08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

6. mál, líftrygging sjómanna

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Eg verð að biðja afsökunar á því, að eg fer að svara þessari plötusláttarræðu hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) fáeinum orðum. Hann hefir altaf frá því fyrsta lagt á móti þessu frv., og notað til þess það, sem hann hefir til brunns að bera af mælsku og þekkingu, og jafnvel efasömum sannleika nú upp á síðkastið.

Út af því, sem hann sagði um Austurland, skal eg geta þess, að honum er ekki kunnugra um það atriði en mér, nú orðið. Hann var þar sjálfur á fundi þar sem tekið var fram, að borga mætti út vátryggingarfé fyrir 4 menn á bát, hverjir svo sem þeir væri, alveg eins þótt einhver annar væri í stað einhvers hásetans.

Yfirleitt vóru flestar mótbárur háttv. þm. gegn frv. á litlum rökum bygðar, og hafa komið fram áður. Hann hefir, mót venju, farið að tala um einstakar greinar í því við þessa umr., svo brátt hefir honum verið orðið, og lái eg honum það reyndar ekki, því að hann er hvatur að eðlisfari og vill láta það koma sem fyrst fram, hve mikla þekkingu hann hafi á þessu máli.

En hann hefir alveg hlaupið yfir það, sem eg álít aðalatriðið og tók fyrst fram, og það er þetta, að þeir sem eru í minni hættu eiga að styðja þá, sem eru í meiri hættu. Hann sagði, að það vantaði »statistik«, og enginn vissi, hvort þetta 10 kr. gjald væri sanngjarnt, en eg hygg, að í þessu frv. sé farið nærri um það, hvað muni hrökkva til.

Til þess að gera frv. tortryggilegt, greip hann jafnvel til þess að gefa í skyn, að það mundi veikja lánstraust landsins, ef landssjóður tæki á sig þessa ábyrgð. Eg vona að guð gefi það, að aldrei verði það tjón, að landasjóður fái ekki risið undir ábyrgðinni, enda atendur altaf sá vegur opinn að hækka iðgjöldin, ef þarf.

Þá benti hv. þm. (G. E.) á það, til dæmis um hve ilt frv. væri, hve hörð sektaskuldin væri í garð sýslumanna. Eg verð nú að segja það, að ef þeir herrar yrði vísvitandi valdir að því, að menn druknuðu óvátrygðir — eg segi vísvitandi, því að altaf vita þeir, hvort menn geta sýnt skilríkin eða ekki þá er það ekki ofmikið fyrir jafnherfilegt brot, þótt sektin sé ákveðin alt að 1000 kr. Ef hv. þm. vill koma fram með frv. um verðlaun fyrir afglöp embættismanna, þá er honum það auðvitað velkomið, en eg mundi verða á annari skoðun um það.

Annars býst eg nú við því, eftir brosinu sem eg sé á ýmsum hv. þm., að ræða hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), muni ekki hafa haft sérlega mikil áhrif á þá.

Eg skal svo ekki þrefa um einstök atriði málsins, en aðeins taka það fram, að eg get gengið að því, að í manna nefnd verði skipuð.