega bjargaði að minsta kosti 10 mannslífum á ári hverju.

Eg er ekkert hissa á því, að deildin er hér um bil tóm, þegar verið er að ræða um þetta mál. Það er í samræmi við mína reynslu, að fáir hafa áhuga á stjórnmálum en margir á málum, sem snerta einstaklings hag, metnað og valdahag — þegar um slíkt er að ræða, þá er deildin venjulega troðfull.

Þó að eg sé ókunnugur þar eystra, þá dylst mér það ekki, að þetta er mál, sem vert er að athuga vandlega og sýna allan sóma, og vildi eg því leggja til, að nefnd yrði kosin í það. Undirbúninginn er mér ókunnugt um, en væntanlega rannsakar nefndin það atriði sem önnur.