17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Mótbárurnar frá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fundust mér koma úr allra hörðustu áttinni, og átti eg þeirra því allra sízt von þaðan, þar sem hann er ráðunautur Fiskifélagsins. Eg bjóst við, að sem slíkur mundi hann telja sér það skylt að styðja að öllu, sem miðar að því, að efla sjávarútveginn; en mér virtist öll ræða hans fara alveg í öfugu áttina.

Hann gat þess, að frv. mundi, hvað sem Bolvíkingum liði, vekja mótspyrnu eða valda óvinsældum, annarsstaðar við Djúpið, en gleymdi að færa nokkur rök að því, enda hagur Bolvíkinga vitanlega í fylsta skilningi hagur manna annarsstaðar við Djúpið, þar sem þeir reka þaðan atvinnu æ öðrum þræði.

Tillaga háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), er fer í þá átt, að visa málinu til þjóðjarðasölunefndarinnar, finst mér, að ekki geti komið til nokkurra mála. Þetta mál er verkefni hennar alveg óskylt.

Það getur verið, að svo megi til haga, að ekki verði nauðsynlegt að láta eignarnámsheimildina ná til allra jarðanna. En eg býst við, að eigendunum sé gerður lítill greiði með því, að skilja nokkuð eftir, sé alt tekið, sem næst er sjónum.

Eg lít svo á, sem ekki sé veruleg ástæða til að setja nefnd í málið, en set mig þó ekki móti því, ef það er vilji deildarinnar.