04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

86. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Matthías Ólafsson:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) var sömu skoðunar og eg um það, að hér væri um nauðsynjamál að ræða. En okkur greinir á um það, að hann vill ekki koma þessu fyrirtæki í framkvæmd fyrr en landssjóður sé orðinn eigandi Þorlákshafnar. Eg get ekki betur séð, en að rétt sé hér sem annarsstaðar setningin: »fljótt hjálpað er tvisvar sinnum hjálpað«. Og þótt höfn sé gerð áður en landssjóður eignast landið, þá útilokar það alls ekki, að landið geti fengið eignina með sömu kjörum og nú, því að við væntanlegt eignarnám mundi auðvitað verða tekinn til greina sá styrkur, er landið hefði veitt til hafnargerðarinnar. En að fara nú að stanza við kaupsamninga á eigninni, mundi taka langan tíma og sá dráttur gæti orðið mörgum manninum að fjörlesti.

Annars álít eg það óþarft að vera að halda hrókaræður um þetta mál. Verkfræðingur landsins hefir skoðað hafnarstæðið, en hann var ekki viðbúinn með teikningar, svo að ekki hefir verið hægt að leggja þær hér fram. Hann kvaðst áætla kostnaðinn við hafnargerðina eitthvað öðru hvoru megin við 75 þús. kr. Þar af er farið fram á, að viðlagasjóður láni 40 þúsund kr. og að fyrirtækið sé styrkt með 20 þús. kr. af landsjóði, en að eigendurnir leggi til mismuninn, ca. 15 þús. kr. Málið er því ekki eins illa undirbúið og gefið hefir verið í skyn. Og sé viljinn góður hjá háttv. þingm., þá hygg eg, að ekki sé mikið að óttast þá ástæðu. Annars mæli eg með því, að nefnd verði kosin í málið.