15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

50. mál, skipun prestakalla

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Að því, er frumv. þetta snertir, skal eg geta þess, að það er flutt samkvæmt áskorun, er kom fram á þingmálafundinum í kjördæmi mínu. Sóknin, sem hér um ræðir, hefir að undanförnu um langan aldur verið partur af Eyrarprestakalli í Skutulsfirði, eða af Ísafjarðarprestakalli, sem það nú og er nefnt orðið. — En erfitt er það prestinum á Ísafirði, að þjóna og Hólssókn í Bolungarvík, enda hafa menn, sem heima eiga í Hólssókn, þegar fundið svo ríkt til örðugleikanna, að þeir hafa um nokkur síðustu árin haft sérstakan prest, — hafa sjálfir verið sér í útvegum um hann, enda þótt presturinn á Ísafirði sé enn rétti sóknarpresturinn þeirra, og því er það nú ósk þeirra, að Hólssókn verði gerð að sérstöku prestakalli.

Geta má þess og, að eg hefi átt tal um mál þetta við biskupinn, og hefir hann tjáð sig því mjög meðmæltan.

Auðvitað er þó, að þótt þessu fengist framgengt á þinginu, sem nú stendur yfir, þá kæmist breyting þessi þó ekki, á, fyrr en presturinn á Ísafirði deyr, eða lætur af prestskap, svo að ekki eykur frumvarpið því útgjöld landssjóðs um einn eyri í bráð.

Eg vona, að mál þetta fái góðar undirtektir, og leyfi mér að stinga upp á, að því verði nú þegar vísað til 5 manna nefndar, að umræðu þessari lokinni, og fái að ganga til 2. umr., og gefst þá síðar færi á, að gera nánar grein fyrir öllu, er að því lýtur, og tryggja ætti framgang þess.