21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

9. mál, markalög

Flutningsm. (Jóhann Eyjólfsson):

Hér sannast hið fornkveðna: Vont er að róa einni ár, út á sjóinn kalda.

Þeir eru ekki margir, sem liðsyrði ljá þessu frv. Allir, sem tekið hafa til máls, hafa andmælt því, og þó enginn komið með aðra ástæðu en þá, sem eg hafði bent á sjálfur, nfl. að málið væri tilfinningamál.

Hv. þm. A.-Skaft. (Þorl. J.) spurði, fyrir hverja eg flytti þetta frv., — eg mundi ekki flytja það samkv. óskum kjósenda minna.

Þessu svara eg svo, að þetta frv. flyt eg fyrir hönd landsins og framtíðarinnar. Það munum við báðir komast á snoðir um, hv. þm. A.-Skaft. (Þ. J.) og eg, að honum mun verða gefið hornauga, en mér gott auga í framtíðinni, fyrir afskifti okkar í þessu máli.

Það, sem sami hv. þm. sagði um brennimörk eystra, sannar einmitt ágæti þessarar stefnu, sem í frv. felst. Því að brennimörkin sýna í hvaða sýslu og hrepp að kindin á að fara, en þau koma ekki nema að hálfum notum, því að ómögulegt er að brennimerkja kollótt fé, og ekki lömbin, en á þeim eru vanalega mest óskilin, og svo verða brennimörkin því miður oft óskýr.

Mér þótti gaman að hlusta á sessunaut minn, hv. l. þm. Rang. (E. J.). Honum fór líkt og átti sér stað oft í fyrri öldum: Hann vildi láta kveða upp dauðadóm, áður en málið væri prófað. Annars heyrði eg hann ekki segja neitt það, sem vert er að kalla ástæður, og því engin þörf á að hafa mikið fyrir að svara honum.

Eg get ekki séð, að hver sýsla geti ráðið ein um mörk sín það gæti komið í bága við mörk næstu sýslna. Eg hygg, að það sé lítt framkvæmanlegt að taka upp sýslumörk, nema að það sé gjört á öllu landinu í einu.

Að öðru leyti hafa engar ástæður komið fram gegn þessu frv., enda var ekki við þeim að búast, því að þær eru ekki til.