21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

9. mál, markalög

Guðm. Hannesson:

Það er ekki nema eðlilegt, að frv. í þessa átt komi fram hér á þinginu, því að mál þetta hefir verið rætt í mörg ár.

Eg vil þó ekki, að málið sé afgreitt á þessu þingi, og það af góðri og gildri ástæðu.

Þessi ástæða er sú, að eg hygg, að almenningur í landinu sé þessarri breytingu mótfallinn. Eg átti tal um þetta við nokkra menn fyrir norðan, og vóru flestir því mótfallnir.

Að öðru leyti hefir verið bent á það af síra Arnóri Árnasyni í »Frey«, ef eg man rétt, að markbreytingin væri talsverðum erfiðleikum bundin, meðan hún væri að komast á. Nú er allur fénaður markaður á báðum eyrum, svo að ilt er við að eiga, meðan það fé er ekki fallið úr sögunni.

Það getur verið gott að setja nefnd í málið, Svo að almenningur fái að vita, að málinu er nú hreyft í alvöru. En að svo stöddu tel eg rangt að frv. gangi í gegn, enda vakti það ekki fyrir háttv. flutningsm., eftir því sem mér skildust orð hans.