17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Matthías Ólafsson:

Það virðist vera talsvert erfitt verk, að gera háttv. sessunaut mínum (Sk. Th.) til hæfis.

Eg set mig ekki á móti því, að það af þessum jörðum, sem nauðsynlegt er að taka vegna fiskþurkunar, verði tekið, en eg sé enga ástæðu til að leyfa heilum hrepp að taka sig allan eignarnámi.

Eg held, að háttv. flutningsmaður hljóti að sjá það, ef hann hugsar vel um það, að það er alveg nauðsynlegt að taka það fram í frv. sjálfu, í hvaða tilgangi eignarnámsheimildin sé veitt.

Eg sé ekki, að það sé á nokkurn hátt nauðsynlegt fyrir sjávarútveginn, að allar þessar jarðir sé teknar eignarnámi. Hitt getur verið, að það sé nauðsynlegt að taka malirnar, en jarðirnar þurfa ekki að ónýtast fyrir því, og víst munu þær ekki verða einskisvirði þegar miljónir manna lifa í Bolungarvík, eins og háttv. flutningsmaður gaf í skyn, að gæti átt sér stað í framtíðinni.

Það sem eg hefi á móti þessu frumv. er ekki það, að eg vilji gera sjómannastéttinni óhagræði, heldur vil eg ekki, að tekið sé öðrum í óhag til að hlaða undir þá, og svo finst mér það líta nokkuð stórkostlega út, að taka svo margar jarðir eignarnámi í einu.